28.04.1969
Neðri deild: 82. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1050 í B-deild Alþingistíðinda. (1181)

233. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Frv. um heimild til aukinna botnvörpuveiða innan fiskveiðilandhelginnar hafa á undanförnum árum verið flutt af einstaka þm. hér í þessari hv. d., en ekkert þeirra hefur náð fram að ganga fyrr heldur en nú rétt fyrir jól, eða 20. des. s.l. var samþ. frv. um bráðabirgðabreytingu á þessum l., sem borið var fram af nokkrum þm. Sjútvmrh. skipaði hinn 2. október, eins og fram kom hjá hæstv. dómsmrh., nefnd þm. til þess að gera till. um hagnýtingu fiskveiðilandhelginnar almennt. Þegar var séð í haust, þegar dómsmrn. hafði lagt til, að gefnar yrðu upp sakir fyrir þau brot, sem fram að þeim tíma hefðu átt sér stað í sambandi við botnvörpuveiðarnar, en eftirleiðis mundi l. verða stranglega framfylgt, að rekstursgrundvelli undir verulegum hluta þess bátaflota, sem bolfiskveiðar stunda, væri kippt í burtu. Hins vegar lá það einnig fyrir alveg ljóst, að sú n., sem ráðh. hafði skipað til að fjalla um þessi mál, mundi ekki ná til að skila störfum það tímanlega, að til kæmi, að Alþ. mundi samþykkja nokkra varanlega lausn í þessum efnum, og varð það til þess, að frv. var lagt fram, og ég hygg, að alþm. hafi almennt þá þegar gert sér ljóst, að við svo búið gæti ekki staðið lengur, að löggjöf, sem í gildi væri, væri þverbrotin af stórum hluta sjómannastéttarinnar allt í kringum land, heldur yrði að gera þar á breytingu, og það hafi verið ástæðan fyrir því, að Alþ. náði ágreiningslítið samstöðu um að samþykkja til bráðabirgða þá lausn, sem þá lá fyrir.

Landhelgisnefndin svo kallaða hóf störf síðustu dagana í októbermánuði, og hefur sleitulítið starfað að þessum málum síðan. Það munu hafa verið haldnir 40 bókaðir nefndarfundir auk 9 funda, sem haldnir voru úti á landi til umræðna um málin. N. notaði að nokkru leyti áramótafrí þingsins til þess að ferðast um landið og kynna málið og einnig og ekki síður til þess að fá sem víðtækast álit einstakra aðila, sem þessi mál þekktu, fá álit þeirra, til að hún gæti eftir því nokkuð frekar gert sér grein fyrir, hvað eðlilegt væri að gera og þá helzt í hverjum landsfjórðungi eða á hverju veiðisvæði. Ég hygg, að n. hafi stigið þarna nokkuð rétt spor, því að vissulega reyndist mikill áhugi alls staðar þar sem n. hélt fundi. Reyndist mikill áhugi fyrir málinu, urðu um það miklar umr., og menn sögðu afdráttarlaust frá afstöðu sinni, hvort þeir voru með eða móti málinu. Ég hygg, að það hafi alls staðar komið fram, að skiptar skoðanir voru um málið. Sumir voru ákveðnir með því, að I. yrði að breyta allverulega. Aðrir töldu ekki ástæðu til þess og a.m.k. yrði að fara með allri gætni og varúð í sambandi við allar hugsanlegar breytingar. Auk þeirra funda, sem n. hélt í öllum landsfjórðungum og voru 9 talsins, eins og ég minntist á, kom til viðræðna við n. mjög mikill fjöldi einstakra manna, bæði einstaklinga og fulltrúa frá einstökum félögum og félagasamtökum, bæði samtökum útgerðarmanna og samtökum sjómanna og fiskvinnslunnar.

Ég hygg því, að þetta mál hafi verið mjög gaumgæfilega rætt við alla aðila, sem hér geta átt hlut að máli, og n. gegnum það hafi getað aflað sér mjög víðtæks sjónarmiðs yfir afstöðu manna til málsins, bæði þeirra, sem eru því fylgjandi að veita auknar heimildir, og einnig þeirra, sem eru því andstæðir. Hún hafði því vissulega nægjanlegt verkefni til að vinna úr, þegar hún hafði gert þessar athuganir, og notaði hún páskaleyfi sitt nokkuð til þess og varð að lokum sammála um ákveðnar till., þó að vissulega hafi innan n. einnig verið mismunandi sjónarmið um það, hversu langt ætti að ganga og hversu víðtækar breytingar eðlilegt væri að gera. En ég hygg, að allir nm, hafi verið sér þess meðvitandi, að málið væri það stórt og viðamikið, að þó að hver og einn fengi ekki nema hluta af því sjónarmiði, sem hann hélt fram, framgengt eða samstöðu um það,

þá vildi enginn verða til þess, að n. klofnaði, ef annars væri kostur. Svo reyndist einnig að lokum, að ég hygg, að allir nm. hafi gert nokkrar tilslakanir á afstöðu sinni. og þá náði hún saman um sameiginlega till., sem nokkurn veginn hygg ég óbreytt kemur fram í 2. gr. þess frv., sem hér liggur fyrir. Mjög hefur verið um það talað í öll skiptin, sem þetta mál hefur borið á góma, bæði innan þings og utan, hvort virkilega væri nokkur þörf á breytingu á l. um bann gegn botnvörpuveiði. Margir hafa mjög eindregið haldið því fram, að svo væri ekki, og varðandi brot einstakra skipstjórnarmanna, sem átt hafa sér stað, þá væri þar bara um frekju og yfirgang að ræða frekar en nauðsynlegt væri að stunda veiðarnar á þann hátt, sem gert hefur verið. Ég tel, að þetta stafi af nokkurri vanþekkingu, hef ávallt haldið því fram, að svo væri, því þó að segja megi, að bátaflotinn geti haft og hafi sæmilegan rekstrargrundvöll á vetrarvertíð, þá er allt annað að segja um hluta hans eða hina smærri báta, þá, sem bolfiskveiðarnar stunda yfir aðra mánuði ársins, ég vil segja allt frá byrjun maí og fram til áramóta. Ég hygg, að engum detti í hug að halda því fram, að á svæðinu frá Látrabjargi og austur um að Stokksnesi, mundi það bera nokkurn árangur, þó að einhverjir útgerðarmenn og sjómenn vildu ráðast í það að stunda línu-, neta- eða handfæraveiðar yfir sumareða hausttímann. Ég tel mig það kunnugan þessum málum á þessu svæði, að ég hygg, að það mundi engum útgerðarmanni detta í hug, að hann gæti haft rekstrargrundvöll fyrir bát sinn með því að stunda þessar veiðar á þessum tíma og á því svæði, sem ég tilgreindi. Spurningin er því, eru til önnur veiðarfæri, aðrar veiðiaðferðir, sem bátaflotinn getur byggt rekstrargrundvöll sinn á? Ég tel, að það hafi fengizt reynsla fyrir því, að svo er. Ég hygg, að flestir, sem látið hafa, eða flestir, sem stundað hafa botnvörpuveiðar á hinum smærri bátum á undanförnum árum, telji, að ef hægt er að gera það með eðlilegum hætti og á þeim veiðisvæðum, þar sem sjómenn telja eðlilegt, að veitt sé, þá muni vera hægt að telja, að sæmilegur rekstrargrundvöllur sé fyrir bátaflotann einnig verulegan hluta af þeim tíma, sem nefndur var, eða frá því í byrjun maí og fram til áramóta. Enda er það vitað, að allstór hluti hinna smærri vélbáta var þegar farinn að stunda þessar veiðar, en í ljós kom, að það var ekki gert með neinum viðunandi árangri nema farið væri inn fyrir þau mörk, sem í gildi voru allt til 1. desember.

Ég tel því, að hv. Alþ. verði að gera sér grein fyrir, að ef ekki komi fram ábendingar um aðrar veiðiaðferðir sem rekstursgrundvöll fyrir bátaftotann, þá verði að gera allverulega tilslökun á I. um bann gegn botnvörpuveiði. Ég hef bent á það hér áður, að það er ekki einasta þarna í húfi atvinna sjómanna og afkoma útgerðarinnar, heldur hygg ég, að sé enn þá stærra vandamál afkoma þess verkafólks á hinum ýmsu stöðum allt í kringum land, sem vinnur við fiskiðnaðinn. Því að ef svo færi, að ekki væri hægt að hafa sæmilega trygga afkomu fyrir útgerðina nema yfir hávetrarvertíðina, þá tel ég, að það liggi alveg beinlínis fyrir, að útgerð þessara smærri báta hlyti að leggjast niður, þar sem ekki verður staðið undir hvorki afborgun og vöxtum af þessum atvinnufyrirtækjum eða rekstri þeirra, ef aðeins er um að ræða þriggja til fjögurra mánaða úthaldstíma. Ef svo færi, að útgerð þessara báta drægist verulega saman, þá liggur það einnig alveg ljóst fyrir, að vá er fyrir dyrum í hinum ýmsu byggðarlögum atvinnulega séð, því að víða er það svo, að fiskvinnslustöðvarnar eru nær einasta atvinnutækið, sem fólk hefur til að byggja afkomu sína á. Þetta mundi að sjálfsögðu hafa í för með sér alvarlegan samdrátt í hinum ýmsu byggðarlögum og skapa vandamál fyrir þjóðarheildina á þann veg, að fólk mundi þá enn frekar en áður sækja utan af landsbyggðinni hingað í þéttbýlið við Faxaflóa. Ég tel, að einmitt þetta sjónarmið verði að vera í hugum manna, þegar þessi mál eru rædd, að það er ekki þarna verið að gera neina óeðlilega tilslökun til handa sjómönnum og útgerðarmönnum til að stunda fiskveiðar, heldur er þarna um að ræða hagsmunamál alls almennings allt í kringum land í hinum dreifðu byggðum landsins.

Ég vil undirstrika það, sem mér er vel kunnugt, að hinir ýmsu skipstjórnarmenn, útgerðarmenn og sjómenn, sem þessar veiðar hafa stundað áður og gerzt brotlegir við gildandi lög og reglur, þeir eru er ég sannfærður um í eðli sínu síður en svo nokkuð ólöghlýðnari menn heldur en almennt gerist, heldur hafa þeir verið þarna í hreinni sjálfsvörn og þeirri aðstöðu, að þeir hafa orðið að berjast ég vil segja upp á líf og dauða fyrir tilveru sinni, fyrir afkomu sinni og sinna byggðarlaga. En vonandi er það liðin tíð, að sjómenn lendi í þeirri aðstöðu, sem þeir hafa verið í við þessar veiðar, og hv. Alþ. nái samstöðu um það að þær breytingar á gildandi lögum, að viðunandi sé, til þess að þessar veiðar verði stundaðar með árangri og menn eftirleiðis geti stundað þær án þess að gerast brotlegir við gildandi lög eða reglur. Og n. er alveg sammála um það, að verði það frv., sem hér liggur fyrir, samþ. í því formi, sem það er, skuli það leiða til þess, að l. og reglum um þessar veiðar verði eftirleiðis framfylgt og þeir, sem gerast brotlegir við þær, beri fulla ábyrgð gjörða sinna. Við, sem höfum verið fylgjandi því á undanförnum árum, að verulegar tilslakanir væru gerðar um þessar veiðar, gerum okkur alveg ljóst, að ef frv. það, sem hér liggur fyrir, verður samþ., þá er það eðlilegt, að löggjafinn, sem framkvæma á þessi lög eins og önnur, geri það og menn verði látnir sæta ábyrgð, ef þeir gerast brotlegir við þau.

Ég sé nú ekki ástæðu til þess að rekja hverja einstaka till. n., sem fram kemur eins og ég sagði í 2. gr. frv. Þar er um næstum mjög tæknileg atriði að ræða, en segja má í heild um till., að þær eru verulegar tilslakanir. Miðað við þau lög og þær reglur, sem í gildi eru, þá er þar um verulegar tilslakanir að ræða, sérstaklega fyrir hina smærri eða smæstu báta, allt að 105 tonnum, eins og fram kemur í frv., bæði fyrir Norðurlandi, Suðurlandi, hér við Reykjanes, Faxaflóa og Breiðafjörð. Það er um mun minni tilslakanir að ræða eða mun minni breytingar að ræða bæði fyrir Austurlandi norðan til og einnig fyrir Vestfjörðum. Það var einmitt þetta atriði, sem nm. í landhelgisnefnd greindi nokkuð á um, hvað eðlilegt væri að ganga langt í hverju tilfelli og á hverju veiðisvæði. Það voru uppi um það mjög margar og misjafnar skoðanir, ekki einasta innan n., heldur fengum við till. og álitsgerðir víðs vegar að úr hinum einstöku sjávarplássum, þar sem menn einnig innbyrðis greindi nokkuð á um það, hvað eðlilegt væri að ganga langt í breytingu þeirra laga, sem gildandi voru. Og það var alveg rétt, sem hæstv. dómsmrh. benti hér á, að menn almennt spurðu um það, hvort þeir hefðu gert sér grein fyrir því, að um einhverjar breytingar yrði að ræða, en flestir ræddu málið á þeim grundvelli, hversu eðlilegt væri að gera miklar breytingar. Ég hygg því, að það sé nokkuð almenn samstaða um það um landið, að eðlilegt sé, að einhverjar breytingar verði gerðar á þeim lögum, sem nú gilda um bann gegn botnvörpuveiði.

Eitt atriði var það, sem n. greindi nokkuð á um og skiptar skoðanir voru um og ég hygg nú, að við komumst næst því, að n. klofnaði á, en það var um mismunandi sjónarmið um hættu á árekstrum milli hinna einstöku veiðarfæra, það vill segja hættu á árekstri milli þeirra báta, sem stunda togveiðar, og þeirra báta, sem stunda neta- og línuveiðar. Ég hélt því mjög ákveðið fram og taldi mig byggja það á nokkurri reynslu, að sá ótti, sem hjá nm. öðrum, ég hygg flestum, kom fram um árekstra milli þessara veiðarfæra, væri ekki á rökum reistur, því að það hafði sýnt sig á undanförnum árum, að á svæðinu frá Reykjanesi og að Ingólfshöfða, þar sem jöfnum höndum hafa verið stundaðar botnvörpuveiðar og línu- og netaveiðar, þar hefur ekki mér vitanlega komið til neinna teljandi árekstra milli báta, sem þessar veiðar stunda. Nú í vetur hefur þetta kannske komið enn greinilegar í ljós, því að þau rök komu fram gegn þessari skoðun minni í n., að ekki væri um þetta neitt raunverulega hægt að segja, því að botnvörpuveiðarnar hefðu á þessu svæði mikið verið stundaðar ólöglega og þess vegna hefðu menn ekki þorað að beita því veiðarfæri, eins og þeir annars mundu gera, ef um löglegar veiðar væri að ræða, en nú í vetur hafa botnvörpuveiðar samhliða netaveiðum verið stundaðar ég hygg í ekki minni mæli og sennilega í enn ríkari mæli en áður einmitt á svæðinu frá Reykjanesi og að Portlandi eða Dyrhólaey, án þess að mér vitanlega hafi til nokkurra árekstra komið. En þetta er eins og annað í sambandi við þessi mál, að það sýnist þar sitt hverjum, hver heldur fram sínu sjónarmiði, eftir því sem hann telur sig hafa þekkingu á og reynslu fyrir, en reynsla verður auðvitað úr þessu að skera, en mér þótti það mjög miður, að ekki skyldi nást samstaða um það, að það væri almennt sett í heimild til handa ráðh. að ákveða lokun einstakra veiðisvæða, ef nauðsyn væri talin á vegna hættu á árekstrum þeirra í milli. En allt kemur þetta í ljós, ef frv. verður samþ. og eftir því verður farið að starfa, þá kemur þetta allt í ljós á næstu árum, og þá er aðstaða til þess að gera á því þær breytingar, sem nauðsynlegt er talið að gera.

En það, sem að sjálfsögðu mestu varðar, er það, að Alþ. nái samstöðu um það, hvernig Íslendingar geta á sem hagkvæmastan og beztan hátt nýtt þau veiðisvæði, sem innan fiskveiðilandhelginnar eru, og þá með þeim veiðarfærum, sem bezt henta hverju sinni og á hverjum stað, því að það liggur alveg ljóst fyrir, að þó að botnvarpa henti bezt á þessum eða hinum staðnum, þá getur verið svo og er það svo, að menn telji hagkvæmara að stunda aðrar veiðar, bæði kemur til greina línu- og handfæraveiðar eins og t.d. fyrir Vestfjörðum, þar sem ekki er talin ástæða til að gera neinar tilslakanir fyrir báta úti fyrir því svæði, þar sem veiðar með öðrum veiðarfærum, línu og handfærum, munu gefa nægjanlegt hráefni utan vetrarvertíðar til þess að halda þar uppi eðlilegri atvinnu í sambandi við fiskvinnsluna. En eins og fram kemur í frv. er ætlazt til, að l. gildi aðeins til ársloka 1971, og verður að vænta þess, að þá verði komið nokkuð skýrar í ljós, hvað óhætt er að gera í þessum efnum. Ég hygg þó, að við, sem störfum í landhelgisnefndinni og áttum þess kost að afla okkur verulegra upplýsinga og álits bæði þeirra manna, sem reynslu hafa í þessum efnum, og eins þeirra sérfróðu aðila um þau, fiskifræðinganna, að við teljum, að ekki sé lengra gengið heldur en óhætt er og eðlilegt sé. Fiskifræðingar hafa ekki farið dult með það, látið birta það eftir sér og haldið því fram í ræðum, að þeir teldu, að hvað fiskistofna snertir væri botnvarpan með þeirri möskvastærð, sem nú er í gildi, ekkert hættulegra veiðarfæri heldur en þau önnur, sem veiðar eru nú stundaðar með og tögleg eru. Er þar bæði um línu- og nótaveiðar að ræða. Ég vil einnig í þessu sambandi benda á að ég tel, að mjög mikil reynsla sé fengin í sambandi við botnvörpuveiðar hér við land. Á ég þar við svæðið frá Reykjanesi að Stokksnesi. Á þessu svæði hafa um áratuga skeið verið stundaðar botnvörpuveiðar, og lengi vel allt fram undir síðustu tvo áratugina, þá voru þessar veiðar stundaðar ekki einasta af íslenzkum skipum, heldur og af erlendum skipum, allt inn að þriggja mílna mörkunum gömlu. Það hefur sýnt sig, að fiskur hefur gengið á miðin á þessu svæði ekkert síður að ég vil segja heldur en á önnur svæði við strendur landsins, og nú í vetur mun þetta svæði hafa verið einna auðugast af fiski, eða fiskur gengur þar frekar jafnvel heldur en á önnur svæði. Það sýna veiðar þeirra skipa, sem þar stunduðu veiðar, sérstaklega með netum. Aftur á móti liggur það einnig ljóst fyrir, að annars staðar, t.d. í Húnaflóa, þar sem botnvörpuveiðar eða botnsköfuveiðar — á ég þar hvort heldur við botnvörpu eða dragnót — munu ekki hafa verið stundaðar í nær tvo áratugi, þar hefur fiskigengd mjög dregizt saman. Það hefur almennt verið talið fram að þessu, að um fiskiþurrð væri að ræða í Húnaflóa, og getur það ekki stafað af botnvörpu- eða dragnótaveiðum, þar sem þessar veiðar hafa, eins og ég sagði, um nær tvo áratugi ekki verið stundaðar þar. Þetta bendir til þess, að lítið sem ekkert samband sé á milli þess, hvort botnvörpuveiðar eru stundaðar á þessum stað eða hinum eða í hversu miklu magni fiskur gengur á miðin, hvort heldur er að vetri eða sumri til. Þetta er einnig skoðun að ég hygg fiskifræðinga, og hafa þeir látið þetta álit sitt í ljósi bæði í ræðum og riti.

Þá hefur nokkuð verið á það bent í umr. um þetta mál, að ástæða væri til að ætla, að erlendir aðilar, sem hér áður stunduðu veiðar við strendur landsins, vildu taka það nokkuð óstinnt upp, ef íslendingar sjálfir færu að stunda botnvörpuveiðar innan fiskveiðimarkanna og nýta þau á þann hátt. Ég tel, að n. hafi aflað sér nokkuð öruggra upplýsinga um það, að ekki sé ástæða til að óttast þetta sjónarmið, því að það hafi ávallt komið fram í öllum viðræðum á erlendum vettvangi um þessi mál frá fulltrúum Íslendinga, að þetta væri gert í tvennum tilgangi, annars vegar að sjálfsögðu með það sjónarmið fyrir augum, að veiðisvæðin yrðu ekki of nýtt, og hins vegar einnig vegna þess, að það væri þjóðarnauðsyn, að þau væru nýtt á sem beztan og hagkvæmastan hátt fyrir Íslendinga sjálfa, án þess að hætta væri þar á ofveiði eða rányrkju.

Ég sé svo ekki, herra forseti, ástæðu til þess að fara um þetta fleiri orðum við þessa 1. umr. um málið, og eins og ég sagði, þær till., sem hér liggja fyrir, um hin einstöku veiðisvæði víðs vegar í kringum landið eru það tæknilegs eðlis og það flóknar, að ég hygg, að menn geti gert sér bezt grein fyrir þeim með því að lesa þær og bera þær saman við þau kort, sem með nál. eru birt, og þannig gert sér sem bezta grein fyrir og fengið sem gleggsta hugmynd um þær till., sem hér er um að ræða og sem landhelgismálanefnd skilaði að loknum þeim áfanga í störfum sínum, sem hún var að vinna að, en hún náði aðeins til þess á þessum tíma að gera till. um auknar veiðiheimildir með botnvörpu, en náði ekki til þess að gera beinar till. um frekari hagnýtingu veiðisvæðanna, þá með öðrum veiðarfærum, en hafði þó vissulega aflað sér nokkurra upplýsinga og álits einnig í því sambandi.