09.05.1969
Efri deild: 89. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1163 í B-deild Alþingistíðinda. (1235)

233. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Bjarni Guðbjörnsson:

Herra forseti. Á þskj. 681 hef ég ásamt Ólafi Jóhannessyni, hv. 3. þm. Norðurl. v., flutt brtt. um, að niður falli úr því frv., sem hér liggur fyrir, í sambandi við Norðurland orðin: nema á Húnaflóa.... í Ásbúðarrif.

Meginreglan í sambandi við fiskveiðitakmörkin fyrir öllu Norðurlandi er 8 mílur frá grunnlínu, sem dregin er á milli grunnlínupunkta nr. 1 og nr. 9, þ.e. frá Horni í Langanes, en hvað Húnaflóann snertir er grunnlínan dregin samkvæmt gildandi l. frá grunnlínupunkti 1, Horni, í Ásbúðarrif, en samkv. þessu frv. er gerð undantekningarregla, því að þar er dregin lína frá Horni inn með Ströndum og í Selsker og þaðan í Ásbúðarrif. Við þetta stækkar að mun það svæði, sem togveiðiheimild er veitt á í Húnaflóa. Brtt. þessi, sem ég lýsti hér áðan, snertir þær undantekningarreglur, sem landhelgisn. vill nú láta samþykkja. Í viðræðum þeim, sem þm. Vestf. áttu við landhelgisnefndina, var komið inn á þessa rýmkun á Húnaflóa, og voru þm. Vestf. því mjög andvígir og staðfestu þá andstöðu sína í bréfi til n., dags. 24. marz, þar sem þeir lögðu til, að engin frekari rýmkun yrði á þessu svæði. En það hefur ekki verið tekið til greina. Þessi sama till. var flutt af þm. Vestf. og þm. Norðurl. v. við umr. í Nd., en fékkst ekki samþ. þar. Í því bréfi, sem ég minntist á áðan, var fallizt á af hálfu Vestfjarðaþm., að tvö hólf yrðu opnuð fyrir Vestfjörðum, þ.e. Dýrafjarðarhólfið svokallaða og hólfið milli Rifs og Kögurs, en það var jafnframt skýrt tekið fram, að ekki væri samkomulag um aðrar breyt. á þessum svæðum.

Þessi brtt., ef samþ. verður, þýðir það, að óbreytt verður það svæði, sem nú hefur verið í gildi fyrir Norðurlandi, og engar auknar togveiðiheimildir veittar á Húnaflóa. Svæði það, sem nú opnast, er í svo nefndum Drangaál, það virðist hafa verið eina svæðið, sem menn hafa óskað eftir að slægjast eftir á þeim slóðum. Þetta er eitt af aðallínuveiðisvæðunum fyrir vestanverðu Norðurlandi og út af Ströndum, hefðbundið línuveiðisvæði, og ef þetta verður samþ. að færa út togveiðiheimildina yfir þetta svæði, þá er ákaflega hætt við því, að þarna verði árekstrar á milli tog- og línuveiða, og slíkt ætti nú held ég að forðast í lengstu lög. Þau rök, sem hafa verið færð fyrir því, að óhætt væri að færa þarna út, hafa m.a. verið þau, að þarna væri ekki um að ræða neina útgerð frá Húnaflóaverstöðvum og að þarna hefði ekki verið mikill afli, sem lagður hefði verið á land í þeim stöðvum af þessum veiðisvæðum. Ég tel þetta út af fyrir sig haldlaus rök. Það er að vísu rétt, að það hafa ekki verið gerðir út þarna margir bátar, en þetta svæði hefur verið fisklítið á undanförnum árum, en það hefur sýnt sig, að þegar einhver friður hefur fengizt á þetta svæði, þá hefur gengið þarna fiskur, og er þess skemmst að minnast, að á s.l. sumri mun hafa verið þarna fiskur hvað mest nú í fjöldamörg ár, en þá var svæðið einmitt friðað á s.l. vetri og s.l. vori af hafís. Á þessu svæði hefur verið mikill ágangur af erlendum togurum og innlendum raunar líka, þeir hafa skrapað þarna, og ég held, að það sé ekki á það bætandi, að farið væri að veita auknar togveiðiheimildir á þessum svæðum. Það hefur verið svo í mörg ár, að Vestfirðingar hafa róíð austur fyrir Horn og lagt sínar lóðir í Drangaál, og eins og landhelgisnefndin upplýsti, var þetta eina svæðið, sem óskað var eftir, að væri opnað þarna, það var einmitt Drangaállinn, innri hluti Drangaálsins, en það er einmitt þar, sem línuveiðarnar hafa verið stundaðar.

Þau rök, að þarna sé ekki fiskur, fá heldur ekki staðizt, því eftir hverju er þá verið að slægjast að færa inn þessa línu, ef ekki er fisk að fá þarna? Sannleikurinn er sá, að þarna mun ganga fiskur, ef ekki er stanzlaus girðing af skipum fyrir utan, en það hefur það verið oft á tíðum á undanförnum árum.

Samkvæmt þeim till., sem eru í þessu frv., þá færast veiðisvæðin eða togveiðiheimildirnar misjafnlega langt inn, þ.e. það eru 4 mílur sums staðar og 2 mílur víða annars staðar, sem þetta eykur togveiðisvæðið, og er það töluvert svæði, sem þarna verður lagt undir togveiðarnar. Frv. gerir, eins og ég minntist á áðan, ráð fyrir því, að það sé dregin ný lina frá Horni í Selsker og þaðan í Ásbúðarrif, en það er, eins og ég gat um, hrein undantekning, því að gildandi lína er þarna frá Horni í Ásbúðarrif, og við þessa breyt., sem landhelgisn. stingur upp á, að verði gerð, stækkar það svæði, ef það verður fært inn, togveiðisvæðið, og það tel ég mjög hæpið og hættulegt. Við höfum viljað fallast á, að svæðið fyrir Norðurlandi væri í heild óbreytt frá því, sem verið hefur, en að ekki yrði aukið togveiðisvæðið. Ég vona, að hv. þdm. geti fallizt á það, að það sé ekki ástæða til þess að vera að breyta þarna þessu og auka þetta togveiðisvæði.

Ég er meðflutningsmaður að öðrum till., ég skal ekki ræða mikið um það, en þó get ég ekki stillt mig um að drepa á aðra till. sérstaklega, sem ég er meðflutningsmaður að, en það er till. um breyt. á gildistíma þessara l., að þau gildi aðeins út árið 1970. Það hafa verið færð sem rök fyrir því, að það þyrfti að vera tvær vetrarvertíðir, sem þessi l. giltu, en ég sé ekki, að það þurfi að vera, vegna þess að ein af aðalröksemdafærslunum fyrir því, að þetta frv. eigi að ná fram að ganga, er verkefnaleysi þeirra báta, sem nú eiga að stunda togveiðar á þessum svæðum, verkefnaleysi þeirra yfir sumartímann og fram undir áramót. Þess vegna held ég, að það fáist tvær aðalvertíðirnar með því að samþykkja, að frv. gildi aðeins til ársloka 1970, og það er einmitt það, sem a.m.k. vakir fyrir mér í því sambandi, að á þessum tveimur sumrum eigi að fást næg reynsla fyrir því, hvernig eftirlitið með þessum málum verður framkvæmt. Það er veigamikið atriði í þessu öllu saman, hvernig eftirlitið verður framkvæmt, og til þess nægir örugglega að hafa tvær aðalsumarvertíðirnar og eina vetrarvertíð.

Ég skal svo ekki orðlengja frekar um þetta, en áður en ég lýk máli mínu, vil ég þó koma að þessu aftur um eftirlitið og drepa á það, að eftirlitið með netaútbúnaði og netafjölda í sjó er mjög illa framkvæmt og raunar alls ekki, og það er mjög þýðingarmikið, að slíkt verði ekki látið viðgangast, án þess að það sé gerð einhver raunveruleg tilraun til að fylgjast með því, hvað mikill netafjöldi liggur í sjó, því að ótakmörkuð netaveiði og ótakmarkaður netafjöldi bátanna er sú versta rányrkja, sem átt getur sér stað.