12.05.1969
Efri deild: 91. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1222 í B-deild Alþingistíðinda. (1287)

222. mál, ríkisreikningurinn 1967

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Það var raunverulega ekki aths., sem ég vildi gera við þessa afgreiðslu núna, heldur aðeins að beina þeim orðum til hæstv. fjmrh., að mér finnst eðlilegt, að Alþ. fengi miklu nánari skýrslur frá hinum einstöku ríkisfyrirtækjum. Okkur hafa verið sendar skýrslur frá vissum fyrirtækjum reglulega, en svo eru önnur fyrirtæki, sem skila engum skýrslum frá sér. Ég gæti talið hér upp nokkur fyrirtæki, en ég vil ekki fara út í þá sálma, svo að það valdi ekki sárindum. E.t.v. eru þessar skýrslur til. en þar er gerð miklu nánari grein fyrir ýmsum fjárhreyfingum innan fyrirtækjanna, sem væri eðlilegt a.m.k. að menn í fjhn. d. fengju. Ríkisfyrirtækin eru það mörg, að það er óhjákvæmilegt, að þau geri ársyfirlit og fjhn. sé sent slíkt yfirlit. Það er ekkert óeðlilegt að taka það upp og veita þeim meira aðhald í því efni. Þar eiga að koma fram vissir þættir í rekstri yfir árið. Við getum nefnt sem dæmi, að Áfengis- og tóbaksverzlun ríkisins ætti að senda okkur mjög greinargott yfirlit, og svo mætti telja upp ýmis fyrirtæki. Ég vildi beina þessari beiðni til hæstv. ráðh., að hann hlutaðist til um, að þm., eða a.m.k. nm. í fjhn. d. fengju slík yfirlit frá ríkisfyrirtækjum reglulega og að það slyppi ekkert fyrirtæki við það.