28.11.1968
Neðri deild: 20. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 159 í B-deild Alþingistíðinda. (131)

87. mál, námslán og námsstyrkir

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Það er ekki furða, þó að hæstv. viðskmrh. sé hróðugur, þegar hann er að tala um aðstöðu íslenzkra námsmanna erlendis núna. Hv. þm. tóku eftir því, að hann sagði með áberandi gleðibragði, að það hefði þótt saga til næsta bæjar fyrir nokkrum árum, ef þetta og þetta hefði verið gert. Það vill nú svo til, að ég þekki nokkuð inn á það, hvað það kostar fyrir menn að nema erlendis, og hvernig aðstaða hefur verið til þess að greiða það, bæði nú og eins áður fyrir 10 árum eða þar um bil. Þá var það svo, að dugandi maður, sem hitti á góða sumarvinnu, fór langt með að vinna fyrir því, sem þurfti umfram námslán. Og ef það var mjög duglegur maður og lenti í sérstaklega góðri sumarvinnu, þá gerði hann það fyllilega. Ég vil leyfa mér að fullyrða, að slíkt sé útilokað nú. Það almenna er, að menn fá litla, mjög takmarkaða, vinnu á sumrin til þess að vinna fyrir sínum námskostnaði á þeim stutta tíma, sem menn yfirleitt hafa til umráða, þeir, sem nám stunda í öðrum löndum.

Ég ætla ekki að lengja þessar umr. neitt, en mig langar bara til þess að fá að vita það, hvort það er rétt skilið hjá mér, að efndirnar á því fyrirheiti sem lesa mátti í grein Alþýðublaðsins, sem hér hefur áður verið vitnað til, felist í því einu saman að gera nokkrar lagfæringar eða leiðréttingu á lánamálunum, hvort þær felist í því einu saman, sem hér er fram komið, eða hvort von er á leiðréttingum eða aðstoð varðandi þann hluta námskostnaðar, sem ekki fæst í gegnum lánin. Ef það er svo, að það er eina leiðréttingin, þá fæ ég ekki annað séð heldur en ummæli Alþýðublaðsins um það, að erlendir námsmenn skyldu sleppa skaðlausir, séu fleipur eitt. Hæstv. ráðh. hefur hagrætt hér tölum, þó að lítið beri á, í fleiri greinum heldur en þeim, sem hv. þm. Ragnar Arnalds vék að áðan. Það var hægt að lesa það út úr hans ummælum, að sú upphæð, sem nú á að bæta við Lánasjóðinn, væri bein leiðrétting, hreinn viðauki við það, sem verið hefur. En það er ástæða til þess að gera sér grein fyrir því, að um leið og bætt er við fé eru stórkostlega aukin verkefni sjóðsins, og þau nýju verkefni hljóta, að mér skilst, einnig að kosta fjármagn.

En erindi mitt í ræðustól var nánast það að fá að vita ákveðið, hvort þetta eru efndirnar á því fyrirheiti, sem blað hæstv. ráðh. gaf.