17.10.1968
Neðri deild: 3. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1266 í B-deild Alþingistíðinda. (1351)

2. mál, Stjórnarráð Íslands

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég er þeirrar skoðunar, eins og þeir, sem tekið hafa til máls um þetta frv., að það hafi verið full þörf á því að skipa málefnum Stjórnarráðsins með lögum, og þess vegna fagna ég því, að þetta frv. er fram komið. Ég get einnig lýst því yfir, að ég er við fljótan yfirlestur persónulega samþykkur mörgum meginatriðum þessa frv. og tel allmörg atriði þar vera mjög til bóta frá því, sem verið hefur, því að sannast að segja hefur starfsskipting í Stjórnarráðinu, og þar af leiðandi vinnubrögð, verið mjög losaraleg og verið að mörgu leyti á óeðlilegan hátt bundin því gamla skipulagi, sem mótað var, þegar stjórnarráðsskrifstofurnar voru aðeins þrjár. Málefnaskiptingin undir rn. hefur verið mjög losaraleg og á reiki, og ég fullyrði á margan hátt óeðlileg. Vafalaust yrði með ráðuneytaskiptingu eins og hér er lagt til starfsskiptingin færð í form, sem miklu meira væri í samræmi við nútímaaðstæður. Ég tel því, að í meginatriðum mundi ég vera fylgismaður þessa frv. um Stjórnarráð Íslands.

En það, sem ég vildi aðallega segja nú við þessa 1. umr., er það, að ég óttast, eins og hv. þm. Norðurl. e., sem hér talaði áðan, að þetta frv. kynni að ýta undir eyðslu og meiri kostnað við Stjórnarráð Íslands. Hér er í 4. gr. frv. gert ráð fyrir 13 rn. Ég fullyrði ekkert um það, en mér finnst, eftir reynslu manna hér í útþenslutilhneigingum skriffinnskubáknsins, bæði hjá því opinbera og hjá einkarekstrinum í þjóðfélaginu, að þá mundi þarna frekar með ákvæðum frv. ýtt undir útþenslu, embættafjölgun og aukinn kostnað. Að vísu skal ég játa það, að það skiptir ekki öllu máli, hversu margir ráðh. eru. Það getur verið, að það sé ekki út af fyrir sig kostnaðarauki og gæti í ýmsum tilfellum borgað sig betur, ef málum væri þá betur til lykta ráðið, svo að það er ekki sáluhjálparatriði út af fyrir sig, hvort ráðh. eru 6, 7 eða 8, eða jafnvel þótt þeir væru 13, sem gæti eftir 4. gr. fljótlega stefnt að. Ég óttast þó sérstaklega, að ráðuneytisstjórar yrðu fljótlega 13, þegar rn. væru orðin 13. Ef það yrði hins vegar ekki, hlýtur að vera í framkvæmdinni ætlazt til þess, að einn og sami ráðh. fari með stjórn fleiri en eins rn. Ég vildi, áður en málið fer til 2. umr., aðeins gera grein fyrir lauslegum hugmyndum, sem ég gæti svona talið eðlilegar varðandi skiptingu Stjórnarráðsins í rn. Ég teldi, að forsrn. og utanrrn. ættu gjarnan að fara saman og sá maður, sem velst til þess að vera forsrh., ætti svona í flestum tilfellum að vera til þess hæfur að fara jafnframt með og móta utanríkismálastefnu íslenzku þjóðarinnar og teldi því, að forsætis- og utanrrn. ættu að vera sameiginleg. Dóms- og kirkjumálarn. er gamalgróið, og ekki mundi ég leggja til, að neitt væri hróflað við því, þó að það sé upphaflega vafasamt, hversu vel þau hafa fallið saman, dómsmálin og kirkjumálin út af fyrir sig. Ég fæ ekki svona í fljótu bragði séð, hvaða ástæða hafi verið til að lima í sundur núv. félmrn., eins og hér er gert, í félmrn. annars vegar og svo heilbr.- og tryggingamálarn. hins vegar. Ég tel alveg sjálfsagt, að tryggingamálin heyri undir félmrn. og gæti þannig vel hugsað mér, að þarna væri lögfest heilbr.- og félmrn. og þar með væru auðvitað tryggingamálin öll undir því rn. Fjmrn. er auðvitað sjálfsagt, að sé út af fyrir sig. Hins vegar sé ég ekki ástæðu til þess, að ein stofnun eins og Hagstofa Íslands teljist rn. út af fyrir sig, þó að svo sé búið að vera nú um alllangt skeið.

Þá teldi ég, að eitt valdamesta rn. ætti að vera sameiginlegt atvmrn. og að atvmrn. hefði síðan undirdeildir allra höfuðatvinnuvega þjóðarinnar, sjávarútvegs, landbúnaðar, iðnaðar og verzlunar, og að yfirráðandi eða sá ráðh., sem færi með atvinnumálin, mætti gjarnan hafa í sinni þjónustu aðstoðarráðh., sem væru sérfræðingar hver á sínu sviði, landbrh., sjútvmrh., iðnmrh, og viðskmrh., en einn maður færi með öll atvinnumál þjóðarinnar og væri þannig í raun og veru sá maður, sem væri valdamestur í sérhverri ríkisstj., enda þar grundvöllinn að finna, sem er atvinnulíf þjóðarinnar. Með þessari skiptingu, sem ég nú lauslega hef gert grein fyrir eða hugmyndum um það, væru rn. 7, að ég hygg, eins og nú er, og teldi ég, að á þeim tímum, sem við nú lifum á, sem áreiðanlega heimta af okkur samdrátt í ríkisbákninu, ríkiskerfinu, fremur en útþenslu, ef gott fordæmi á að skapast ofan frá, væri nær lagi að lögfesta þá skipan eins og nú standa sakir heldur en lögfesta nú 13 rn.

Það var ekki mikið meira en þetta, sem ég ætlaði mér að segja við 1. umr., en tel, að allar hugmyndir, sem að einhverju leyti færu í aðra átt heldur en í þessu frv. er mótað, mættu gjarnan koma fram áður en málið fer til meðferðar í þn. En eins og ég í upphafi sagði, tel ég þess hafi verið full þörf, að fram kæmi frv. til l. um Stjórnarráð Íslands og játa það fúslega, að margt af því, sem í þessu frv. er ákveðið, finnst mér vera skynsamlegt og á þann veg, að ég gæti mjög vel fellt mig við það.