25.04.1969
Efri deild: 78. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1322 í B-deild Alþingistíðinda. (1409)

104. mál, tollheimta og tolleftirlit

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins upplýsa það, vegna þess að hæstv. ráðh. áleit, að það væri um misskilning að ræða varðandi þetta kerfi, sem er í sambandi við IBM-vélarnar. Ég gæti nefnt nafn mannsins, sem tók við mínum skjölum og síðan vísaði mér á næsta mann eins og verið hafði, en hann tjáði mér hreinlega: „Við erum búin að fá IBM-kerfi, þú verður að komast inn í númeraröðina og ferð hvergi undan né eftir.“ Ég spurði, hve langan tíma það tæki, og hann sagði þrjá daga. Ég sagði honum atvik, sem voru þau, að skip þurfti að bíða í þrjá daga. Það var samt ekki nokkur leið að komast fram hjá. Þetta var í fyrsta skipti, sem ég hef reynt þetta kerfi, í önnur skipti hefur allt gengið þegjandi og hljóðalaust.

Ég vildi aðeins vekja athygli á því, að það eru oft, eins og hæstv. ráðh. tók fram, þau atvik fyrir hendi, að við verðum að hleypa tollafgreiðslu í gegn strax. Og ég vildi gjarnan, að hæstv. fjhn. kynnti sér þetta kerfi, þannig að hún viti um, hvort það er til hindrunar í slíkum tilfellum eða ekki.

Fyrst hæstv. ráðh. drap á 52. gr., vildi ég líka benda á atriði, sem ég hef orðið var við, að sumum finnst erfitt, en kann nú kannski að vera til bóta, sbr. 53. gr., að innflytjendur á veiðarfærum eru ekki of fjáðir fremur en aðrir heildsalar. Nú vill það stundum til, að sendingar koma ekki alltaf á réttum tíma. Hins vegar eru veiðarfæri bundin við notkun á ákveðnu tímabili. Það hefur a.m.k. tvisvar alvarlega skeð, að netasendingar komu of seint fyrir vetrarvertíð, en það var búið með hörku að innheimta tolla af þeim, sem menn kveinuðu undan, og það er kannski erfitt að hafa undantekningar, en ég veit um atvik í Vestmannaeyjum, þar sem það kom mjög illa við, að það var búið að innheimta t tollana af netunum mörgum, mörgum mánuðum áður en hægt var að nota þau, vegna þess að sendingin hafði tafizt. Það er kannski erfitt að hafa í l. nokkurn sveigjanleika, þegar aukið aðhald á að vera, en þetta yrði líka fyrirgreiðsla við erfiða útflutningsframleiðslu, ef annaðhvort heimildarákvæði væri í I. eða undanþágumöguleiki, að veiðarfæri þyrftu ekki að tollast nema þegar notkun færi fram. Þessi net voru tekin í notkun á komandi vertíð, en þau komu of seint af óviðráðanlegum orsökum. Ég vil aðeins benda á það, að svona atvik geta verið til þæginda fyrir erfiða útflutningsframleiðslu, og persónulega mundi ég hafa áhuga á því, ef hægt væri að koma því fyrir, að svona atvik gætu verið til bóta.