26.11.1968
Efri deild: 18. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1331 í B-deild Alþingistíðinda. (1427)

63. mál, Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég hef nú litlu við það að bæta, sem hv. 3. þm. Norðurl. v. tók fram. Sumt af því hafði ég þegar minnzt á í minni framsöguræðu, en um málið almennt vil ég aðeins endurtaka það, sem ég sagði áðan, og tek þá alveg undir meginþráðinn í ræðu hv. þm., að málið er mikið hagsmunamál og þess vegna mjög viðkvæmt. Það er meginorsökin til þess, hve langur tími hefur farið í samningu frv., og þá jafnframt er það afleiðing þessara löngu viðræðna við hlutaðeigandi hagsmunasamtök, hve mörg ákvæði frv. eru óljós. Ég vil taka það alveg skýrt fram, að það mikla vald, sem lagt er í hendur sjútvmrh. í þessu frv., er ekki eftir minni sérstöku ósk þangað komið, heldur fyrst og fremst til úrlausnar á þeim deilum eða mismunandi skoðunum, sem fram komu við samningu frv. Það, sem ég átti við áðan, þegar ég talaði um, að nauðsynlegt væri, að n. hefði samráð við hlutaðeigandi aðila undir meðferð málsins í n., var ekki það, að ég teldi mögulegt, að viðræður verði hafnar við hvern einn og einstakan, sem þarna á hlut að máli. Til þess er sá hópur allt of stór. Það er mér ljóst. En við fulltrúa frá forustu þessara meginsamtaka, sem þarna koma við sögu og eiga stóran hlut að, teldi ég nauðsynlegt, að væri rætt, því að við þá hefur verið haft samráð við samningu frv., og enn fremur þá aðila, sem mesta vinnu hafa lagt í að semja þetta frv., að þeir væru kvaddir þar til líka. Málið er, eins og ég sagði í minni framsögu, samkomulagsmál aðila frá s.l. vertíð, og var þá lofað, að frv. skyldi flutt, og frv. þetta er niðurstaða þeirrar viðræðu, sem við samtökin hefur verið átt síðan. Og ég teldi því mjög nauðsynlegt, að þeir aðilar. sem komu að samningu frv., fengju aðstöðu til þess að láta n. í té skoðanir sínar á þeim liðum, sem óljósastir þættu. Sjálfum væri mér mjög kærkomið, að hægt væri að kveða nánar á um þessa hluti og hafa þá skýrari, en það þótti ekki fært af þeim aðilum, sem stóðu að samningu frv. Vonandi tekst það þó í þessari hv. þd., sem ekki tókst þar, en ég tel. að nm. væri nauðsyn á því að fá frá fyrstu hendi allar þær upplýsingar, sem fram hafa komið í þessum víðræðum við undirbúning málsins.