18.12.1968
Efri deild: 33. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 163 í B-deild Alþingistíðinda. (144)

87. mál, námslán og námsstyrkir

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Í þessu frv. felst nokkur breyt. á lögum Lánasjóðs ísl. námsmanna, sú breyt., að bætt er við nokkrum hópum nemenda sem aðilum að sjóðnum, þ.e.a.s. heimilað er að veita nokkuð fleiri aðilum hér innanlands lán eða styrki úr sjóðnum en hingað til hefur verið heimilt. Hingað til hefur sjóðurinn eingöngu tekið til stúdenta við Háskóla Íslands, en nú er gert ráð fyrir því, að veita megi lán úr sjóðnum nemendum úr kennaradeild stúdenta, framhaldsdeild og menntadeild Kennaraskóla Íslands og fyrsta hluta Tækniskóla Íslands. Ástæðan til þessa er sú, að nemendur í þessum deildum, sem hér er um að ræða, hafa að baki sér sambærilegt nám og þeir, sem eru á fyrsta ári í Háskóla Íslands, eða á fyrsta ári í erl. háskólum, og hefur þess vegna þótt rétt að heimila sjóðstjórninni einnig að veita þessum aðilum lán úr sjóðnum til jafns við nemendur á fyrsta ári í Háskóla Íslands eða erl. háskólum eða tækniskólum. Þessi breyt. á l. er flutt í samráði við stjórn Lánasjóðs íslenzkra námsmanna og hefur einróma meðmæli hennar. Að svo mæltu leyfi ég mér að óska þess, herra forseti, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn.