13.05.1969
Neðri deild: 94. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1337 í B-deild Alþingistíðinda. (1440)

63. mál, Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Þegar mál þetta kom fyrir sjútvn., kom það fljótlega í ljós í umr. í n., að allir nm. voru á því, að æskilegt væri að láta þetta mál fá frekari athugun, en sýnilegt væri, að n. gæfist kostur á. Málið er tiltölulega nýkomið til sjútvn. þessarar d., og hún hefur svo að segja ekkert getað unnið að athugun á málinu. Hins vegar er það ljóst, að málið hefur legið mjög lengi í Ed., eða hjá hv. sjútvn. Ed., og hún hefur tekið málið þannig, að það má segja, að hún hafi umsteypt svo að segja öllum gr. frv. Þannig flutti hún brtt., sem umorðar alveg upp á nýtt 2. gr. frv., 3. gr. frv., 4. gr. frv., 5. gr. frv., 7. gr. frv., 8. gr. frv. og 10. gr. frv. Það eru ein eða tvær gr., sem þóttu geta staðizt við nánari athugun. Ég efast ekkert um það, að ef sjútvn. þessarar d. hefði gefizt tími til að skoða málið, hefði hún gert á því allverulegar breyt. Ég hygg líka, að það hafi komið greinilega fram í Ed., í þeirri n., sem fjallaði um málið þar, að þar var sterkur vilji fyrir því, að málið mætti liggja og fá frekari athugun. Þrátt fyrir það, þó að skýr vilji kæmi fram hjá öllum nm. í sjútvn. þessarar d. um það að láta þetta mál liggja, þar sem menn sáu ekki, að það væri nein brýn þörf á því að setja lög um þetta efni nú í þinglokin að þessu sinni, hefur farið svo, að hæstv. ríkisstj. hefur knúið á með það að fá málið fram. Og meiri hl. sjútvn. hefur látið undan í þessum efnum og fallizt á það, að frv. yrði samþ. Ég tel fyrir mitt leyti, að vinnubrögðin, sem fram hafa komið í sambandi við þetta mál, séu alveg lýsandi dæmi um það, hvernig ekki eigi að standa að því að setja löggjöf um ný og vandasöm málefni. Það er alveg ábyggilegt, að það er ekkert, sem rekur raunverulega eftir því að setja l. nú á þessu þingi um þennan Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins. En ég hygg hins vegar, að menn eigi eftir að reka sig á það, að hér er um viðkvæmnismál að ræða, sem getur haft sínar alvarlegu afleiðingar síðar meir í hörðum átökum í landinu, ef ekki getur tekizt sæmilegt samkomulag.

Út af fyrir sig get ég fallizt á það meginsjónarmið, sem stendur að baki þessari lagasetningu, að settur verði svona Verðjöfnunarsjóður, þ.e.a.s. sjóður, sem byggður er upp þannig, að nokkur hluti er lagður til hliðar af því verði, sem fæst fyrir útfluttar sjávarafurðir, þegar um er að ræða hækkun á verðinu á mörkuðunum, og síðan sé aftur þessi sjóður notaður til nokkurra aukagreiðslna á verðlagið, þegar verð á erlendum mörkuðum hefur fallið eða þegar meiri þörf er á. Að vissu marki getur verið rétt að byggja upp kerfi af þessu tagi. En það er auðvitað enginn vafi á því, að eins og verðlagningu er háttað hjá okkur á sjávarafurðum, er hér um beint og viðkvæmt kjaramál að ræða. Fiskverðið er ákveðið af ákveðinni samninganefnd á milli fiskseljenda og fiskkaupenda á hverju ári, og það er ákveðið, miðað við verðlagsaðstæður og verðlagsþróun, bæði innanlands og utan. Og sé þannig staðið að verðlagningunni, að ákveðinn hluti sé tekinn af því, sem raunverulega gat farið út í fiskverð og orðið kaupgjald hverju sinni, þá hljóta vitanlega þeir, sem þarna áttu samningsaðild að, þ.e.a.s. bæði útvegsmenn og sjómenn, að gera kröfu um það, að þeir fái að fylgjast fyllilega með því, hvað um þetta fé verður, sem haldið var raunverulega eftir af því afurðaverði, sem þeim tilheyrði. Nú er gert ráð fyrir því í þessu frv., eins og það liggur hér fyrir, að stjórn þessa Verðjöfnunarsjóðs, sem á að byggja upp, verði þannig skipuð, að t.d. á A.S.Í. engan fulltrúa að eiga í þessari sjóðsstjórn. Það er að vísu tekið fram, að þar skuli vera einn fulltrúi, sem kosinn sé sameiginlega af Sjómannasambandi Íslands og Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, en hins vegar er ekki minnzt á aðild A.S.Í, en þó eru heilir landshlutar þannig settir, að þeir eru eingöngu innan A.S.Í. með sín sjómannasamtök, og sumar allra stærstu verstöðvar í landinu eru eingöngu í A.S.Í, en hvorki í Sjómannasambandinu né Farmannasambandinu, nema þá að mjög litlu leyti. Ég vara við þessu fyrir mitt leyti. Ég hef ekki trú á því, að þetta fái staðizt í reynd, að menn uni þessu, eða þá afleiðingin verður sú, að menn una þá ekki heldur því fiskverði, sem ákveðið verður, þegar svona er staðið að málum. Þetta er ábyggilega ekki hyggilegt.

En það er ekki aðeins á þessu sviði, heldur er hér í rauninni komið að kjarna þessa vandamáls. Ef byggður er upp sjóður á þennan hátt, að lagt er til hliðar hlutur af útflutningsverði sjávarafurða, þá skiptir auðvitað mjög miklu máli fyrir viðkomandi framleiðendur, ásamt svo með sjómönnunum þar á móti, að þeir hafi lokavald yfir því, hvernig á að fara með þetta fé. Það er t.d. enginn vafi á því, að frystihúsamenn verða ekki ánægðir með það, þegar á þennan hátt verður tekinn verulegur hluti af útflutningsverðinu á seldum frystum fiski og lagður til hliðar, að þá geti sjóðsstjórn, sem er að miklum meiri hluta skipuð öðrum fulltrúum en frá samtökum frystiiðnaðarins, ráðstafað þessu fé. Það er mín skoðun, að ráðstöfunin á því hefði átt að vera í höndum fulltrúa, varðandi t.d. frysta fiskinn, frá annars vegar samtökum frystihúsamanna og hins vegar samtökum útgerðarmanna og sjómanna, sem eiga raunverulega þessi verðmæti, sem hér er um að ræða. En nú er lagt til í þessu frv., að hér verði um sjö manna stjórn að ræða, og ráðh. á að skipa þrjá menn í stjórnina án tilnefningar, og síðan koma fulltrúar fiskseljenda, útgerðarmanna og sjómanna, með sinn manninn hver, en sjómennirnir eiga í þessu tilfelli að hafa fulltrúa frá Sjómannasambandinu og Farmannasambandinu, og svo eiga að koma tveir fulltrúar frá fiskiðnaðinum og þó gert ráð fyrir því, að fulltrúar fiskiðnaðarins geti verið hreyfanlegir eftir því, hvaða grein framleiðslunnar á þar hlut að máli. Það er auðvitað alveg ljóst mál, eins og stjórnin yrði uppsett samkv. þessum reglum, að þá hefðu fiskiðnaðarmenn tiltölulega lítið vald yfir þessu fé, sem þeir eiga þó í raun og veru. Ég óttast, að það fáist ekki hagstætt samkomulag um þetta í framkvæmd, þegar þannig er hlaupið til og lög sett um þetta lítið undirbúið, eins og hér er gert.

Ég vil líka benda á það, að ýmis þýðingarmestu samtök fiskiðnaðarmanna, sem hér eiga hlut að máli, eru andvíg því, að lög séu sett nú. Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna tók ekki afstöðu til málsins og taldi, að málið þyrfti að undirbúast miklu betur og að nauðsynlegt væri m.a. að semja reglugerð um það, hvernig skyldi standa að framkvæmd málsins, áður en lengra yrði haldið. Stjórn Síldarverksmiðja ríkisins taldi líka, að málið væri á engan hátt nægilega vel undirbúið og það ætti því að bíða og athugast betur. Landssamband ísl. útvegsmanna vildi gera ýmsar breyt. á frv., en mér er ljóst, að afstaða þess hlaut þó að vera nokkuð önnur en þeirra, sem fyrst og fremst eru fulltrúar fiskiðnaðarins, sem hér eiga á margan hátt mest undir. Það er því mín skoðun, að rétt hefði verið að fresta þessu máli, láta það fara í frekari athugun, betri undirbúning og leggja það þá aftur fyrir t.d. á næsta hausti. Eftir breytingar þær, sem Ed. hefur gert á frv., er líka frv. orðið þannig, að það er augljóst mál, að það er ekkert, sem kallar beinlínis á þessa lagasetningu nú, því að þessi Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins á nú samkv. þessu frv. aðeins að ná til frystra fiskafurða. Menn sjá það, að hvað viðkemur öðrum greinum er þetta algerlega óunnið mál. En hins vegar er þó að finna í frv. almenna heimild handa ráðh. til þess að setja á stofn fleiri deildir. Ég hef því leyft mér að flytja brtt. við frv., sem er um það, að málið verði afgreitt með rökstuddri dagskrá. Dagskrártill. mín er á þskj. 731 og er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Þar sem ljóst er, að nauðsynlegur undirbúningur að setningu laga um Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins hefur ekki átt sér stað og ýmis stærstu félagssamtök fiskiðnaðarins telja rétt að undirbúa málið betur, og í trausti þess, að ríkisstj. beiti sér fyrir því, að málið verði undirbúið að nýju í samráði við samtök fiskiðnaðarmanna, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“

Þetta hefði ég talið eðlilegasta afgreiðslu á þessu máli, eins og það liggur hér fyrir. En fáist það ekki fram, hefði þó þurft að mínum dómi að gera ýmsar breytingar við frv. eins og það liggur fyrir, m.a. að tryggja Alþýðusambandi Íslands aðild að sjóðsstjórn, og ég tel enga þörf á því að hafa það ákvæði um stjórnina, að ráðh. geti skipað þrjá menn í stjórnina án tilnefningar. Ég sé enga ástæðu til þess. Og ég tel einnig, að þær reglur, sem á að setja um ráðstöfun á þessu fé, eigi ráðh. að setja samkv. ákvörðun sjóðsstjórnarinnar, en ekki að ráðh. setji þetta aðeins að fengnum till. sjóðsstjórnarinnar, því að á því er vitanlega grundvallarmunur.

Ég hef gert hér grein fyrir afstöðu minni til málsins, að ég legg sem sagt til, að málið verði afgreitt með rökstuddri dagskrá og í rauninni frestað, og þá gert ráð fyrir því, að það verði lagt fyrir næsta þing.