25.04.1969
Neðri deild: 81. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1349 í B-deild Alþingistíðinda. (1456)

203. mál, áburðarverksmiðja ríkisins

Jónas Jónsson:

Herra forseti. Ég tel ástæðu til, áður en þetta frv. fer til nefndar, að fara nokkrum orðum um eitt atriði, sem hæstv. landbrh. drap reyndar á í ræðu sinni, en það er varðandi ákvæði um stjórn Áburðarverksmiðjunnar, eftir að hún er orðin að hreinu ríkisfyrirtæki. Það hafa um fleiri ár verið kröfur bændasamtakanna, Stéttarsambands bænda og Búnaðarfélags Íslands, sem þá hafa komið fram á Búnaðarþingi, að bændasamtökin sem slík ættu aðild að stjórn Áburðarverksmiðjunnar. Fyrir þessu er að sjálfsögðu hægt að færa mörg rök. Það er augljóst mál, að þessi verksmiðja og framleiðsla hennar og verðlag á hennar framleiðsluvöru skipta bændur ákaflega miklu máli. Þetta er annar stærsti liður í þeirra rekstrarútgjöldum, áburðurinn, og hefur þess vegna mjög mikil áhrif á verðlag landbúnaðarvara og það aftur á allt verðlag í landinu, og þannig séð hefur áburðarverð mikið að segja í landinu. En auk þess koma þarna mörg tæknileg atriði til greina svo sem gerð áburðar. Og þó að því hafi nú verið lýst yfir, og ég veit, að það er rétt, að við þessa stækkun Áburðarverksmiðjunnar, sem nú er fyrirhuguð, hefur verið haft fullt samráð við bændasamtökin og þeirra fagmenn, — seinna geta ýmis mál komið upp, sem orka tvímælis, önnur heldur en þau, sem beint varða rekstur verksmiðjunnar og verðlag á áburði, — má benda á, að það er einnig af fenginni reynslu undanfarinna ára og áratuga, sem bændur gera þessar kröfur, og ég vil segja mjög eðlilegu kröfur, um að þeir eigi beina aðild að stjórn verksmiðjunnar. Þessar kröfur bænda og endurteknu kröfur á Búnaðarþingi og aðalfundum Stéttarsambands bænda álít ég, að svari raunar því, sem hæstv. landbrh. vildi meina, að það ætti að vera tryggt, að bændur eða þeirra fulltrúar fengju aðild í gegnum hina þingkjörnu stjórn. Þetta svarar því, að þeir líta ekki svo á. Þessi samtök líta ekki svo á eða hafa ekki litið svo á, að þeirra hlutur sé tryggður í gegnum þingkjörna stjórn. Eins og mönnum er kunnugt, er meiri hl. stjórnar Áburðarverksmiðjunnar kosinn af Alþingi, en samt sem áður hafa þessar kröfur verið uppi ár eftir ár. Ég get aðeins vitnað hér í ályktun frá síðasta Búnaðarþingi og mun lesa hana með leyfi hæstv. forseta:

„Búnaðarþing fagnar yfirlýsingu landbrh. við setningu þingsins um, að hafizt verði handa á komandi vori um stækkun Áburðarverksmiðjunnar í Gufunesi. Í því sambandi leggur þingið sérstaka áherzlu á fjölþættari áburðarframleiðslu, svo sem alhliða blandaðan áburð og kalkblandaðan köfnunarefnisáburð, enda er gengið út frá því sem sjálfsögðu, að verksmiðjan verði samkeppnisfær við innfluttan áburð um verð og gæði. Jafnframt minnir þingið á fyrri kröfur sínar um, að Búnaðarfélag Íslands og Stéttarsamband bænda fái að tilnefna sinn manninn hvort í stjórn verksmiðjunnar.“

Ég hef ekki undir höndum samþykktir frá aðalfundi Stéttarsambands bænda, en þær munu vera til um svipað efni. Þetta vildi ég láta koma fram, svo að nm. þeir, sem fjalla um málið, geti skoðað hug sinn um það, hvort það sé ekki rétt og sjálfsagt að verða við þessum eðlilegu kröfum bænda. Það má benda á, að það er gagnkvæmt, að bændurnir eru háðir verksmiðjunni og verksmiðjan er háð þeim, og þess vegna hlýtur það að vera eðlilegt, að þeir hafi þarna beina aðild að stjórninni, eða þeirra samtök.

Þá vil ég mega benda á það, að þetta mun ekki vera einsdæmi, að stéttarsamtök eða aðilar hafi þannig aðild að stjórn ríkisfyrirtækis, þar sem er stjórn Síldarverksmiðja ríkisins, en þar mun vera nýlega gerð sú lagabreyting, að þar eiga viðkomandi aðilar, útvegsmenn og síldarsjómenn, fulltrúa. Ég tek það fram, að mér er ekki nákvæmlega kunnugt um það, en þarna mun vera fordæmi fyrir nákvæmlega því sama eins og bændasamtökin fara fram á, að nú verði gert.