02.05.1969
Efri deild: 84. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1465 í B-deild Alþingistíðinda. (1605)

209. mál, kísilgúrverksmiðja við Mývatn

Frsm. meiri hl. (Sveinn Guðmundsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til 2. umr., 209. mál Ed., er heimild fyrir hæstv. ríkisstj. að leggja fram allt að 150 millj. kr. sem aukið hlutafé í Kísiliðjuna h/f við Mývatn til viðbótar stofnfé ríkissjóðs að upphæð 39.8 millj. kr. Einnig heimilar þetta lagafrv. ríkisstj. að taka lán í þessu skyni. Á þskj. 574 skilar meiri hl. iðnn. nál. og mælir með þessari heimild og lántöku.

Lög um kísilverksmiðju við Mývatn voru samþykkt á Alþ. 1964, en breyting var gerð á þeim árið 1966, sem nú er í gildi. Samkvæmt þeim lögum tekst ríkissjóður á hendur ábyrgð að upphæð 75 millj. kr. eða jafnvirði í erlendri mynt vegna byggingar kísilverksmiðju við Mývatn. Leyfi er veitt til stofnunar sérstaks sölufélags og samkvæmt 6. gr. l. eru tilteknir þeir skattar, sem verksmiðjunni beri að greiða. Öðrum sköttum en þar eru tilgreindir er verksmiðjan undanþegin.

Í athugasemdum, sem prentaðar eru með lagafrv. því, sem hér liggur fyrir, um kísilverksmiðju við Mývatn, er að finna margháttaðar yfirlýsingar, sem hv. alþm. hefur ekki verið skýrt frá áður. Má þar finna upplýsingar um mikla erfiðleika, sem þetta fyrirtæki hefur átt við að stríða, bæði tæknilega og fjárhagslega. Iðnn. boðaði af þessum sökum á sinn fund Pétur Pétursson forstjóra Álafoss h/f, en hann er einn af meðlimum stjórnar Kísiliðjunnar h/f, kosinn af hæstv. Alþ., og hefur haft yfirstjórn á uppbyggingu verksmiðjunnar af Íslendinga hálfu. Pétur mætti á tveim fundum hjá nefndinni, seinni fundurinn var sameiginlegur fyrir iðnn. beggja þd. Í þessum viðræðum fékkst staðfest allt það, sem segir í athugasemdunum með lagafrv. Rekstur Kísiliðjunnar hefur gengið mjög á annan veg en áætlað var, og hið erlenda félag, Kaiser, sem var fengið til að hanna verksmiðjuna, hefur hreinlega gefizt upp við að koma afköstum verksmiðjunnar upp í það framleiðslumagn, sem lofað var. Þess ber þó að geta, að kísilgúr hefur aldrei verið, svo vitað sé, unninn á þann veg, sem hér er gert. Talið er, að það mundu aðallega vera gufuþurrkarar verksmiðjunnar, sem ekki ná tilætluðum afköstum. Kísiliðjan h/f hóf tilraunarekstur seint á árinu 1967, en allt árið 1968 virðist einnig hafa farið í tilraunir, því að heildarvinnsla það ár var aðeins 2500 tonn. Verksmiðjunni var hins vegar ætlað að afkasta 12 þús. tonnum á ári. Verksmiðjan mun nú vinna með 8 þús. tonna ársafköstum, en með viðbótartækjum, sem keypt hafa verið frá Ameríku, er talið að hún muni ná 10 þús. tonna ársafköstum og séu það þau hámarksafköst, sem þessi vélasamstæða geti nokkurn tíma náð. Er það 16% undir því, sem verksmiðjan er byggð fyrir. Byggingaráætlun hefur því engan veginn staðizt, eins og sést af athugasemdum með lagafrv., þó annað hafi komið fram við ýmis tækifæri. Það er ástæða til þess að undirstrika, að vélar í Kísiliðjuna h/f voru allar innfluttar frá Ameríku.

Eins og minnzt hefur verið á, hefur fjárhagsafkoma Kísiliðjunnar verið mjög slæm þann tíma, sem fyrirtækið hefur starfað, og í beinu hlutfalli við afköst verksmiðjunnar. Halli ársins 1968, sem er fyrsta heila árið, sem verksmiðjan hefur starfað, nam 33,6 millj., en af því eru 10 millj. afskriftir og 9.7 millj. gengistap. Ef verksmiðjan hefði skilað fullum afköstum hefði því orðið álitlegur hagnaður af rekstrinum. Líklega hafa fengizt um 15–20 millj. fyrir framleiðslu ársins 1968, en hefði verksmiðjan skilað 12 þús. tonna afköstum, hefði framleiðslan orðið 70–90 millj., að sjálfsögðu hefði orðið nokkru meiri kostnaður og aðrir kostnaðarliðir einnig hækkað, en verksmiðjan hefði þá verið rekin með tilætluðum árangri.

Eins og fram kemur í aths. við lagafrv., þá er það álit færustu manna, sem um þetta mál hafa fjallað, að einasti möguleikinn til þess, að Kísiliðjan h/f komist á fjárhagslega réttan grundvöll, sé að stækka verksmiðjuna nú úr þeim 8 þús. tonna afköstum, sem verksmiðjan er í; fyrst um 2 þús. tonna aukningu nú í vor og síðan á þessu ári eða byrjun næsta árs um 12 þús. tonn, eða nær þrefalda núverandi afköst verksmiðjunnar. Kostnaðarverð verksmiðjunnar um s.l. áramót var 288.6 millj. Þessi stækkun nú er talin kosta 200 millj. Nefndin hefur fengið upplýst, að hinn erlendi sameignarfélagi, Johns-Manville, sé fyrir sitt leyti tilbúinn til þessarar fjárfestingar, þótt hins vegar samningur hafi ekki verið undirritaður enn. Þessi stækkun virðist eins og nú er komið einasti möguleiki til þess að koma rekstri verksmiðjunnar á fjárhagslega réttan grundvöll.

Um atvinnuspursmál er hér ekki mikið að ræða, nema á byggingartímanum, þ.e. byggingarframkvæmdir á staðnum og smíði tækjanna hér á landi, sem sjálfsagt er að halda fast við. Í verksmiðjunni starfa nú um 30 manns, en viðbótin veitir aðeins 12 manns atvinnu.

Í viðræðum, sem hafa átt sér stað við talsmann Kísiliðjunnar, Pétur Pétursson, og áður er vikið að, hefur m.a. þetta komið fram:

Verð á kísilgúr er nú 9800 kr. tonnið landað í Evrópuhöfn, fraktin frá Húsavík er hins vegar um 1700 kr., er því komið í skip á Húsavík 8000 kr. tonnið. Kísilgúrinn er talinn í bezta gæðaflokki. Sölufélag Johns-Manvilles, sem starfar á Húsavík, sér um alla sölu erlendis og fær frá 12–24% sölulaun, er okkur gefið upp, en í áliti minni hl. er þetta talið 31%. En umboðslaunin eru stígandi eftir sölumagni. Kísiliðjan h/f hefur hætt viðskiptum við kanadíska verkfræðifirmað Kaiser, sem hannaði verksmiðjuna. Er það vegna þess, hversu erfitt hefur verið að ná upp lofuðum afköstum. Hins vegar er talið af lögfræðingum, að þannig hafi verið búið um hnútana af þessu verkfræðifyrirtæki og af þeim, sem vélarnar smíðuðu, að ekki sé hægt að sækja þessa aðila til saka, þótt svo illa hafi tekizt til, sem hér hefur verið skýrt frá.

Samkvæmt áður gerðri áætlun, þá var ekki fyrirhugað að stækka verksmiðjuna fyrr en árið 1972. En samkv. því, sem ég hef áður sagt, þá er nú horfið frá því og ráðgert að stækka verksmiðjuna nú þegar. Heimild til lántöku ríkissjóðs, að upphæð 150 millj. kr., er bæði til að standa straum af því tapi, sem orðið hefur og verður og einnig til að greiða hluta ríkisins af byggingarkostnaði.

Eins og ég sagði, rekstrarhallinn á s.l. ári hefur orðið 33.6 millj., á yfirstandandi ári er tapið reiknað 25 millj. árið 1970 16 millj., árið 1971 3.7 millj. og hefur þá rekstrarhalli fyrirtækisins með fyrra árs tapi numið um 80 millj. kr. Árið 1972 er svo fyrst gert ráð fyrir hagnaði, og nemur hann þá 8.4 millj. það ár, en síðan árlega frá 14–18 millj. kr. samkvæmt rekstraráætlunum. Í þessum rekstraráætlunum er gert ráð fyrir, að verksmiðjan selji á yfirstandandi ári 8000 tonn af kísilgúr. Síðasta árs sala var aðeins 2500 tonn, eins og ég sagði hér. Árið 1970 á salan að vera 12 þús. tonn, 1971 16 þús. tonn, 1972 19 þús. og 1973 22 þús. tonn af kísilgúr.

Áætlunin um stækkun Kísiliðjunnar h/f lítur þannig út: Stækkun um tvær stórar þrær, mest akstur og innlend vinna, 14 millj. Dæla og leiðslur 241/2 millj. Þurrkarar 43 millj. Byggingar og stálgrindur 271/2 millj. Flutningatæki, önnur tæki og varahlutir 44 millj. Flutningskostnaður 4.4 millj. Verkfræðileg aðstoð 11 millj. Ófyrirséð 16 millj. Tollar um 13 millj. Af þessu er gert ráð fyrir, að 1/3 hluti sé innlendur kostnaður, eins og verksmiðjustjórnin hefur hugsað sér framkvæmdina. Talsmaður Kísiliðjunnar hefur lýst því yfir við iðnn. beggja þd., að það sé vilji og ákvörðun verksmiðjustjórnarinnar, að stálgrindur og stálturn, sem til stækkunar verksmiðjunnar þarf, séu smíðuð hér á landi, enda náist hagstæður samkeppnisgrundvöllur um verðið.

Það skal metið, hversu hispurslaust er sagt frá þessum óförum í athugasemdum með lagafrv. Samtöl sem nefndin átti við Pétur Pétursson forstjóra, hafa hnigið í sömu átt. Það er erfitt að þurfa að viðurkenna þessi mistök, sem hér hafa átt sér stað, en til þess eru mistökin, að af þeim sé hægt að læra. Það kennir okkur Íslendingum, sem höfum takmarkað og dýrt fjármagn, að við getum óhikað látið útlendingum í té takmarkaðan rétt hér á landi til stóriðju, selt þeim orkuna, vinnuafl og þjónustu og lofað þeim að spreyta sig á tilraunum, sem við Íslendingar höfum sannarlega ekki ráð á.

Vegna þess, sem fram kemur í nál. minni hl., þá vil ég undirstrika það, að í umræðum um þetta mál í iðnn. var fullur skilningur og mikill áhugi fyrir því, að sem mest af þessari framkvæmd yrði innlent, svo og tækniundirbúningur, sem fram þarf að fara og kostar stórfé. Vænti ég, að fullt tillit verði tekið til þessa við framkvæmd verksins.

Að svo mæltu vænti ég, að þetta lagafrumvarp fái jákvæða afgreiðslu í þessari þd.