05.05.1969
Efri deild: 85. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1547 í B-deild Alþingistíðinda. (1663)

223. mál, verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

Pétur Benediktsson:

Herra forseti. Ég er fyrsti flm. að nokkrum till., sem sérstaklega varða sígarettureykingar. Ég var einn þeirra, sem um skeið reykti töluvert af sígarettum, og það var ekki af heilsufarsástæðum, sem ég hætti við það, heldur má segja, að það hafi verið – ja, maður gæti nærri sagt af pólitísku ofstæki. Þetta skeði fyrir eitthvað 11 árum eða svo, að ég vildi ekki unna þáv. hæstv. fjmrh. að hafa ágóða af þessum lesti mínum. Ég var hins vegar svo heiðarlegur, að ég sneri mér ekki að smyglinu, eins og hv. frsm. n. réttilega benti á, að hefði getað leyst málið. Síðan þetta átti sér stað, hefur sú breyting á orðið í heiminum, að nú leikur enginn vafi á því lengur læknisfræðilega, að sígarettur eru meðal þeirra nagla, sem flestir af ungum mönnum og konum hér á landi og annars staðar eru daglega að reka í líkkistu sína, og að þær eru meðal helztu orsakanna til tveggja af hinum óskaplegustu sjúkdómum, sem nú herja í þessu landi, krabbameins, einkum í lungum og einnig ýmissa hjartasjúkdóma og raunar fleiri sjúkdóma, ef vel væri leitað.

Við flm. till. hér í Ed. erum ekki einir alþm. um að hafa komið auga á þetta mál, því að aðeins örfáum dögum eftir að brtt. okkar voru lagðar fram, kom fram till. til þál. um varnir gegn sígarettureykingum, sem 4 merkir þm. í Nd. fluttu í Sþ. og þar sem gert er ráð fyrir mikilli áróðursherferð. Einnig eru prentuð merk skjöl, þar sem m.a. er einmitt bent á þær leiðir, sem við höfum lagt til, að hér verði farnar. Viðvörunin við vindlingareykingum, sem er í 2. brtt. á þskj. 589, er í sama anda eins og nú þegar á sér stað í því mikla framleiðslulandi þeirrar vörutegundar, Bandaríkjunum. Þó er ívið harðara að orði komizt heldur en nú er þar, en einmitt eins og allar líkur virðast benda til að gert verði þar í landi nú á næstunni; a.m.k. er þar mikil hreyfing í þá átt að hafa álíka skorinorða aðvörun á sígarettupökkunum eins og þarna er farið fram á.

3. brtt., sem við hv. 4. þm. Norðurl. e. erum flm. að, gengur út á það, að ef birtar eru auglýsingar um sígarettur, skuli í sama fjölmiðlunartæki látið til reiðu rúm eða tími eftir atvikum, sem nemi eigi minna en þriðjungi af því gjaldi, sem sígaretturnar hafa verið auglýstar fyrir. Það má sjá, hve hægt og sanngjarnlega er þarna farið í sakirnar á því, að tveir ritstjórar eru flm.till. í Nd., þar sem einmitt er bent (að vísu aðeins í fskj.) á þá leið, að réttast væri að hafa þarna jafnt hlutfall á milli, þannig að ef við segjum t.d., að dagblað tæki einnar bls. auglýsingu um sígarettur, þá léti það áróðrinum gegn þeim í té aðra jafngóða bls. í blaðinu endurgjaldsfrítt. Þessir ágætu ritstjórar, sem þarna eiga hlut að máli, hafa náttúrlega séð það, sem liggur í augum uppi, að þetta munar þá ekki miklu í kostnaði, því að vitanlega bæta þeir þessum kostnaði ofan á taxtann, þegar þeir taka við sígarettuauglýsingunum. Og ég vona þess vegna, að þó að það séu færri flm.till. á þskj. 590, þá fái hún jafnmikið fylgi í d. eins og hin till.

Þá er eftir að minnast á 1. till. Hv. frsm. n. benti á, að hún gæti verið að einhverju leyti varhugaverð. Nú vil ég taka það fram, að ég fellst ekki algerlega á ástæður hans í þessu efni, en hins vegar hefur hæstv. fjmrh. komið að máli við mig og sagt, að það gæti verið miklum erfiðleikum bundið, ef farið væri að ákveða nákvæmlega eða allt að því nákvæmlega álagningarhlutfall á vissum varningi með lögum. Nú er talan 3 engin heilög tala í þessu efni hjá okkur flm., heldur er það sem fyrir okkur vakir það, að ríkisvaldinu og þar með þeim armi þess, sem heitir Áfengis- og tóbaksverzlun ríkisins, beri að sjá svo um, að smávindlingarnir geti orðið hættulegur keppinautur við sígaretturnar. Smávindlar eða cigarillos eins og þeir eru kallaðir á alþjóðamáli, eru taldir tiltölulega meinlausir, ekki verri en píputóbak og ólíkt þokkalegri en neftóbak og skro eða rulla. Og það sem við óskum eftir er að gera það auðveldara að koma þessari vöru á framfæri. Ef ríkissjóður tapar á því nokkrum krónum að menn fari sér minna að voða þá hef ég nú heyrt um verra tjón, sem daglega verður á fjárhag ríkissjóðs og einstaklinga í þessu landi. Til þess að það sé athugað, hvort ekki væri hægt að ná samstöðu við hæstv. fjmrh. um orðalag þessarar gr., þá vildi ég í von um samþykki hv. meðflm. minna taka aftur til 3. umr. fyrri brtt. á þskj. 589.