08.05.1969
Efri deild: 88. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1572 í B-deild Alþingistíðinda. (1698)

248. mál, vinnumiðlun

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Þrátt fyrir það, að lög um atvinnuleysistryggingar munu nú vera nálægt því 12 ára gömul, þá hefur ekki á einstök atriði þeirra reynt verulega, þ.e.a.s. varðandi fyrirkomulag bótagreiðslna, fyrr en nú á síðustu tveim árum. Við þá reynslu, sem fengin er af þessu tímabili, hafa komið ýmsir agnúar í ljós, sem áður hafði ekki reynt á, en reynslan hefur nú á þessum tíma leitt í ljós.

Með hliðsjón af þeirri reynslu, sem þá var fengin, þegar samningar voru síðast gerðir í marz á s.l. ári, þá var það krafa verkalýðssamtakanna, sem ríkisstj. féllst á og fram kom í hennar yfirlýsingu að þeirri deilu lokinni, að í fyrsta lagi skyldu atvinnuleysisbætur hækkaðar. Þetta loforð ríkisstj. var framkvæmt með brbl., sem út voru gefin 31. des. s.l. og lögð hafa verið fyrir Alþ. og tekin til umr. hér í þessari hv. d., en að ósk minni var því frv. ekki hraðað, með hliðsjón af því, að ég átti von á því, að sú endurskoðun, sem einnig var lofað í lok fyrrgreindrar deilu, a.m.k. hluta hennar yrði lokið, þannig að leggja mætti frv. um þær breytingar, sem þar kynnu að koma fram, fyrir yfirstandandi þing. Þessari frumrannsókn er nú lokið, og birtast niðurstöður þeirrar rannsóknar í frv. því, sem hér er til umr. um vinnumiðlun, og frv., sem nú var útbýtt á þessum fundi um breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar. Það skal skýrt tekið fram, eins og fram kemur í grg. frv., að þetta er aðeins til þess að ráða bót á sárustu tæknilegum göllum, sem taldir eru á framkvæmd þessara laga, en lög um vinnumiðlun og atvinnuleysistryggingar eru mjög samofin þessari framkvæmd. Ég vil jafnframt lýsa því yfir, að endurskoðun þessi mun halda áfram. Það var gert ráð fyrir því í upphaflegu lögunum um Atvinnuleysistryggingasjóð, að hann skyldi endurskoðaður innan tiltekins tíma, sem nú er löngu liðinn, og styður það enn að nauðsyn þess, að þessi endurskoðun fari fram, enda mun henni haldið áfram, og væntanlega verður þá hægt að leggja fram ítarlegri og rökstuddari breytingar við þessi lög á næsta hausti, þegar þing kemur saman á ný. En mikil nauðsyn er á, að bæði þessi frv. nái fram að ganga á þessu þingi, og hefur ríkisstj. fyrir sitt leyti heitið að vinna að því, og ég vænti, að um það verði ekki ágreiningur við hv. stjórnarandstæðinga.

Frv. það til I. um breyt. á lögum nr. 52 frá 9. apríl 1956, um vinnumiðlun, sem hér liggur fyrir, er samið af þeirri nefnd, sem starfað hefur að endurskoðun laga um atvinnuleysistryggingar, eins og ég áðan sagði. Um þetta frv. er hið sama að segja og um frv. um breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar, sem væntanlega verður hér á dagskrá á morgun, að þær breytingar, sem í því eru, verða að skoðast sem algjörar bráðabirgðabreytingar, þar eð nefndin hefur enn ekki lokið störfum og gerir ráð fyrir að þurfa að athuga ýmis ákvæði þessara laga betur.

Ég mun nú rekja stuttlega nýmæli þau, sem í þessu frv. felast, en um þau er algjört samkomulag meðal þeirra nm., sem til starfans voru skipaðir, en það voru Björgvin Sigurðsson framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambands Íslands og tilnefndur af því, Eðvarð Sigurðsson alþingismaður, tilnefndur af Alþýðusambandi Íslands, Magnús E. Guðjónsson framkvæmdastjóri, tilnefndur af Sambandi íslenzkra sveitarfélaga, og Hjálmar Vilhjálmsson ráðuneytisstjóri, sem skipaður var í nefndina án tilnefningar og jafnframt hefur verið form. hennar.

Helztu nýmæli þessa frv. eru, að lagt er til að sveitarfélögunum, sem hafa sameiginlegan vinnumarkað, sé heimilt að semja um rekstur einnar vinnumiðlunar, sem annast öll störf vinnumiðlunar á því svæði. Hér á höfuðborgarsvæðinu eru t.d. þrjú sveitarfélög, sem hafa slíkan sameiginlegan markað, nefnilega Reykjavíkurborg, Kópavogskaupstaður og Seltjarnarneshreppur. Notkun þeirrar heimildar, sem gert er ráð fyrir í 1. gr. frv. um sameiginlegan rekstur vinnumiðlunarskrifstofu virðist einkum geta komið til greina á þessu svæði. Augljóst er, að mikil hagræðing gæti það verið, ef öll þessi sveitarfélög gætu samið um sameiginlega vinnumiðlun, sem annaðist þá öll störf vinnumiðlunar á því svæði.

Í F-lið 3. gr. núgildandi l. eru ákvæði, sem hljóða þannig, að vinnumiðlun skuli annast atvinnuleysisskráningar 1. febr., 1. maí, 1. ágúst og 1. nóv. á hverju ári. Svo virðist, sem ákvæði þetta hafi orsakað nokkurn misskilning á hlutverki vinnumiðlunar í landinu. Vegna þess að vottorð vinnumiðlunar er grundvöllur fyrir bótagreiðslum atvinnuleysistrygginga, er nauðsynlegt, að þær annist skráningu, hvenær sem atvinnulaus maður óskar eftir henni. Sumar sveitarstjórnir hafa hins vegar álitið, að nægilegt sé að auglýsa, hvenær þær ætli að skrá atvinnuleysi í sínu sveitarfélagi. Vottorði vinnumiðlunar má líkja við læknisvottorð, sem hinn slasaði fær, þegar hann verður fyrir slysi. Það er því álíka fráleitt að gefa aðeins kost á skráningu eftir auglýsingu hjá vinnumiðlun eins og læknir auglýsti, að hann á vissum dögum í hverjum mánuði liti til þeirra, sem hafa orðið fyrir slysum. Slíkt nær vitanlega engri átt. Hver sá maður, sem verður atvinnulaus, á rétt á því að geta gefið sig fram á vinnumiðlunarskrifstofu og látið skrá sig, hvenær sem er. Það er því lagt til, að umræddur F-liður 3. gr. laganna verði felldur úr gildi. Þá er lagt til að kveða nokkuð fastara á um gögn þau, sem umsækjandi um bætur vegna atvinnuleysis, eða sá, sem lætur skrá sig, leggur fram við skráningu. Hér er lagt til, að hann skuli leggja fram vottorð frá vinnuveitendum um vinnutímabil og launagreiðslur, eins og nánar er ákveðið í frv. Í samræmi við þetta er vinnuveitendum gert að skyldu að láta launþegum í té vottorð þar að lútandi, og skuli það sundurliðað eftir dagvinnu, eftirvinnu og næturvinnu á því tímabili, sem óskað er, þó innan síðustu 12 mánaða. Þá er einnig lagt til, að vinnuveitendum sé skylt að tilkynna vinnumiðlun, hverjir neita vinnu á atvinnuleysistímabilum, og að slík neitun jafngildi því, að umsækjandi neiti vinnu, sem vinnumiðlun býður honum.

Ekkert ákvæði hefur verið um það í þessum lögum, hversu sá skuli fara að, sem hefur farið í fjarlægt byggðarlag að leita sér atvinnu. Rétt þótti því að kveða nánar á um þetta, eins og gert er í 4. gr. frv. Samkv. því ákvæði skal sérhver launþegi, sem óskar aðstoðar vinnumiðlunar, snúa sér til vinnumiðlunar í sínu sveitarfélagi. Dvelji hann hins vegar utan sveitarfélags síns, en þó í sveitarfélagi, sem lögin taka til, getur hann snúið sér til vinnumiðlunar, þar sem hann dvelst. Vinnumiðlun dvalarsveitar sendir síðan vinnumiðlun heimilissveitar tilkynningu um skráningu hverju sinni, sem launþegi lætur skrá sig. Á slíka skráningu skal jafnan litið svo, að umsækjandi sé að sækja um vinnu líka í heimabyggð sinni. Í þessu sambandi skal þess getið, að atvinnuleysistryggingarnar gilda í öllum kaupstöðum landsins, og öllum kauptúnum með fleiri en 300 íbúa, og þó nokkuð fleirum, sem fengið hafa undanþágu, sem heimilt er að veita samkv. lögum um atvinnuleysistryggingar, til þess að vera aðilar að tryggingunum. Loks er í frv. þessu gert ráð fyrir, að útbúið sé sameiginlegt eyðublað fyrir skráningu hjá vinnumiðlun og fyrir umsókn um bætur. Þetta mundi spara tvíverknað og vera til mikillar hagræðingar, bæði fyrir þá, sem annast vinnumiðlunina og ekki síður þá, sem eiga að annast úthlutun bótanna sjálfra.

Ég sé svo ekki ástæðu til. herra forseti, að fara frekari orðum um þetta frv., en legg áherzlu á nauðsyn þess, að það nái fram að ganga, og vænti, að um það sé ekki ágreiningur, eftir þann nákvæma undirbúning, sem málið hefur fengið hjá hlutaðeigandi samtökum, sem bæði mæla með framgangi frv. Ég legg til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.