06.03.1969
Neðri deild: 61. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1682 í B-deild Alþingistíðinda. (1828)

164. mál, sala Úlfarsfells í Helgafellssveit

Flm. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Frv. þetta fjallar um heimild fyrir ríkisstj. til að selja eyðijörðina Úlfarsfell í Helgafellssveit. Í þessu máli þarf ekki langa framsögu. Það er að vísu svo, að eitt sinn var vel búið á Úlfarsfelli. Í Eyrbyggju segir eitthvað á þá leið, að Úlfar bóndi á Úlfarsfelli „var svá fésæll. að fé hans dó aldrei af megri eða drephríðum“. Nú er öldin önnur. Þessi jörð hefur verið í eyði yfir 20 ár, en s. l. 14 ár eða svo hefur hún verið nytjuð af feðgunum á Arnarstöðum í Helgafellssveit. Sú jörð er fremur landlítil. og er því full þörf fyrir þá að fá aukið land.

Ég vil benda á, að hreppsnefnd Helgafellssveitar hefur lýst sig einróma samþykka þessari sölu, sbr. fskj. það, sem hér er prentað, og bendir í því m. a. á það, hversu jörðin hefur lengi verið í eyði og hitt, að telja megi öruggt, að hún byggist ekki aftur sem sérstakt býli.

Ég hef þessi orð ekki fleiri, en legg til, að máli þessu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. landbn.