17.03.1969
Neðri deild: 65. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1701 í B-deild Alþingistíðinda. (1936)

120. mál, áfengislög

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Ég sé, að hv. allshn. er með frjálslyndari nefndum í þessari hv. d. Í fyrsta lagi flytur hún frv. um breytingar á áfengisl. óumbeðin og án þess að henni hafi verið falið það af neinum. Segir svo í grg., að einstakir nm. hafi enga afstöðu tekið til frv. Síðan flytur sama n. allmargar brtt. við frv., og segir frsm., að einstakir nm. hafi enga afstöðu tekið til þeirra heldur, og ég tek þetta svo, að þetta lofi góðu. Mér finnst, að það hafi ekki allar n. sýnt svona mikið frjálslyndi í störfum.

Ég hef leyft mér ásamt hv. 4. þm. Austf. og hv. 4. þm. Reykv. að flytja nokkrar brtt. við þetta frv., og eru þær brtt. á þskj. 313. Í fáum orðum sagt eru það 5 meginefnisatriði, sem felast í þessum brtt. okkar. Það er í fyrsta lagi að veita æskufólki kost á að sækja almenna skemmtistaði, þótt vínveitingahús séu, þar sem fullkomin þjónusta er veitt á allan hátt, án allra vínveitinga þó, fjórða hvert laugardagskvöld eða eitt kvöld af hverjum 28. Þessi till. er tekin orðrétt upp úr frv. mþn. í áfengismálum, en sú n. var skipuð 7 þm. alveg eins og allshn. þessarar hv. d. Og í þessari mþn. voru allir þessir 7 sammála um, að þessa ráðstöfun þyrfti að gera. Hugmyndin á bak við þessa till. er þessi, að æskufólk, sérstaklega í þéttbýlinu, á ekki kost á þeim skemmtistöðum og þeim skemmtiatriðum, sem eru við þeirra hæfi, og það þarf að veita þeim aðstöðu til að sækja hina almennu skemmtistaði án þess að verða fyrir barðinu á áfenginu. Ef hins vegar væru til í hverjum bæ skemmtistaðir við hæfi unglinga, svo að ekki þyrfti til þess að koma, að þeir sæktu þessa vínveitingastaði, þá þyrfti heldur ekki að koma til þessa ákvæðis. Þessi þörf æskufólksins er býsna sterk og hún er viðurkennd af flestum. M. a. hefur Reykjavíkurborg nú stofnað til slíks samkomustaðar handa æskufólki með Tónabæ, einmitt vegna þessara þarfa. En þrátt fyrir það sjá allir að sá skemmtistaður fullnægir ekki nema að sáralitlu leyti þeirri þörf, sem er fyrir skemmtanir æskufólks hér í höfuðborginni.

Annað meginefnisatriði í þessum till. okkar er það, að þegar unglingar verða uppvísir að áfengisneyzlu, beinist rannsókn slíkra mála frá upphafi að því að finna þá, sem sekastir eru óneitanlega, en það eru þeir menn, sem selja eða veita unglingunum áfengið og þá að sjálfsögðu ólöglega.

Þriðja efnisatriðið í þessum till. er það að þyngja verulega refsingar fyrir að aka bifreið undir áhrifum áfengis og sérstaklega þó, þegar slíkur bifreiðaakstur ölvaðs ökumanns veldur slysi eða dauða á mönnum.

Fjórða efnisatriðið í þessum till. er það að þyngja einnig refsingar fyrir að selja eða veita unglingum áfengi. En samkv. núgildandi l. eru þær refsingar nauða lítilfjörlegar.

Fimmta efnisatriðið er, að sektarákvæði l. í krónuupphæðum er breytt til samræmis við verðgildi íslenzkra peninga, eins og það hefur breytzt frá því 1954, að áfengisl. voru sett, þar til nú. Hvað viðvíkur 1. till. á þskj. 313, a-lið hennar, þá er sú grein, eins og ég sagði, tekin orðrétt upp úr frv. mþn. um, að vínveitingahúsin skuli hafa áfengislausar veitingar eitt laugardagskvöld af hverjum fjórum. Hef ég greint frá því, í hvaða tilgangi þessi till. er flutt. Nú er engin ástæða til að draga dul á það, sem hv. frsm. n. sagði hér áðan, að þetta kemur við hagsmuni vínveitingahúsa, en ég vænti þess. að eitt kvöld af hverjum 28 sé ekki svo mikil skerðing, að um hana sé ræðandi, ef einhver ávinningur fæst á móti í þágu æskufólksins. Auðvitað er sjálfsagt að viðurkenna það, að þessir hagsmunir rekast þarna á, annars vegar hinir menningarlegu hagsmunir æskufólks, hins vegar hinir peningalegu hagsmunir vínveitingahúsa, og hv. alþm. verða auðvitað að gera upp á milli þessara atriða, þegar til kemur.

B-liður 1. brtt. er um sektarákvæði, og þær till. eru margar á þessu þskj. og mun ég víkja að þeim öllum í einu lagi að lokum, þar sem þær eru allar sama efnis. 2. brtt., a-liður, er um það, hvernig menn eiga að sanna aldur sinn til þess að hafa rétt til áfengiskaupa, hvort sem er í vínveitingahúsi eða í verzlun. Í frv. mþn. var sagt, að sönnunargildi skyldi eingöngu vera nafnskírteini með mynd: Síðar hafa komið fram till. um, að ökuskírteini ættu einnig að geta gilt, og við höfum tekið upp í okkar brtt., að aldur skuli menn sanna, þegar á þarf að halda, með öðru hvoru, nafnskírteini með mynd eða ökuskírteini, því að þar er einnig mynd, en heldur ekki á neinn annan hátt sé hægt að sanna aldur sinn.

Aftur á móti segir í 3. gr. frv., „að sanna skuli aldur sinn með nafnskírteini með mynd eða á annan fullnægjandi hátt“. Þetta atriði „á annan fullnægjandi hátt“ var rækilega rætt í mþn. Og þar komu menn að því atriði, hver eigi að dæma um það, hvenær aldur er sannaður á fullnægjandi hátt. Þegar unglingur kemur inn í vínveitingahús eða vínverzlun og vill kaupa þar áfengi og hann á að fara að sanna aldur sinn, hver á þá að meta það, hvort hann geri það á fullnægjandi hátt? Það er engum til að dreifa nema áfengissalanum sjálfum, sem á að meta það. Þvert á móti því, sem mþn. lagði til, að sönnunargagnið væri ótvírætt. Ég býst við, að margur áfengissali mundi telja það nægjanlegt að spyrja viðkomandi aðila: Hvað ertu gamall? Og ef hann segir 22 ára t. d. „Já, gerðu svo vel og gakktu inn og kauptu.“ Hann telur þetta fullnægjandi hátt. Það er einmitt þetta, sem er verið að fyrirbyggja með því að hafa þetta tæmandi, á hvern hátt megi sanna aldur sinn. Og ef Alþ. samþykkir t. d., að þetta standi eins og er í þessu frv. „eða á annan fullnægjandi hátt“, þá skiptir engu máli, þótt ekkert sé minnzt á nafnskírteini eða neitt annað. Matið er látið í hendur þeirra, sem áfengi selja, hvort sem er, og þá er það dauður bókstafur að vera að tala um nokkurt nafnskírteini. Þetta atriði kemur þrísvar fyrir í þessu frv. og er því 2. brtt. á þskj. 313, a-liður, svo og 3. og 4. brtt. um það sama, að fella alls staðar niður þessi orð „á annan fullnægjandi hátt,“ en í staðinn komi ökuskírteini, og yrði þá ákvæði frv., að aldur skuli sanna með nafnskírteini með mynd eða ökuskírteini.

Í sambandi við þetta mál, aldur þeirra, sem vilja kaupa áfengi, vil ég benda á, að það hefur komið þráfaldlega fram sá misskilningur hjá mönnum og það jafnvel hjá alþm„ að unglingum sé óheimilt að koma inn í vínveitingahús, nema þeir hafi náð 21 árs aldri. Ég sá meira að segja í einhverju dagblaði fyrir stuttu síðan, að þar eru hjón að fárast yfir því, að þau hafi komið hér í veitingahús í bænum og þar eð konan hafi ekki verið orðin 21 árs, þótt eiginmaðurinn væri 23 ára, hafi þau verið rekin frá og eru mjög að bölsótast yfir þessum vitlausu lögum, sem slík ákvæði hafa. Mér vitanlega eru ekki til nokkur lög, er segja neitt til um þetta. Ég veit ekki betur en það sé öllum unglingum frjálst að fara inn í hvaða veitingahús sem er og hvenær sem er. Hér er um algeran misskilning að ræða. Það eru nefnilega enn þá ekki komin nein ákvæði um þetta í l. mér vitanlega. Hitt er annað mál. að í lögreglusamþykkt Reykjavíkur og sennilega í lögreglusamþykktum fleiri bæjarfélaga er ákvæði um, að yngri menn en 16 ára megi ekki sækja vínveitingahús eftir kl. 8 á kvöldin. Hins vegar er í þessu frv. og var í mþn.-frv. ákvæði um það, að yngri menn en 18 ára megi ekki sækja vínveitingahús á kvöldin, og um það veit ég ekki til að hafi nokkurs staðar komið fram ágreiningur. Það ákvæði er í þessu frv. og það var í mþn.-frv. og ég hef ekkert við það að athuga. Aftur á móti er sú breyting í þessu frv. frá því, sem var í frv. mþn. að miðað er hér við 20 ára aldur, þegar ákveðið er, hverjir megi kaupa áfengi, en er í núv. l. 21 árs. Ég mun ekki fara að gera neina aths. við þetta, þó að mér sé það heldur óljúfara, að þetta aldursmark sé fært niður í 20 ár. Það er búið að gera það á öðrum sviðum, um kosningaaldurinn, um hjúskaparaldur og mannréttindi mörg, og ég mun ekki gera aths. við það. En það eru allt önnur ákvæði, sem gilda um að mega kaupa áfengi eða mega sækja vínveitingahús.

Ég hef áður vikið að 2. og 5. brtt., þar sem þyngdar eru refsingar fyrir það annars vegar að selja unglingum áfengi, hins vegar að aka ölvaðir bifreið, og þarf ég ekki að fara frekari orðum um þær till. Þá er lagt til í brtt. okkar þremenninganna, að niður falli 3. og 4. mgr. 1. tölul. 33. gr. núv. áfengislaga. En þessar tvær mgr. í núv. áfengisl. hljóða þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Skip skal ávallt vera að veði til tryggingar greiðslu á sektum og málskostnaði, og má kyrrsetja það og selja, að undangengnu fjárnámi, til lúkningar hvoru tveggja. Flytji skip hingað ólöglega áfengi, svo að telja megi það verulegan hluta af farmi þess, skal skipið gert upptækt handa ríkissjóði með dómi.“

Það eru þessar tvær mgr., sem við leggjum til að falli niður. Nú hefur hv. allshn. flutt brtt. við síðari mgr., eins og hv. frsm. gat um áðan, þess efnis, að í staðinn fyrir orðalagið „skal skipið gert upptækt handa ríkissjóði með dómi“ komi: „heimilt skal að gera skipið upptækt með dómi“. Þetta er veruleg bót á greininni. En hitt skil ég ekki, vegna hvers þeir telja, að fyrri mgr., sem ég las áðan, geti staðizt. Mönnum er kunnugt um, eins og hv. frsm. n. sagði áðan, hvað gerðist hér í fyrrasumar í hinu svokallaða Ásmundarmáli, að skip var gert upptækt með dómi, þrátt fyrir það, að eigandi skipsins, sem varð fyrir þessu skakkafalli, var alsaklaus maður í því máli. En mér sýnist, að þó að þessi leiðrétting sé gerð, sem n. nefnir, sem er til bóta, þurfi að breyta fyrri mgr. líka, þar sem segir, að skip skuli vera að veði til tryggingar greiðslu á sektum og málskostnaði. Má kyrrsetja það og selja, að undangengnu fjárnámi, til lúkningar hvoru tveggja. Saklaus maður getur orðið fyrir þessum ákvæðum alveg eins og kom fyrir í fyrra. Enda ætla ég, að það sé frjáls aðgangur að eignum sökudólga, þó að ekki séu þessi ákvæði í l. Ég vildi mjög mælast til þess, að hv. n. athugaði þetta. Hér er aðeins verið að vernda saklausa menn frá því að verða fyrir refsingum, sem aðrir ættu að verða fyrir.

Og loks eru það brtt. okkar, sem eru allmargar, um sektarákvæði í krónutölu. Það er alkunna, að íslenzk króna hefur rýrnað að verðgildi í stórum stíl frá því að áfengislögin tóku gildi fyrir 15 árum. Ég ætla, að það séu til næg gögn fyrir því, bæði hjá Hagstofu Íslands og Efnahagsstofnuninni, sem sýni verðlagshækkanir á þessu 15 ára tímabili, og eftir því, sem ég fæ bezt séð, er krónan núna ekki meira en 20–25% að verðmæti, miðað við vöruverð, hjá því, sem hún var fyrir 15 árum. Nú eru það okkar till., að með sama hætti skuli breyta upphæðum sekta í krónutölum eins og verðlag hefur hækkað á þessu tímabili. Og það er a. m. k. 300–320%, sem verðlagið hefur hækkað á almennum vörum, og því leggjum við til að allar sektir hækki um sömu upphæð eða 300%. Það þýðir, að fyrir brot, sem áður var refsað fyrir með 100 kr. sekt, skuli nú refsað fyrir með 400 kr. sekt. Og ég get ekki séð, að það sé harkalega farið að þessum lögbrjótum, þó að þeir þurfi að greiða 400 kr. fyrir brot, sem áður voru greiddar 100 kr. fyrir, fyrst allur almenningur í þessu landi verður að greiða a. m. k. 400 kr. fyrir þær lífsnauðsynjar, sem þeir borguðu áður með 100 kr. Mér sýnist ekki frambærilegt að taka meiri silkihönzkum á þeim, sem brjóta lög, en öllum almenningi, sem gerir það ekki. Allar okkar till. um sektarákvæðin fara eftir þessari reglu. Hins vegar er hv. n. miskunnsöm að þessu leyti. Hún vill ekki þessa hækkun á sektum í krónutölu. Hún vill ekki fara nema á miðja leið, hækka sektirnar um 150%, þegar við leggjum til að þær hækki um 300% eða líkt og almennar vörur hafa hækkað í verði.

Síðan þetta frv. var lagt fram, hefur nýtt mál skotið upp kollinum hér í höfuðborginni, sem mér sýnist, að snerti áfengislög að einhverju leyti. Það eru hinir svonefndu næturklúbbar, sem mjög hafa verið umræddir í blöðum og fréttum. Og eftir því, sem blöðin segja frá, er ákaflega sennilegt, að þörf sé á einhverjum nýjum lagaákvæðum inn í áfengislöggjöfina, sem snerti þessa næturklúbba. Eftir þessum blaðafregnum að dæma sýnast hér hafa verið framin einhver grófustu áfengislagabrot, sem orðið hafa í seinni tíð. Ég vil gjarnan minna hv. þm. á, að það væri ekki úr vegi, að þeir litu í Alþýðublaðið 11. marz. Þar er frásögn af þessum málum á forsíðu með mynd úr sjálfri stofnuninni einni, næturklúbb. Þar geta menn séð mynd af ungri stúlku. Hún er svona á að gizka 16–17 ára eftir því, sem ráðið verður af myndinni, hallast þar upp að vegg við barinn og virðist ekki vita mikið af sér. Ég skal ekki fara hér með neinar fullyrðingar um sekt eða sakleysi manna í þessum efnum, en eitthvað mun nú vera athugavert við starfsemina, þar sem lögregluyfirvöld telja sig knúin til að loka þessum stofnunum og meira en það, taka í sína vörzlu dvalargesti þaðan, allvænan hóp til yfirheyrslu og rannsóknar. Lögregluyfirvöld gera ekki slíkt bara upp úr þurru. Mér sýnist því, að það geti komið á daginn, þótt síðar verði, að þetta fyrirbæri, næturklúbbarnir, hafi eitthvað brotið af sér, og e. t. v. sé þarna um brot að ræða, sem sé öllu stærra í sniðum en jafnvel Þjórsárdalsför unglinganna um hvítasunnuleytið 1963, því að þarna eru það ekki aðeins 3–4 menn, sem um er að ræða, heldur, að mér virðist, jafnvel nokkur hundruð manns. En hversu lengi þetta hefur verið stundað, veit ég ekkert um, hvort það eru nokkrar vikur eða nokkrir mánuðir eða hvað. Það þekki ég ekki.

En það hefur gerzt fleira í sambandi við þessa næturklúbba og hefur vakið nokkra athygli mína. Það er. það, að Ríkisútvarpið hefur tekið næturklúbbana sem einn dagskrárlið hjá sér, að ég ætla, s. l. laugardagskvöld og notar þetta sem nokkurs konar skoðanakönnun. Það er starfsmaður Ríkisútvarpsins, sem kemur þar fram með skoðanakönnun, ef skoðanakönnun skyldi nú kalla. Hann er a. m. k. að leita eftir áliti manna á næturklúbbum. Þessi starfsmaður Ríkisútvarpsins virðist sjálfur semja spurningar og virðist sjálfur í umboði Ríkisútvarpsins velja sér menn til þess að svara þessum spurningum. Þetta er hans skoðanakönnun, hliðstæð því, sem hann hefur oft viðhaft áður. Spurningin þetta kvöld var eitthvað á þá leið, hvað menn segðu um það, hvort þeir teldu heppilegt að hafa næturklúbba starfandi. Og svörin urðu nokkurn veginn á eina leið. Ég ætla, að það hafi verið flestallir, sem svöruðu á þann veg, að næturklúbbar væru góðir, þeir væru jafnvel æskilegir, og sérstaklega var ein kona, sem spurð var, skorinorð og sagðist nú að vísu ekki hafa tekið þátt sjálf í starfseminni, en sonur sinn hefði gert það og hann hefði skemmt sér ljómandi vel og sér sýndust næturklúbbar alveg ágætir. Ég heyrði ekki nema einn, það var aðeins einn af þeim, sem spurðir voru, sem eitthvað hafði að athuga við þessar stofnanir. En þetta var niðurstaðan. Svo að segja allir eða flestallir mæltu mjög með hinum nýju stofnunum.

Nú undrar mig ekkert sérstaklega, þó að svör af þessu tagi komi fram. En sem skoðanakönnun hef ég ýmislegt við þetta að athuga, og þá fyrst og fremst, að ríkisstofnun. Ríkisútvarpið, skuli beita sér fyrir skoðanakönnunum af þessu tagi. Og ekki aðeins í þetta sinn, heldur mjög oft áður. Hvað eiga þeir að hugsa, allir þeir hlustendur víðs vegar um land, sem heyra þessa skoðanakönnun? Hljóta þeir ekki að líta svo á, að þarna komi fram álit Reykvíkinga almennt á næturklúbbum, það sé á þessa leið? Mér er tjáð, að þegar erlendis eru viðhafðar skoðanakannanir, sem mjög oft ber við, sé tilgangurinn með þeim sá að leiða í ljós almenningsálit á einhverju máli, einhverri spurningu, einhverju atriði. Og til þess að þessi skoðanakönnun hafi gildi, sé mjög til hennar vandað, m. a. gætt hins fullkomnasta hlutleysis og öll framkvæmdin gerð af mikilli nákvæmni og spurningar lagðar fyrir mikinn mannfjölda, allt miðað við það, að niðurstaðan verði sem réttust spegilmynd af áliti þjóðarinnar, jafnvel þótt um stórveldi sé að ræða. Þannig hef ég skilið skoðanakannanir. En þessar skoðanakannanir, sem hér er farið að stunda, eru heldur en ekki með öðrum hætti. Eftir því, sem manni koma þær fyrir sjónir, virðist Ríkisútvarpið afhenda einum manni vald til að framkvæma þessar skoðanakannanir. Og hann semur spurningarnar, og hann velur sér fólkið til þess að svara. Ég held, að allir geti nú séð, að hægt væri með þessum vinnubrögðum að tryggja sér fyrirfram ákveðin svör, þegar svona er í pottinn búið. En hver er þá tilgangurinn með þessu fyrirtæki Ríkisútvarpsins? Er Ríkisútvarpið þarna að leita eftir réttri spegilmynd af skoðunum þjóðarinnar í einhverju máli? Ég skal engu spá um það, hvernig hlutlaus og nákvæm skoðanakönnun um næturklúbbana yrði hér í Reykjavík. En ákaflega á ég erfitt með að trúa því, að hún yrði eitthvað á þá leið, sem kom fram á laugardagskvöldið var, og hvernig ætli það liti út, ef t. d. Ríkisútvarpið færi að fela þessum sama manni eða öðrum að koma með skoðanakönnun af þessu tagi um spurninguna: Á að greiða verðlagsuppbót á laun?, svo að ég nefni dæmi. Það getur vel verið, að útkoman yrði sú, ef þessum hætti yrði haldið áfram, að það svöruðu 9 neitandi, en aðeins einn eða svo játandi. En hvaða gildi hefði slíkt og hver væri tilgangurinn með því að birta þjóðinni þetta? Þetta hefði ekki svo ýkja mikið að segja, ef Ríkisútvarpið veldi til þessa aðeins einhver lítilfjörleg eða ómerkileg mál. þar sem almenningur lætur sér í léttu rúmi liggja, hver spurningin er og hvernig henni er svarað. En þegar þessi ríkisstofnun er farin að taka fyrir hápólitísk mál, einhver hin mestu ágreinings- og deilumál í þjóðfélaginu, og koma með þau svona framreidd í útvarp, þá tel ég, að gegni nokkuð öðru máli. Ég held, að það væri hægur vandi að notfæra sér þessa starfsemi sem ómengaðan pólitískan áróður.

Það vill nú svo til, að hér í þessari hv. d. eiga sæti þrír hv. alþm., sem allir eiga sæti í útvarpsráði. Ég vil beina þeirri spurningu til þessara hv. manna, sem því miður eru líklega ekki allir staddir hér inni, hver sé tilgangurinn með þessari starfsemi Ríkisútvarpsins og hversu vel þeir telji, að þetta samræmist þeirri hlutleysisreglu, sem útvarpinu er lögð á herðar samkv. lögum. Ég vænti þess, að ég fái einhver svör við þessu, því að þetta er í raun og veru ekkert hégómamál, og hér er um mikilsverða og merka stofnun að ræða, sem a. m. k. má ekki láta sig nein alvarleg mistök henda.