14.05.1969
Sameinað þing: 51. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1840 í B-deild Alþingistíðinda. (2128)

Almennar stjórnmálaumræður

Jón Þorsteinsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Áður en þessu þingi lýkur, verður væntanlega samþ. ný löggjöf um Stjórnarráð Íslands. Í þessari löggjöf felast m. a. þau nýmæli, að eitt og sama ráðuneyti verður að heyra óskipt undir einn og sama ráðh., og er það allmikil breyt. til bóta frá því sem nú tíðkast. Af lagasetningunni mun því óhjákvæmilega leiða, að breyta verður starfaskiptingu með ráðh. Flokkarnir, sem að ríkisstj. standa, ættu að íhuga vandlega, hvort eigi skuli nota þetta tilefni til að endurskipuleggja ríkisstj., svo að hún geti á ferskari og þróttmeiri hátt tekizt á við þau viðfangsefni, sem við blasa næstu misserin.

Undanfarin tvö ár höfum við glímt við stórfellda efnahagskreppu, sem yfir okkur skall vegna utanaðkomandi atvika. Margt bendir nú til, að í þeirri viðureign sé nú undanhaldinu lokið, og unnt sé að hefja sókn á ný, ef við berum gæfu til að setja niður magnaðar deilur um skiptingu þjóðarteknanna. Alvarlegasta afleiðing efnahagskreppunnar var hið mikla atvinnuleysi í vetur, en lífskjaraskerðingu af völdum þess var að nokkru mætt með hækkuðum atvinnuleysisbótum og rýmkun bótaréttar. Á árinu 1968 var sjávarafli rýr og verð á afurðum okkar lækkaði enn á erlendum mörkuðum. Af þessum sökum rýrnuðu atvinnutekjur fjölda launþega og atvinnufyrirtæki í sjávarútvegi, sem er undirstaða þjóðarbúskaparins, urðu fyrir miklum tekjumissi. Þeir fjármunir, sem í meðalári eru notaðir til kaupa á vörum og þjónustu, til byggingar íbúða og til fjárfestingar í atvinnurekstri, voru skyndilega skertir að miklum mun. Afleiðingin var víðtækur samdráttur og atvinnuleysi.

Ríkisstj. stóð því frammi fyrir risavöxnum vanda, og ekki bætti það úr skák, að samdrátturinn torveldaði mjög tekjuöflun ríkissjóðs og annarra opinberra sjóða, svo að ekki var unnt að standa við þau fyrirheit, sem áður höfðu verið gefin, hvað þá að hægt væri að veita viðbótarframlög til að bæta úr atvinnuástandinu. Peningaleysið bættist þannig ofan á atvinnuleysið. Stjórnarandstæðingar hrópuðu: Hvar er nú afrakstur góðu áranna? En þeir gleymdu því, að á góðu árunum sögðu þeir, að um engan afrakstur væri að ræða, vegna þess hve illa væri stjórnað. Það er þó lýðum ljóst, að ábati góðu áranna kom fram í betri lífskjörum þjóðarinnar, í nýjum atvinnutækjum og í gjaldeyrisvarasjóði, sem kom í góðar þarfir, þegar örðugleikarnir hófust. Eftir á að hyggja geta menn vitanlega sagt, að úrræði ríkisstj. í atvinnumálum hafi komið of seint. Hún hefði ekki átt að eyða svo löngum tíma í tilgangslausar viðræður um þjóðstjórn, en snúa sér fyrr að lausn efnahagsvandamálanna og taka fyrr upp viðræður við verkalýðshreyfinguna um atvinnumálin. Þannig hefði lánsféð, að upphæð 300 millj. kr., sem verja á til atvinnuaukningar, komið skjótar að gagni en raun varð á.

Hér er hægara um vik að gagnrýna en að gera betur. Hvað sem um þetta verður sagt, hlýtur ríkisstj. að gera sér vel ljóst, að það er frumskylda hennar að reyna allt, sem unnt er, til að halda uppi nægjanlegri atvinnu í landinu, og atvinnuleysi á borð við það, sem ríkti í vetur, má ekki endurtaka sig. En til þess að búa svo um hnútana þarf liðsinni fleiri aðila en ríkisstj. einnar.

Menn velta því gjarnan fyrir sér, hvort stjórnarandstaðan hefði staðið sig betur í þessum erfiðleikum en ríkisstj., ef stjórnarandstaðan hefði mátt ráða. Menn eru vitanlega ekki á eitt sáttir um þetta, enda ætíð nokkur vandi á höndum að bera saman orð stjórnarandstæðinga og athafnir ríkisstj. Að vísu virðist mér, sem Framsfl. hafi reynt upp á síðkastið að marka sér skýrari stefnu en áður. Samt sem áður er torvelt að átta sig á því, hvað flokkurinn raunverulega vill, og kemur þar tvennt til. Annars vegar er stefna flokksins sett fram með almennum orðum, þar sem allt yrði undir framkvæmdinni komið, en hins vegar álítur Framsfl. meginhluta örðugleikanna stafa af rangri stjórnarstefnu og telur sér naumast skylt að taka þátt í að leysa vandamál, sem aðrir hafi skapað. Þetta kom glöggt fram í sjómannadeilunni í vetur, sem ríkisstj. varð að lokum að leysa með lagasetningu. Framsfl. viðurkenndi nauðsyn þess að koma bátaflotanum af stað, en þar sem verkfallið væri ríkisstj. að kenna að hans dómi, en skýringin á því var æði langsótt, þá taldi Framsfl. sér óskylt að stuðla að lausn málsins og sat því hjá.

Hér á landi var einstaklega gott árferði ríkjandi og almenn velmegun á tímabili, sem hefst vorið 1964 og lýkur vorið 1967, eða um þriggja ára skeið. Á þessu tímabili var lítið um verkföll og vinnustöðvanir. Þjóðin bar þá gæfu til að leiða kjaradeilur að jafnaði til lykta, án þess að til framleiðslustöðvana kæmi. Á hinn bóginn tekst svo hörmulega til, að tvö síðustu árin, þegar harðnað hefur á dalnum og stórfelld efnahagsleg áföll hefur borið að garði, hafa þrívegis átt sér stað alvarlegar vinnustöðvanir, sem hafa veikt stöðu okkar ískyggilega, þegar sízt skyldi, og aukið á allan þann vanda, sem nægur var fyrir. Við þetta kunna svo að bætast á næstunni vinnustöðvanir á kaupskipaflotanum og togaraflotanum.

Fyrsta vinnustöðvun af þessu tagi var allsherjarverkfallið í marzmánuði í fyrra, er stóð í hálfan mánuð og lyktaði með samkomulaginu 18. marz. Gera má ráð fyrir, að í þessari deilu hafi 3–4% af þjóðartekjum okkar á árinu 1968 farið forgörðum. Samið var um skertar vísitöluuppbætur, er fyrst og fremst féllu láglaunafólki í skaut. Með þessari samningsgerð sýndu verkalýðsstéttirnar ábyrga afstöðu og tóku á sig sinn hluta byrðanna.

Næsta vinnustöðvun, sem hér skiptir máli, var svo sjómannaverkfallið í upphafi þessa árs, sem stóð í einn mánuð og lyktaði með því, að kjör yfirmanna á bátaflotanum voru lögfest, en skömmu áður höfðu samningar tekizt við háseta. Þetta verkfall átti drjúgan þátt í hinu mikla atvinnuleysi í upphafi ársins, því að starfsfólk fiskverkunarstöðva hafði engin verkefni meðan á verkfallinu stóð. Þessi deila sýndi glögglega, hversu alvarlegar afleiðingar vinnustöðvun getur haft fyrir afkomu fólks, sem utan við deiluna stendur. Að sjálfsögðu hefur verkfallið á bátaflotanum komið í veg fyrir verðmætasköpun í sjávarútvegi, sem nemur mörgum hundruðum millj. króna. Það sorglega við þessa vinnustöðvun var það, hversu lengi hún stóð, þar sem kröfur sjómanna voru nokkuð sanngjarnar, og í upphafi virtist ekki bera mikið á milli, en skýringin kann að felast í því, hversu seint deilunni var vísað til sáttasemjara.

Þá kem ég að þeirri víðtæku vinnudeilu, sem nú stendur yfir, þar sem brugðið hefur fyrir verkbönnum og keðjuverkföllum, er valdið hafa alvarlegum framleiðslutruflunum, þótt um almenna og varanlega vinnustöðvun hafi enn sem komið er ekki verið að tefla. Þessi deila er óvenjuerfið viðfangs. Með samkomulaginu 18. marz í fyrra var samið um skerta vísitölu eins og áður segir. Þannig var um samið, að skerðingin yrði mest á tímabilinu fram til 1. des. 1968, en eftir 1. des., á meðan samkomulagið væri í gildi, yrði vísitöluskerðingin minni. Launþegar áttu þannig von á að rétta hlut sinn nokkuð á árinu 1969, miðað við kjörin 1968, ef marz-samkomulagið hefði gilt áfram. Í ljósi hinnar miklu vísitöluhækkunar, sem leiddi af gengisfellingunni í nóv. s. l., geta verkalýðssamtökin líka bent á, að það sé meiri fórn af hálfu launþega að búa við skertar vísitöluuppbætur á tímum mikilla verðhækkana en þegar minni hreyfing er á verðlaginu. Frá sjónarhóli vinnuveitenda lítur málið hins vegar öðruvísi út. Þeir benda á, að hagur atvinnufyrirtækjanna, einkum í sjávarútvegi, hafi versnað að mun, frá því að marzsamkomulagið var gert á s. l. ári. Til þess að bjarga við málum hafi þurft nýja gengisfellingu í nóvembermánuði s. l. Þessi gengisfelling sé nægjanleg til þess að rétta hlut útflutningsatvinnuveganna, ef þeir þurfi ekki að borga hærra kaupgjald en áður. Aðrar atvinnugreinar geti heldur ekki tekið á sig kauphækkanir, nema hækka verð á framleiðsluvörum sínum og þjónustu innanlands og velta þannig kauphækkunarútgjöldunum af sér og yfir á landslýðinn, og komi þetta engum að gagni. En yfirleitt séu atvinnufyrirtækin þannig á vegi stödd, að þau geti ekki tekið að sér að greiða ofan á launin þær stórauknu vísitöluhækkanir, sem gengisfellingin hafði framkallað. Verði þau til þess knúin, missi fyrirtækin samkeppnishæfni sína og það leiði einvörðungu til samdráttar og atvinnuskorts.

Vissulega má segja, að báðir deiluaðilar hafi nokkuð til síns máls, en í sjónarmiðum vinnuveitenda gætir þó alltaf tilhneigingar til að velta kauphækkunarútgjöldum með einhverju móti yfir á ríkið og þar með yfir á skattgreiðendur í landinu. Það er eftirtektarvert, að aldrei skuli eiga sér stað í kjaradeilu, að vinnuveitendur bjóðist til þess að taka á sig einhverja kauphækkun, sökum þess að þeir hafi bætt rekstur fyrirtækja sinna, enda ættu þeir þá örðugara með að senda bakreikning á ríkið eða verðlagsyfirvöldin. Vinnuveitendur ættu nú skilyrðislaust að ganga mjög langt til móts við kröfur verkalýðshreyfingarinnar í þessari vinnudeilu, sem síðustu dagana hefur tekið á sig form grunnkaupshækkunar í stað vísitölubóta. Þetta eiga atvinnurekendur að gera, annars vegar fyrir þá sök, að þeir hafa nú þegar sparað sér að greiða umkrafðar kaupgjaldshækkanir í 2½ mánuð, eða frá 1. marz, og hins vegar sökum þess, hve hinn mikli vertíðarafli hefur bætt hag hraðfrystihúsanna, en þau voru af efnahagssérfræðingum talin sú atvinnugrein, er örðugast ætti með að hækka launaútgjöld sín. Um þörf launþega í kjarabótum ætti ekki að þurfa að deila.

Ég lít á það sem þjóðarmein, hversu örðuglega okkur gengur að setja niður kjaradeilur og hversu oft þarf að grípa til langvarandi vinnustöðvana. Við verðum að reyna að komast fyrir rætur þessara meinsemda. Það hlýtur að vera ríkt hagsmunamál launþega, vinnuveitenda og þjóðarinnar í heild, að samkomulag í deilum um kjör og kaup verði reynt til þrautar, áður en gripið er til verkfalla og verkbanna með því margháttaða tjóni, sem af þessu hlýzt, svo sem atvinnuleysi, tekjumissi, gjaldeyristapi, spillingu verðmæta og fjárhagslegum áföllum. Til þess að vinna að þessu marki flutti ég í vetur frv. til l. um breytingar á vinnulöggjöfinni, sem miðar að því að tryggja sáttameðferð í tiltekinn tíma, áður en til vinnustöðvunar kemur, en á slíka sáttameðferð skorti mjög í vinnudeilunni í marzmánuði í fyrra og í sjómannadeilunni í vetur. Frv. miðar einnig að því að auka vald sáttasemjara með því að heimila honum að fresta vinnustöðvunum um tiltekinn tíma og með breyt. á reglum um atkvæðagreiðslur um miðlunartill. En í yfirstandandi vinnudeilu hefur það einmitt komið skýrt í ljós, að sáttasemjari og sáttanefnd hafa ekki nægilegt vald að baki sér til þess að knýja fram lausn. Það olli mér vonbrigðum, hversu frv. þetta hefur fengið daufar undirtektir á Alþ. Alþýðubandalagsmenn voru því andvígir eins og við var að búast, sjálfstæðismenn vildu vísa því til ríkisstj. með tilmælum um heildarendurskoðun á vinnulöggjöfinni, en slíkar fyrirætlanir um endurskoðun hafa jafnan runnið út í sandinn. Framsóknarmenn höfðu lítinn áhuga á frv. og vildu vísa því frá með rökstuddri dagskrá. Það er vissulega ýmislegt fleira en breyt. á vinnulöggjöfinni, sem til þess er fallið að koma samskiptum vinnuveitenda og launþega í betra horf. Ég nefni sem dæmi aðild starfsmanna fyrirtækja að stjórn þeirra, sem skapað getur meiri samábyrgð um reksturinn og jafnframt leitt launþega í allan sannleik um það, hvers fyrirtækin séu raunverulega megnug. Íslenzka þjóðin hefur ekki ráð á því, allra sízt nú, að láta innbyrðis deilur um skiptingu þjóðarverðmætanna verða svo hatrammar, að framleiðslan stöðvist og stórfelld verðmæti fari í súginn. Minnumst þeirrar ráðleggingar, er skáldið gaf okkur:

„Litla þjóð, sem átt í vök að verjast,

vertu ei við sjálfa þig að berjast“.

— Góða nótt.