14.05.1969
Sameinað þing: 51. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1851 í B-deild Alþingistíðinda. (2131)

Almennar stjórnmálaumræður

Eyjólfur K. Jónsson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Ef það er rétt, að glöggt sé gests augað, ætti ég að hafa sæmilega aðstöðu til að meta störfin hér á hinu háa Alþingi, því að ég hef nú nokkrum sinnum komið hér sem varaþm, og dvalið um stund. Langar mig því til að svipast hér svolítið um með áheyrendum mínum, því að ég held, að menn geri sér ekki rétta grein fyrir því mikilvæga starfi, sem unnið er hér á löggjafarsamkomu þjóðarinnar, virðulegustu og mikilvægustu stofnun landsins. Raunar er það ekkert nýtt, að kappsfullum mönnum og stórhuga finnist seint og illa ganga að ráða fram úr vandamálum þjóðarinnar. Þannig segir t. d. Einar Benediktsson í ritgerð sinni, Starfsfé fyrir Íslendinga: „Hér þarf að leggja leiðarlínur þjóðernisstefnunnar yfir svo langt tímabil, fyrst og fremst, sem útlend lán geta veitzt til, þegar þingið snýr sér að því að verða löggjafarsamkoma fyrir landið, í stað þess að vera innbyrðis vátryggingarstofnun fyrir fulltrúana sjálfa.“ — Og vonandi kemur sá tími aldrei, að skeytingarleysi landsmanna um störf Alþ. verði með þeim hætti, að ekki verði á það deilt. Þá fyrst væri lýðræðinu hætta búin.

Sannleikurinn er sá, að hér í þessari stofnun er mikið starfað og með allt öðrum hætti en menn fá hugmynd um, er þeir líta inn á þingfundi, sem stundum eru fáskipaðir, eða hlýða á útvarpsumr. í stöðnuðu formi. Ég hef það líka fyrir satt, að starfshættir Alþingis séu miklu betri nú en fyrrum var, þegar altítt var t. d., að forsetum tækist ekki að setja þingfundi fyrr en talsvert var komið fram yfir boðaðan fundartíma. Enginn efi er samt á því, að till. þær, sem hæstv. forsrh. hefur flutt um styttingu þinghalds og meiri störf og festu þá daga, sem þingið starfar, gætu orðið til verulegra úrbóta. Hins vegar eru þær till. fráleitar, sem hv. þm. Eysteinn Jónsson hefur gert um lengingu þinghalds og svo mikla hækkun þingfararkaups, að alþm. yrðu allir atvinnustjórnmálamenn, sem slitnir væru úr tengslum við hin daglegu störf í þjóðfélaginu.

Auðvitað er á Alþingi Íslendinga að finna þverskurð þeirra hræringa, hugsjóna og hagsmunastreitu, sem í þjóðfélaginu fer fram. Og grundvallarskilyrði þess, að Alþingi gefi rétta mynd af þjóðarviljanum, er auðvitað, að þm. umgangist sem flesta, háa og lága, eins og orðtak er hér á landi, hvað svo sem það þýðir í eina stéttlausa þjóðfélagi veraldar.

Víst er það hvimleitt, hve erfitt er oft á tíðum að átta sig á raunverulegum skoðunum einstakra þm. Störf löggjafans einkennast mjög af málamiðlun, og hún á sér venjulega stað að tjaldabaki, í flokksherbergjum og á göngum Alþingis. Mönnum finnst þessi mynd bera vitni um skoðanaleysi og jafnvel geðleysi alþm., en það er oftast á misskilningi byggt. Deilurnar og skoðanaskiptin hafa átt sér stað, en ekki náð hlustum og sjónum þeirra, sem utan þings eru. Þessi málamiðlun byggist að sjálfsögðu að verulegu leyti á því, að þjóðin hefur enn ekki falið einum flokki að fara með stjórn landsins. Þess vegna hefur ekki reynzt unnt að koma við jafntraustum stjórnarháttum, eins og verið hafa t. d. í Reykjavík, þar sem Sjálfstfl. hefur getað framkvæmt stefnu sína í borgarmálum. Og auðvitað eru dæmin deginum ljósari um ýmislegt það, sem betur hefði getað farið í landsstjórninni, enda enginn hlutur auðveldari en gagnrýna það, sem gert er og vera vitur eftir á. En ef við viljum gera okkur grein fyrir því, hvort Alþ. og ríkisstj. hafi gengið til góðs þann áratug, sem nú er að ljúka, eru hæg heimatökin fyrir þá, sem eldri eru eða komnir undir miðjan aldur, að renna huganum til baka þessi ár og meta hleypidómalaust þá þróun, sem hér hefur orðið.

Ungur framsóknarmaður, sem dvaldi hér á Alþ. um skeið í vetur, sagði í útvarpsumr., að sú kynslóð, sem borið hefur hita og þunga dagsins að undanförnu, hefði lagt drápsklyfjar á æskulýðinn og lífsstarf unga fólksins, sem yrði að losa sig við þessa ógnarbyrði. Meiri ósvífni, meira vanþakklæti og meiri vantrú á íslenzka æsku og dómgreind hennar hef ég aldrei heyrt. Sú kynslóð, sem senn lætur af störfum, hefur búið okkur, sem nú erum á bezta starfsaldri, og þeim, sem yngri eru, betri lífskjör og betri skilyrði til að bæta þessi lífskjör en nokkurs staðar annars staðar þekkist í víðri veröld. Hún hefur skilað okkur í hendur landi með ótæmandi tækifærum, landi, sem breytt hefur verið úr fátæku landi í ríkt land, og mestar hafa umbyltingarnar orðið á þessum áratug. Efnahagslegar framfarir hafa verið svo gífurlegar, að ekki á að þurfa að eyða að því orðum, en hitt skiptir þó e. t. v. meira máli, að í menningarlegum efnum hafa umskiptin orðið alger.

Við heyrum því stundum haldið fram, að ríkisstj. Íslands sé ekki nægilega sterk stjórn, hún ráði ekki við vandamálin og geri jafnvel ekki tilraun til að ráða við þau. En hvert er einkenni veikrar stjórnar og hvert einkenni hinnar sterku? Eru stjórnirnar í einræðisríkjunum sterkar stjórnir? Er það sterkt stjórnarfar, þar sem borgararnir fá ekki að taka þátt í stjórnarstörfum — þar sem hinar ýmsu stofnanir þjóðfélagsins eru firrtar áhrifum og völdum? Eru stjórnirnar í nýfrjálsu ríkjunum sterkar stjórnir, þar sem borgararnir hafa ekki þroska til að láta málefnin til sín taka? Var stjórnarfarið sterkt hér á Íslandi, þegar allt byggðist á boðum og bönnum, höftum og þvingunum?

Þessum spurningum svarar auðvitað hver fyrir sig. Mín skoðun er sú, að það stjórnarfar eitt sé sterkt, sem þolir að eftirláta borgurunum sem fullkomnast frelsi. Ég veit raunar, að vinstri sinnar í mismunandi flokkum telja, að stjórnarherrarnir eigi í ríkum mæli að hlutast til um hátterni borgaranna, vegna þess að alþýðan hafi ekki þroska og manndóm til að stýra málefnum sínum sjálf. Það er þar, sem skilur á milli þeirra og okkar, sem aðhyllumst hugsjónir sjálfstæðisstefnunnar.

Fyrir einum eða tveimur áratugum voru átök oft illvíg hérlendis. Menn skirrðust t. d. ekki við að beita vægðarlaust verkfallsvopni, þótt í andstöðu væri við hagsmuni þjóðarinnar allrar. Og svo rammt kvað að átökum fyrir tveimur áratugum, að ógnað var sjálfu lýðræðinu, þar sem hindra átti störf löggjafarsamkomunnar með ofbeldi. Það var 30. marz 1949, sem Íslendingar stigu það gæfuríka spor að taka þátt í samtökum lýðfrjálsra þjóða til varnar frelsinu. Og þegar við lítum yfir það, sem áunnizt hefur, má ekki gleyma utanríkismálunum, mikilvægustu málum smáþjóðar, sem varðveita vill frelsi sitt. Og í þeim málum hefur svo vel til tekizt, að við Íslendingar búum ekki við minna öryggi en þeir, sem máttugastir eru, og njótum virðingar og álits á alþjóðavettvangi til jafns við hvaða þjóð sem er. En þótt það sé gleggsti votturinn um menningarstig þjóðar, að hún þolir frjálsræðið, er hinu ekki að leyna, að stundum gleymum við því, hverjum við eigum einna mest að þakka í þessu efni, rithöfundum okkar, skáldum og öðrum lista- og vísindamönnum, og ekki er það vansalaust, að á verðbólgutímum skuli hin svokölluðu heiðurslaun til okkar helztu hugsuða hafa verið skert sem hækkunum verðlags nemur.

Já, ég nefndi verðbólgutíma. Og víst er það rétt, að enn sem fyrr hefur okkur gengið erfiðlega að kljást við þann draug, sem verðbólga nefnist. Núv. ríkisstj. setti sér það mark þegar 1960 að vinna bug á verðbólgunni, samhliða því sem hún upprætti það kerfi spillingar og hafta, sem hér hafði lengi verið við lýði. Þetta áform hefur mistekizt. Bezt er að játa það umbúðalaust, og raunar er þetta ekkert íslenzkt fyrirbrigði, heldur hefur verðbólguþróun verið í flestum vestrænum löndum. Fyrstu ár viðreisnarstjórnarinnar voru ár erfiðleika eftir hið slæma stjórnarfar, sem hér hafði ríkt. Á þeim árum tókst sæmilega að hafa hemil á verðbólgu, og framfarir voru jafnar og öruggar.

Í kjölfar þeirrar heilladrjúgu stefnu hagsældar og stöðugrar uppbyggingar fylgdi hið mikla veltutímabil um miðbik áratugsins, og margt fór þá óneitanlega úr böndum, en ekki bara það, sem stjórnvöld glímdu við, heldur líka hjá einstaklingunum, því að þjóðin virtist farin að trúa því, að hún gæti leyft sér svo til hvað sem var. En síðan komu áföllin. Kannske má segja, að við höfum að sumu leyti haft gott af þeim, því að unga þjóð þurfi stundum að aga. Að vísu voru áföllin svo stórvægileg, að mikil vá gat verið fyrir dyrum, en svo vel vildi til, að við Íslendingar höfðum safnað varasjóðum, sem í góðar þarfir komu, svo að kjaraskerðingin varð minni en ella, og nú er á ný bjart framundan fyrir margra hluta sakir.

Ríkisstj. og Alþ. gerðu þær ráðstafanir, sem nægja munu til að rétta við þjóðarhag. Þær voru kannske harðneskjulegar, en þó hvergi lengra gengið en nauðsynlegt reyndist. Mér segir raunar svo hugur, að þegar stjórnmálasaga verður skrifuð síðar, verði núv. ríkisstj. talið það helzt til hróss að hafa þorað að horfast í augu við erfiðleikana á hverjum tíma og hún verði talin hafa verið bezt, þegar erfiðleikarnir voru mestir.

Grundvöllur hefur nú verið lagður að alhliða framförum, stórátak verður nú gert í vegamálum, fjármagn til rannsóknar náttúruauðlinda hefur verið margfaldað og undirbúnar nýjar stóriðjuframkvæmdir. Fé er útvegað til byggðaáætlana og síðast en ekki sízt er unnið að lagabreytingum til að beina fjármagni almennings til atvinnurekstrar. Og þess sjást líka glögg merki um land allt, að athafnamenn ætla að hagnýta þau tækifæri, sem bjóðast til margháttaðrar framleiðsluaukningar og eflingar atvinnulífs. Fólkið skilur nú betur en nokkru sinni áður þá grundvallarþýðingu, sem það hefur, að atvinnuvegirnir séu reknir á traustum grundvelli og skili eðlilegum arði. Auðæfin eru ótæmandi til lands og sjávar, en mest er þó um vert, hve verkmenning þjóðarinnar er mikil. Við byggingu og rekstur mikilvægustu nýjungarinnar á atvinnusviðinu, álbræðslunnar, kom í ljós, að Íslendingar kunnu svo vel til verka, að þeim voru falin flest þau störf, sem útlendingum höfðu verið ætluð fyrst í stað, og orð á því haft af þeim, setti bezt til þekkja, hve snurðulaust hefði gengið bygging þessa stórfyrirtækis. Það er manndómur og menntun íslenzku þjóðarinnar, sem á næstu áratugum mun margfalda þjóðarauðinn og bæta lífskjörin jafnt og þétt, ef menn þora að fást við viðfangsefnin, sem við blasa um land allt, frá Siglufirði til Suðurnesja. Við skulum umfram allt halda áfram að gagnrýna stjórnvöld og efla þjóðmálaumr. í anda þess frjálsræðis, sem þróazt hefur síðari árin fyrir tilstuðlan blaða, sjónvarps og útvarps. Og þegar að því kemur, að við á ný veljum okkur forystu í landsmálunum, skulum við minnast þess, að við viljum líka í framtíðinni fá að njóta þessa frjálsræðis. Þess vegna viljum við forðast áhrif þeirra afla, sem þröngsýn eru og telja, að svokölluð sterk stjórn, vinstri stefna, sósíalismi, hin leiðin eða hvað það nú er, sem þeir nefna stefnu sína, sé það, sem íslenzku þjóðinni sé fyrir beztu.