30.04.1969
Sameinað þing: 45. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 2176 í B-deild Alþingistíðinda. (2216)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég hef áður lýst afstöðu minni og okkar Alþb.-manna til þess máls, sem hér er til umr., en það er þó komið á nokkuð nýtt stig nú. Það fer ekki á milli mála, að okkar skoðun er sú, að sú stefna, sem hæstv. fjmrh. tók upp í þessu máli, fær ekki staðizt samkv. gildandi lögum og samningum, sem um launakjör opinberra starfsmanna gilda, og við álítum, að hér hafi verið farið inn á algerlega ranga braut og það beri að snúa út af þeirri braut hið fyrsta. Nú er svo komið, að fallnir munu vera í gjalddaga þrír launamánuðir hjá opinberum starfsmönnum, sem um er deilt. Fjmrh. hefur tekið sér það vald að greiða ekki starfsmönnunum út umsamið kaup, hann heldur ákveðnum hluta kaupsins eftir, þó að hann lýsi því yfir, að hann muni skila þessu, ef ekki verður fallizt á hans sjónarmið af opinberum dómstólum. Það breytir engu um það, að hér er verið að brjóta lög og reglur á starfsmönnum ríkisins, og ég fyrir mitt leyti er ekki í neinum vafa um það, að færi svo, sem það hlýtur í rauninni að fara, að hæstv. fjmrh. tapi þessu máli fyrir dómstólum um það er lýkur, þá er hægt að gera ríkið skaðabótaskylt fyrir það að hafa haldið eftir umsömdu kaupi um alllangan tíma og bakað starfsmönnunum í ýmsum efnum útgjöld eða erfiðleika, sem þeir vissulega hafa getað orðið fyrir þegar svona stendur á. Ég vara við því fyrir mitt leyti, að hæstv. fjmrh. haldi áfram þessari alröngu stefnu, eins og nú er komið, eftir að hann hefur fengið tilheyrandi áminningu að mínum dómi frá tveimur dómstólum varðandi málið, og ég álít, að hann ætti nú að taka upp þá reglu að skila starfsmönnunum hinni umdeildu upphæð tafarlaust og fylgja settum reglum og óska svo eftir því, ef hann vill að öðru leyti, að það fari fram nýtt mat á þessum málum, og málið yrði þá tekið til endurskoðunar og dómur þá kveðinn upp um það, hvort ástæða er til þess að breyta launakjörum opinberra starfsmanna frá því, sem dómur liggur fyrir um. Það er vitanlega engin afsökun í þessum efnum, þó að hæstv. fjmrh. beri því við nú, að kröfu hans í þessum efnum hafi verið vísað frá vegna formgalla. Það er hægt að halda þessu máli áfram um langan tíma í sambandi við slíkar deilur, og það er hægt að ganga enn þá lengra út í vandræðin, ef þannig á áfram að halda. Ég vil því undirstrika það fyrir mitt leyti, að það sé nauðsynlegt, eins og nú er komið, að breytt verði um stefnu í þessu máli af hálfu ríkisstj. og vísitöluuppbótin greidd starfsmönnum ríkisins, eins og dómar liggja raunverulega fyrir um, og hæstv. fjmrh. viðurkenni þannig, að hann hefur tekið sér það vald, sem hann hefur ekki samkv. l., og hann hætti ekki í þessum efnum meiru en búið er að gera. Það er auðvitað enginn vafi á því, að hæstv. fjmrh. hefur hér framið hin mestu glöp í sambandi við þessar launagreiðslur. Og ég vil vænta þess, að hann hafi einnig í huga þá ábyrgð, sem hann er raunverulega að leggja á ríkissjóð, ef hann heldur þessu áfram með sama hætti og verið hefur.

Ég vil sem sagt undirstrika það í sambandi við þetta mál, að við Alþb.-menn lítum svo á, að það sé rétt og sjálfsagt að breyta hér um stefnu og greiða starfsmönnunum út fullar vísitölubætur á launin fyrir marzmánuð og aprílmánuð og nú fyrir þann mánuð, sem er að byrja, eða samkv. gildandi dómi um laun opinberra starfsmanna.