24.03.1969
Efri deild: 62. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1 í C-deild Alþingistíðinda. (2312)

187. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv. þetta er flutt í framhaldi af ákvörðun Alþ. um þetta efni við afgreiðslu fjárlaga nú á s. l. hausti. Þá var ákveðið að fella niður fjárveitingu til Fiskveiðasjóðs Íslands í fjárlögum 1969. Er frv. þetta lagt fram í samræmi við þá ráðstöfun.

Gengisbreytingin í nóv. s. l. veldur verulegri hækkun á útflutningsgjaldi, sem er mikilvægur tekjustofn sjóðsins. Miðað við útflutningsáætlun Efnahagsstofnunarinnar fyrir árið 1969, munu tekjur Fiskveiðasjóðs Íslands af útflutningssjóðsgjaldi aukast um 16½ millj. kr. á þessu ári frá því, sem ella hefði orðið. Með 1. kafla l. nr. 79 frá 1968, um ráðstafanir í sjávarútvegi vegna breytts gengis ísl. kr., var fjárhagur stofnfjársjóðs fiskiskipa efldur að mun. Af þessum sökum og vegna ráðstafana, sem gerðar hafa verið til þess að skapa sjávarútvegi traustari afkomugrundvöll, var sú ákvörðun tekin að fella niður fjárveitingu til fiskveiðasjóðs.

Nauðsyn ber til, að mál þetta fái afgreiðslu á þessu þingi, og er ráðstöfun þessi gerð í því trausti, að fiskveiðasjóður muni að öllu leyti geta staðið við fjárhagsskuldbindingar sínar í framtíðinni þrátt fyrir niðurfellingu ríkissjóðsframlagsins.

Ég vildi, herra forseti, mælast til þess, að n., sem málið fær til meðferðar hér í hv. Ed., leitaði samstarfs við samsvarandi n. í Nd., til þess að málið þyrfti ekki allt of lengi að vera á döfinni og fengi sem skjótasta afgreiðslu.

Ég legg til, herra forseti, að frv, verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.