11.03.1969
Neðri deild: 63. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 26 í C-deild Alþingistíðinda. (2344)

32. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Frsm. meiri hl. (Guðlaugur Gíslason):

Herra forseti. Heilbr.- og félmn. hefur haft þetta mál ti1 athugunar, en gat ekki orðið sammála um afgreiðslu þess, og leggur meiri hlutinn til, að það verði afgr. með rökstuddri dagskrá, sem fram kemur á þskj. 301. Frv. um mjög svipaða breyt. á tekjustofnalögunum og hér liggur fyrir var lagt fram á síðasta þingi, og fékk heilbr.- og félmn. það mál þá einnig til athugunar. Hún sendi það þá til umsagnar nokkurra aðila og þar á meðal til Sambands ísl. sveitarfélaga, sem eðlilegt var, og bárust okkur frá 2 þessara aðila umsagnir. Það er í fyrsta lagi frá Stéttarsambandi bænda, og niðurstaðan í þeirra áliti er þannig:

„Fundurinn telur mál þetta mjög vandasamt og nauðsynlegt, að það verði tekið til mjög gagngerðrar athugunar. Leggur hann til, að Alþ. láti gera það undir forustu Sambands ísl. sveitarfélaga, þar sem stjórn Stéttarsambands bænda getur haft fulltrúa.“

Í umsögn Sambands ísl. sveitarfélaga um málið frá síðasta þingi, eins og það lá þá fyrir og var, eins og ég segi, í mjög svipuðu formi og það frv., sem hér er nú, segir m. a. þetta, með leyfi hæstv. forseta:

„Samkvæmt gildandi l. er það á valdi einstakra sveitarstjórna, hvernig hlutfallið er á milli aðstöðugjalda og útsvara, þ. e. hvernig gjaldstigum er hagrætt, svo fremi það er innan hins lögákveðna hámarks. Um það má að vísu deila, hvort slík tilhögun sé sanngjörn og heppileg til frambúðar, en óvarlegt og varhugavert virðist að breyta að þessu leyti lagaákvæðum um einn tekjustofn. Eðlilegra virðist að taka jafnframt til endurskoðunar að þessu leyti aðra tekjustofna sveitarfélaganna. En rétt er að vekja athygli á því, að nú eru öll þessi mál í athugun hjá n. þeirri, er vinnur að athugun á upptöku staðgreiðslukerfis opinberra gjalda. Þá er rétt að vekja athygli á því, að engan veginn er öruggt, að samanburður á aðstöðugjaldsstigum í mismunandi sveitarfélögum gefi rétta mynd af heildarsveitarsjóðsútgjöldum fyrirtækja eða einstaklinga í þeim sveitarfélögum. Ef rétt mynd á að fást í þessu efni, verður sá samanburður að ná til allra sveitarsjóðsgjalda. Í mörgum sveitarfélögum, þar sem háir aðstöðugjaldsstigar hafa verið, hefur t. d. verið gefinn mikill afsláttur af útsvörum. Þar sem svo hefur verið ástatt, hefur þetta leitt til minnkaðrar greiðslubyrði hins almenna gjaldanda, og verður að ætla, að sveitarstjórnir almennt hafi ekki í þessu efni unnið gegn hagsmunum byggðarlaga sinna.“

Þetta var m. a. úr umsögn Sambands ísl. sveitarfélaga, og niðurstaðan hjá Sambandinu er þessi: „Af framangreindum ástæðum getur stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga ekki mælt með samþykkt þessa frv.“

Það kemur þarna fram í umsögn Sambands ísl. sveitarfélaga, eins og reyndar öllum sveitarstjórnarmönnum hlýtur að vera ljóst, að breyt. á tekjustofnalögunum þýðir óneitanlega tilfærslu á gjöldum milli þegna innan hvers sveitarfélags. Að mínum dómi og af þeirri reynslu, sem ég hef af þessum málum, þá er þarna um mjög flókið mál að ræða og mjög misjöfn aðstaða í hverju sveitarfélagi, hvað rétt er að gera. Það má segja, að sveitarstjórnarlögin, eða tekjustofnahlið þeirra, gefi sveitarfélögunum nokkuð rúma heimild til þess að ákveða, hvernig gjöld eru tekin, þó innan þess ramma, sem þau marka. Ég tel, að þetta sjálfræði sveitarfélaganna til að haga málum sínum eins og þau telja eðlilegast sé alveg nauðsynlegt, aðstæðurnar eru svo geysilega ólíkar á hverjum stað, og í sambandi við aðstöðugjöld, þá er það mjög misjafnt, hvað hin einstöku sveitarfélög láta af hendi til þeirra aðila, sem aðstöðugjöldin greiða. Allt þetta grípur mjög inn í það og eru rök fyrir því, að mjög sé óeðlilegt að gera neinar stórfelldar breytingar, eins og er t. d. gert í því frv., sem hér liggur fyrir, — gera neinar stórfelldar breytingar á tekjustofnalögum sveitarfélaganna, nema að mjög vel athuguðu máli, þar sem Samband ísl. sveitarfélaga hefur fengið aðstöðu til að skoða málið í heild og láta í ljós álit sitt um það, því að þetta er það, sem snertir sveitarfélögin kannske einna mest, hvernig aðstöðu þeirra til tekjuöflunar er háttað, og því mjög óeðlilegt að mínum dómi og okkar, sem að hinni rökstuddu dagskrá stöndum, að það sé gert, nema fyrir liggi umsögn stjórnar sambandsins, eftir að hún hefur skoðað málið vandlega og viljað fallast á að mæla með þeim breytingum, sem þar eru. Ég tel, að á annan hátt sé mjög erfitt fyrir Alþ. að gera róttækar breytingar. Því er hin rökstudda dagskrá fram komin, þar sem lagt er til, að málinu verði vísað frá, og vil ég í því sambandi ítreka það, sem fram kemur í umsögn Sambands ísl. sveitarfélaga, að málið í heild er í athugun í sambandi við þær breytingar, sem ræddar hafa verið og nauðsynlegt verður að gera, ef tekið verður hér upp staðgreiðslukerfi opinberra gjalda.