25.03.1969
Efri deild: 63. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 132 í C-deild Alþingistíðinda. (2422)

114. mál, Atvinnumálastofnun

Tómas Árnason:

Herra forseti. Þetta frv., sem hér er til umr., fjallar m. a. um grundvallarstefnu í fjárfestingarmálum og gjaldeyrismálum. Ég vildi gera að umtalsefni sérstaklega fjárfestingarmálin, víkja að þeim nokkuð og ræða ýmis vandamál í sambandi við þau mál.

Þau atriði, sem auðvitað koma til álita, þegar meta á, hvaða stefna sé skynsamlegust í fjárfestingarmálum þjóðarinnar, eru atriði eins og stöðugt verðlag, stöðug skráning á gengi krónunnar og ýmislegt annað, sem hefur áhrif á fjárfestingarmálin, sérstaklega þegar þau eru frjáls. Ég álít í raun og veru, að menn ættu aldrei að hætta að útskýra skaðsemi verðbólgunnar. Að vísu hættir mönnum til þess að yppta öxlum í þessum efnum og vísa til þess, að það sé búið að ræða þetta of mikið og of lengi, en í raun og veru er verðbólgan mesti bölvaldur, sem við búum við og höfum búið við um langt árabil, og skuggahliðar hennar eru vissulega margar. Ég mun ekki ræða þetta frekar nú, en vík að því í sambandi við fjárfestingarmálin og þá stefnu, sem við höfum búið við í þeim málum á undanförnum árum.

Það fer ekki á milli mála, að við Íslendingar höfum á síðasta áratug og lengur búið við mjög mikla verðbólgu, og við höfum búið við ört fallandi gengisskráningu. Þetta hefur haft þær afleiðingar, að allir hafa keppzt um að komast yfir peninga til þess að festa þá í einhverjum framkvæmdum, vélum, í byggingum af ýmsu tagi, skipum o. s. frv. Fjárfestingin í landinu hefur verið frjáls á þessu tímabili, á sama tíma sem við höfum, eins og ég sagði áður, búið við mjög mikla verðbólgu. Ég er þeirrar skoðunar, þó að ég sé ekki sérlega hagfróður maður, að frelsi í fjárfestingarmálum á tímum verðbólgu og fallandi gengis sé stórhættulegt fyrirbrigði og hljóti að valda gífurlegum, óheillavænlegum röskunum í efnahagslífi þjóðarinnar, þegar til lengdar lætur. Og ég vildi mega halda því fram, að raunveruleg forsenda fyrir frelsi í fjárfestingarmálum væri tiltölulega stöðugt verðlag og tiltölulega stöðug skráning á gengi krónunnar. Þess vegna álít ég, að það verði, þegar rætt er um fjárfestingarmálin og þegar metin er stefna núv. ríkisstj. í fjárfestingarmálum, að taka tillit til þess, að við höfum búið við mikla verðbólgu á undanförnum árum og á sama tíma hefur fjárfestingin verið frjáls. Þetta álít ég í raun og veru háskalegt, enda er ástandið í þessum efnum þannig nú, að það fer ekki á milli mála, að þróun undanfarandi ára hefur verið skaðsamleg í ýmsum efnum. Það má reyndar fullyrða það, að fjárfestingaræði hafi gripið um síg í landinu. Allir hafa reynt að ná peningum til þess að festa þá í einhverju, af því að það hefur verið frjálst. Af hálfu ríkisvaldsins hafa litlar sem engar hömlur verið settar í samræmi við þá kenningu, að þetta mundi verka sig út, ef fjárfesting væri frjáls. Ríkisvaldið hefur nánast setið með hendur í skauti og horft á leikinn. Það er það sanna í þessum málum.

Ég skal ekki mótmæla því, að margt nytsamlegt hefur verið gert í fjárfestingarmálum. Það vil ég ekki gera. Þar tala mörg dæmi, að það eru margir nytsamir hlutir, sem gerðir hafa verið á undanförnum árum. Hins vegar hefur fjárfestingin að allt of miklu leyti einkennzt af verðbólgu. Menn byggja óhagkvæmara og dýrara vegna verðbólgunnar, og menn fjárfesta miklu meira en ella. Fjárfestingaræðið hefur leitt til gífurlegrar þenslu á vinnumarkaðinum og hefur áreiðanlega haft mjög mikla þýðingu í sambandi við þá auknu verðbólgu, sem hefur grafið um sig í landinu á undanförnum árum. Það þarf ekki að rökstyðja þetta nema með almennum orðum, því að það er öllum kunnugt, að þessi þensla á vinnumarkaðnum hefur verið svo mikil, að hún hefur spennt í raun og veru upp kostnað úr öllu hófi, eins og kunnugt er, þar til nú alveg á seinustu tímum, eftir að þróunin snerist við í þessum efnum sem ýmsum fleirum.

En hvað hefur ríkisvaldið gert til þess að ráða bót á fjárfestingaræðinu? Hvað hefur það gert? Hv. 12. þm. Reykv. gat um það í ræðu sinni hér áðan, að það hefðu hér áður fyrr verið leyfðar fjárfestingar, sem hefðu verið óæskilegar, og nefndi t. d. síldarverksmiðjuna á Skagaströnd. En þegar rætt er um síldarverksmiðjur, þá vil ég taka undir það, sem hv. frsm. minni hl. fjhn. minnti á hér áðan, að í tíð núv. ríkisstj. hafa verið byggðar margar síldarverksmiðjur, en tvær hafa stundum verið gerðar að umræðuefni. Það eru síldarverksmiðjan Rauðubjörg í Neskaupstað og síldarverksmiðja Fjarðarsíldar á Seyðisfirði. Nú háttar svo til, að í l. um síldarverksmiðjur er heimild til þess að banna byggingu síldarverksmiðja. Það þarf að fá leyfi til þess hjá ríkisstj. samkv. 1. gr. l., ef ég man rétt. Og það má enginn byggja síldarverksmiðju nema að fengnu leyfi. Það hefði verið auðvelt að neita um leyfi fyrir þessum síldarverksmiðjum, sem svo margir, a. m. k. af ráðandi aðilum, töldu óþarfar. En það var ekki gert vegna þess, að ríkisstj. hefur viljað leggja svo mikla áherzlu á stefnu sína um frelsið á sviði fjárfestingarmála sem annarra mála. En þessi dæmi sýna í raun og veru glögglega frelsið. Það getur verið vandmeðfarið oft og tíðum. Það er ekki nóg að heimta frelsi, vegna þess að frelsið getur leitt til ófrelsis. Það getur gert það, ef ekki er höfð aðgát. Ég geri ráð fyrir því, að það megi nefna dæmi í þessum efnum fram og til baka um síldarverksmiðjur og ýmislegt fleira, sem hefur verið byggt hér á landi bæði á haftatímum og frelsistímum. Það sannar í sjálfu sér ekki nema lítið. Það, sem er aðalatriðið að minni hyggju nú, er það, að frelsi í fjárfestingarmálum, óheft frelsi í fjárfestingarmálum á verðbólgutímum skapar vandræðaástand. Og ástandið í þessum efnum hjá okkur Íslendingum í dag er sannkallað vandræðaástand. Þar tala dæmin á alla vegu. Hér í höfuðborginni eru hundruð ófullgerðra íbúða. Eigendur þeirra margir hverjir hafa ekki hugmynd um, hvernig þeir eiga að ljúka þeim. Verzlunarhúsnæði er ófullgert í allstórum stíl. Sama er að segja um iðnaðarhúsnæði, og margt fleira mætti tína til. Það mætti minna á það í þessu sambandi, að hjá grannþjóðunum, eins og t. d. í Noregi og í Danmörku, þarf að fá leyfi, a. m. k. á vissum stöðum, til þess að byggja verzlunarhúsnæði eða iðnaðar- eða skrifstofuhúsnæði. Ég veit, að svo er það t. d. í Kaupmannahöfn, svo er það í Osló, Þrándheimi og stærri borgunum í Noregi, að það þarf leyfi til þessara hluta, til þess að slík þróun eins og hér hefur gerzt komi ekki til.

Þetta húsnæði, sem ég var að minna á og hefur verið byggt vegna þess, að menn telja öruggt, að því fé, sem sett er í fjárfestingu, sé vel varið og það muni skila sér síðar meir vegna verðbólgunnar, — þetta húsnæði, sumt af því a. m. k., eins og t. d. iðnaðarhúsnæði, — það er farið að ráðstafa því nú til ýmissa annarra hluta. Mér er sagt, að stórt iðnaðarhúsnæði hér í höfuðborginni eigi að gera að skautahöll t. d. Það er út af fyrir sig gott mál. En þarna er sýnilegt, að um vandræðaráðstafanir er að ræða, og ég hygg, að þessi málefni séu meiri vandræðamál en margan grunar enn þá.

Það fer ekki á milli mála, og það vildi ég leggja áherzlu á sem höfuðatriði, að ástandið í fjárfestingarmálunum er geigvænlegt. Það er ekki aðeins þetta, sem ég hef minnzt á um ónotaðar, hálfgerðar byggingar, heldur er það margt fleira. Hvernig er t. d. ástandið hjá þeim sjóðum, sem eiga að sjá atvinnulífinu fyrir fjárfestingarfé? Það er þannig, eins og kunnugt er, að það var upplýst seint á s. l. ári af Seðlabankanum, að það mundi skorta a. m. k. 450 millj. kr. í þessa sjóði, til þess að þeir gætu sinnt hlutverki sínu á þessu ári umfram venjulega tekjustofna.

Það er í raun og veru alveg sama, hvernig litið er á fjárfestingarmálin. Það ber flest að sama brunni, að þar hefur verið á hin mesta óstjórn, þó að ég vilji ítreka það, sem ég sagði hér áður, að það er margt nytsamlegt, sem hefur verið gert.

Það er ljóst af nál. meiri hl. fjhn., að meiri hl. viðurkennir í raun og veru það, sem ég hef verið að segja, þó að það sé gert með silkiorðum af tillitssemi til hæstv. ríkisstj. En það kemur í raun og veru fram viðurkenning í þessum efnum, og það mátti skilja það mjög ákveðið á hv. 12. þm. Reykv. hér áðan, að hann viðurkenndi, að það væri þörf úrbóta í þessum efnum, hreinlega viðurkenndi það og taldi, að sú hugsun, sem er að baki frv., sérstaklega með tilliti til fjárfestingarmálanna, væri rétt, og þess vegna má álykta af orðum hans, að það væri brýn þörf á því að breyta um stefnu í þessum málum. Ég hef ekki heyrt frá talsmönnum hæstv. ríkisstj. fyrr svona ótvíræða viðurkenningu í þessum efnum, þó að ég álíti, að hv. 12. þm. Reykv. hafi kannske haft einhverja sérstöðu í þessum efnum, þó að hann fari vel með það, sem eðlilegt er, með tilliti til þess, að hann er stuðningsmaður hæstv. ríkisstj. En þetta er í raun og veru mjög þýðingarmikið atriði, að það skuli koma fram slík viðurkenning eins og hér liggur fyrir, vegna þess að fjárfestingarmálin eru geysilega stór þáttur í þjóðarbúskapnum.

Hv. 12. þm. Reykv. upplýsti hér áðan, að 33% af þjóðarframleiðslu Íslendinga færu í fjárfestingu. Af þessu sést, hve geysilega stór þáttur fjárfestingarmálin eru í efnahagslífi þjóðarinnar, og þá einnig, hvað það er í raun og veru, — ég vil nú nefna það uppgjöf af talsmönnum ríkisstj. að viðurkenna það hér á hv. Alþ., að það sé þörf úrbóta í þessum efnum. Á þetta vildi ég leggja áherzlu og vekja athygli manna á þessari viðurkenningu.

Ég hef ekki trú á því, að till. frá meiri hl. fjhn. um að vísa þessu máli til ríkisstj. hafi í raun og veru mikla þýðingu. Ég er hræddur um, að á þá till. verði hlustað daufum eyrum í þeirri sveit. Það væri hins vegar miklu nær, ef hægt væri að ná samstarfi við alþm. um að bera fram frv. í þessu efni til þess að knýja hæstv. ríkisstj. til þess að breyta um stefnu í þessum málum. Það væri miklu líklegra til árangurs. Og það er margt fleira í þessu frv., sem ástæða væri til að gera að umræðuefni, en eins og ég sagði í upphafi máls míns, þá vildi ég sérstaklega gera fjárfestingarmálin að umræðuefni í ræðu minni.