12.05.1969
Neðri deild: 93. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 188 í C-deild Alþingistíðinda. (2461)

83. mál, greiðslufrestur á skuldum vegna heimila

Frsm. 2. minni hl. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Ég held, að það leiki enginn vafi á því, að þetta mál, sem hér er til umr., heyri undir þau mál, sem hæstv. félmrh. fjallar um. Mér hefði fundizt það út af fyrir sig eðlilegt, að hann væri viðstaddur þessar umr., og ég skil ekki, hvers vegna hann þarf að kvarta undan því, þó að vikið sé að honum orðum og beint til hans spurningum varðandi mál, sem beinlínis heyrir undir hans rn. Nú hafði ég hugsað mér að nota þetta tiltölulega sjaldgæfa tækifæri til þess einnig að beina spurningu til hæstv. ráðh., en hann hafði víst komið hér aðeins eftir pöntun og hefur nú aftur vikið af fundi. Eigi að síður ætla ég að segja það, sem ég hafði hugsað mér að segja, það eru ekki svo mörg orð, að það þurfi að tefja neitt umr. um þetta mál né heldur þingstörfin almennt.

Ég vil í fyrsta lagi segja það, að mér þótti vænt um að heyra yfirlýsingu hæstv. ráðh. um, að ríkisstj. hefði í hyggju að gera ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir, a. m. k. fresta, að gengið verði að íbúum Breiðholtshverfis. Þó að ég sé ekki Reykvíkingur, þá er ég þó hér vetrarlangt, og ég hef það mikil kynni af fjárhagsástæðum fólks hér í borginni, að ég er ekki í nokkrum vafa um það, að slíkar ráðstafanir eru hin brýnasta nauðsyn. En í þessu sambandi vefst það auðvitað upp fyrir manni, við þessar umr. um vandamál Breiðholtsíbúanna sérstaklega, að það hverfi er þó byggt upp með alveg sérstökum fjárhagslegum stuðningi stjórnarvalda. Og úr því að þar er nú þegar komið til stórvandræða fyrir íbúana, hvað er þá um aðra húsbyggjendur í landinu?

Það er hárrétt, sem hv. 6. þm. Reykv. vék hér að, að hæstv. ríkisstj. og hæstv. félmrh. í þessu tilfelli, hann er auðvitað ráðh. allrar þjóðarinnar og hlýtur einnig að huga að öðrum, sem í vandræðum eru í líkum kringumstæðum og þessir húsbyggjendur. Það er varla hugsanlegt, að fyrst svo er komið hinu græna tré, að þá sé allt í lagi með hið visna. Og nú vil ég spyrja hæstv. ráðh. um það, hvort ekki hefur einnig komið til tals hjá hæstv. ríkisstj. að gera hliðstæðar ráðstafanir vegna annarra húsbyggjenda, sem í þröng kunna að vera. Ég var að vona áðan, að einnig ég fengi tækifæri til að bera fram þessa fsp. til ráðherra í framhaldi af þeim stuttu umr., sem hér hafa farið fram um þetta mál. Það hefði vissulega verið mikilsvert að eiga von á því, að ríkisstj. gerði einnig ráðstafanir til stuðnings öðrum húsbyggjendum, sem í vanda væru staddir. Það má vera, þó að hæstv. ráðh. sé ekki viðstaddur hér nú, að einhver beri honum þessi orð mín og hann kannske sjái ástæðu til þess að skýra frá þessu á öðrum stað.