02.05.1969
Neðri deild: 87. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 247 í C-deild Alþingistíðinda. (2491)

166. mál, menntaskólar

Jónas Árnason:

Herra forseti. Þegar þetta frv. var lagt fram og hæstv. menntmrh. fylgdi því úr hlaði, lét ég í ljós vantrú á, að því væri ætlað að komast í gegn á þessu þingi, enda hafði og menntmrh. talað í þeim dúr í sjónvarpsviðtali þá nokkru áður. Ég leyfði mér að segja, að þetta væri ekki annað en skrautsýning, sem hæstv. menntmrh. hefði fengið að setja á svið fyrir sakir metnaðar síns, og fjárveitingavaldið mundi svo sjá til þess, að málið yrði svæft í viðkomandi nefnd, þ. e. a. s. menntmn., eins og annað ágætt stjórnarfrumvarp í fyrra, æskulýðsmálafrv., sem fulltrúar stjórnarflokkanna undir forustu formanns menntmn., hv. 5. þm. Vestf., fengust ekki til að samþ., vegna þess að það hafði í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð. Ég lét sem sagt í ljós ótta við, að menntaskólafrv. mundi alls ekki eiga afturkvæmt úr n. frekar en æskulýðsmálafrv. í fyrra.

Þeim mun meira ánægjuefni er það mér nú, að frv. skuli vera komið aftur úr n. og að n. skuli einróma mæla með samþykkt þess. Þar með er að vísu ekki sagt, að frv. nái samþykki á þessu þingi, og kann að vera, að þetta sé aðeins nýr þáttur í einni og sömu skrautsýningunni. En víst er, að um slík endalok yrði ekki við að sakast einstaka nm. og þá allra sízt hv. formann menntmn., sem mér er tjáð, að hafi unnið vel að framgangi málsins í n. og sýnt því mikinn áhuga. Fyrir þetta er mér skylt að þakka honum, og þá ekki sízt vegna þess, að ég gagnrýndi hann harðlega fyrir þá meðferð, sem hann beitti við æskulýðsmálafrv. í fyrra, þá svæfingu, sem hann veitti því í n. þá. Batnandi mönnum er bezt að lifa.

En af því að ég minnist nú á æskulýðsmálafrv., þá væri kannske ekki úr vegi að spyrja, hvað sé að frétta af því. Má ekki búast við því, að það — (Gripið fram í. — Forseti: Ekkert samtal.) Má ekki búast við, að það verði afgr. úr n.? Já, má ekki bara treysta því, að það verði afgr. úr n. og hljóti álíka ágæta afgreiðslu þar eins og menntaskólafrv. núna? Þessari fsp. vil ég sem sé beina til hv. formanns menntmn.