28.11.1968
Neðri deild: 20. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 364 í C-deild Alþingistíðinda. (2597)

78. mál, vernd barna og ungmenna

Flm. (Kristján Thorlacius):

Herra forseti. Frv. það, sem ég flyt á þskj. 98, lýtur að því að breyta reglunum um skipun barnaverndarráðs Íslands. Nú er barnaverndarráð skipað 5 mönnum, og velur ráðh. þá alla án tilnefningar. Meðan einungis þrír menn áttu sæti í barnaverndarráði, var einn tilnefndur af Sambandi ísl. barnakennara, annar af Prestafélagi Íslands, en ráðh. skipaði formann án tilnefningar. Eins og ég hef tekið fram í grg. frv., er það ekki flutt sem gagnrýni á störf þeirra manna, sem nú eiga sæti í barnaverndarráði, heldur til þess að styrkja starfsgrundvöll ráðsins með því, sem ég tel eðlilegra skipulag en nú er. Það er að mínu áliti heppilegt, að þau samtök, sem frv. gerir ráð fyrir, að tilnefni fulltrúa í barnaverndarráð, öðlist þannig ábyrga aðild að ráðinu. Gera má ráð fyrir, að Kvenfélagasamband Íslands tilnefni konu í ráðið, en engin kona á þar nú sæti. Læknafélag Íslands mundi væntanlega tilnefna lækni, Prestafélagið prest og Samband ísl. barnakennara kennara. Ráðh. mundi síðan skipa lögfræðing sem formann ráðsins. Með þessari skipan er stefnt að tvennu: Í fyrsta lagi, að a. m. k. ein kona verði skipuð í barnaverndarráð, en ég tel mjög óheppilegt, að engin kona skuli eiga aðild að því að fjalla í barnaverndarráði um vernd barna og ungmenna, jafnvandasöm og viðkvæm mál og þar er um að ræða og þar sem konur hafa að sjálfsögðu mikinn áhuga á þessum málum og öll skilyrði til þess að fjalla um þau af þekkingu og reynslu, og í öðru lagi tel ég mikilvægt, að þau félagssamtök, sem nefnd eru í frv., öðlist ábyrga aðild að störfum barnaverndarráðs með tilnefningu fulltrúa til starfa í því. Með tilnefningu þeirra aðila, sem frv. gerir ráð fyrir, tel ég fullvíst, að barnaverndarráð mundi jafnan verða skipað mjög vel hæfum mönnum, sem hefðu sjónarmið þýðingarmikilla samtaka á sviði uppeldis-, heilbrigðis- og menningarmála að leiðarljósi í starfi sínu. En ég er sammála því ákvæði, sem nú er í l. um skipan formanns barnaverndarráðs, að hann skuli vera lögfræðingur. Æskilegt tel ég, að fleiri tilnefningaraðilar en Kvenfélagasamband Íslands tilnefndu konur í barnaverndarráð, en ekki virðist mér ástæða til þess að binda það í l., og eru allir tilnefningaraðilar, einnig Kvenfélagasamband Íslands, frjálsir að því samkv. frv. að tilnefna, hvort sem þeir vilja, konur eða karla til setu í ráðinu.

Samkv. gildandi l. um barnaverndarráð á barnaverndarráð að ráða í þjónustu sína uppeldisfræðilega menntaðan mann. Barnaverndarráð er mjög þýðingarmikil stofnun að því er barnaverndarmál varðar, og geta ákvarðanir þess ráðið örlögum margra manna til góðs eða ills.

Með þessu frv. er leitazt við að treysta skipulagsgrundvöll barnaverndarráðs. Ég tel ástæðulaust að hafa um þetta frv. fleiri orð. Ég leyfi mér að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. menntmn.