09.05.1969
Neðri deild: 92. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 489 í C-deild Alþingistíðinda. (2747)

208. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Magnús Jónsson) :

Herra forseti. Hér er um mjög stórt mál að ræða, og er víðs fjarri, að ég ætli að fara að eyða tíma þingsins til að fara út í það í einstökum atriðum. Það væri allt of langt mál og þjónaði engum sérstökum tilgangi. En það eru þó örfáar aths., sem ég vildi koma að í sambandi við frv.

Í fyrsta lagi vil ég segja það, að ég fagna því mjög, að þessu máli er hér hreyft, þannig að hv. þm. gefist kostur á að íhuga þetta vandamál, sem hér er um að ræða. Málið er hins vegar í eðli sínu miklu flóknara en svo, enda kom hv. flm. inn á það, að hægt sé að gera ráð fyrir, að hægt sé að afgreiða það í því formi, sem það liggur fyrir, enda vakti hann athygli á því, ef ég skildi hann rétt, að hann væri hér fyrst og fremst að vekja athygli á mikilvægu vandamáli, sem vel gæti komið til greina að leysa með einhverjum öðrum hætti, en tilgangur hans væri sá að greiða fyrir því, eins og segir í grg., til að efla undirstöðu atvinnurekstrarins í landinu. Og það er vitanlega kjarni málsins. Hins vegar eru í sambandi við skattlagningu hlutafélaga, eins og við aðra skattlagningu, svo mörg tæknileg atriði og margt, sem þarf að hafa í huga og íhuga, áður en endanleg niðurstaða er tekin um form á slíkri skattlagningu, að það væri ekki mögulegt að samþykkja þetta nákvæmlega í því formi, sem það liggur fyrir. Ég mundi hins vegar telja, að það væri mikils virði, ef hv. n., sem fengi þetta mál til meðferðar, gæti með einhverjum hætti, t. d. í sambandi við vísun málsins til ríkisstj., látið koma fram afstöðu sína til þeirrar hugsunar, sem liggur að baki málsins. Og ég tel þetta mikils virði vegna þess, að eins og hv. flm. vék að, þá hef ég nýlega skipað n. til þess að rannsaka grundvallarþætti þessa vandamáls, sem hér er um að ræða, og það væri vissulega töluvert mikils virði að hafa um það einhverja hugmynd, hvernig afstaða þingsins sem slíks væri til þess vandamáls, þó að auðvitað væri ekki hægt að fara út í einstök atriði.

Ég skýrði frá því í fjárlagaræðu minni s. l. haust, að ég hefði farið þess á leit við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, að hann léti okkur í té tæknilega aðstoð sérfræðinga sinna til þess að meta skattalöggjöf á Íslandi, til þess að fá hlutlaust mat á því, hvernig hér væri búið að bæði einstaklingum með skatta og þá ekki hvað sízt atvinnurekstri, vegna margvíslegra fullyrðinga, sem maður heyrir alltaf sitt á hvað um það efni. Sá sérfræðingur, sem kannaði sérstaklega þetta mál, hefur nýlega sent mér grg. sína, og er hún í athugun. Það er mikið plagg. Er sannast sagna merkilegt, hvað þessir aðilar hafa komizt til botns í okkar dæmalaust flókna skattkerfi á tiltölulega skömmum tíma og geta gert sér grein fyrir þeim höfuðvandamálum, sem þar er við að fást. En áður en hafizt væri handa um framhald þeirrar athugunar, sem ég hef lengi talið nauðsynlegt að þyrfti að gera og er nokkuð í samræmi við það, sem er vakið máls á í þessu frv., þá er ljóst, að fram þyrfti að fara heildarkortlagning á þessu vandamáli.

Annar þáttur þessa sama máls var athugun á því, með hverjum hætti væri hægt að koma hér á kaupþingi. Það er ljóst, að til þess að gera mögulega hér myndun eigin fjár í félögum og gera mögulega hlutabréfasölu í nokkuð svipuðum mæli og tíðkast hjá öðrum þjóðum, sem þroskaðastar eru í þessum efnum, þá yrði að vera til kaupþing. Seðlabankinn fól tveimur kunnum sérfræðingum að rannsaka þetta vandamál. Það var einnig nauðsynlegt að fá niðurstöðu í því efni, áður en hægt væri að átta sig á, hvernig bæri að taka á framhaldi vandans.

Í þriðja lagi var svo það, sem hv. flm. vék að og óneitanlega er óumflýjanlegt að taka til alvarlegrar íhugunar, og það er hugsanleg aðild okkar að EFTA. Ef búið er þar lakar að íslenzkum atvinnurekstri heldur en atvinnurekstri annarra EFTA-landa, þá liggur í augum uppi, að samkeppnisaðstaða okkar er vonlaus eða vonlítil,. enda hefur því verið yfirlýst af hálfu þeirra aðila, sem í viðræðum hafa átt við samtök atvinnuveganna, að að sjálfsögðu yrði að skoða skattlagningu atvinnurekstrarins hér á Íslandi með hliðsjón af hugsanlegri inngöngu í EFTA, áður en það mál yrði endanlega til lykta leitt. Þetta allt er komið á það stig, að tímabært þótti að hreyfa þessu máli með því að setja í það n. manna. Hv. flm. sagði, að hann væri e. t. v. ekki alls kostar ánægður með skipun þeirrar n., það hefði verið æskilegra, að það hefðu verið fulltrúar þar frá atvinnulífinu, og ég geri ráð fyrir, að sumir segi, að hefði verið æskilegt, að þar væru einnig stjórnmálafulltrúar. En n. er skipuð með alveg ákveðnum ásetningi, og hún er hugsuð sem fyrst og fremst tæknileg sérfræðinganefnd til þess að kanna öll atriði þessa vandamáls og draga fram allar hliðar málsins, en ekki ætlunin sú, að endanlega verði hennar till. e. t. v. það, sem fram verður lagt, heldur verði úr þeim valið. Það er vel hugsanlegt, að slík n. bendi á mörg atriði, marga möguleika. Þess vegna var mikilvægt að fá alla færustu menn í skattamálum, sem við áttum, til þess einmitt að kortleggja fyrir okkur þetta vandamál. Og ég held, að hafi verið valdir í n. allir þeir menn, sem hér hafa mesta þekkingu í þessum efnum, og þó að þeir séu viðriðnir skattheimtu, held ég, að það sé ekki ástæða til að halda, að þeir séu svo miklir skattamenn, að þeir geti ekki hugsað sér einhverja breytingu á skattheimtu, jafnvel þó að það sé annað mál. sem ég vil taka fram, að við breytingar, hvort sem það er í sambandi við þetta atriði eða í sambandi við inngöngu okkar í EFTA eða hvað annað sem við gerum, þá auðvitað verður að sjá ríkissjóði fyrir nauðsynlegu fjármagni engu að síður. Það getur þá komið til greina aðeins, að það verði með breyttu formi.

Nú er það svo hér, að íslenzk hlutafélög búa við ýmis forréttindi, sem hlutafélög annarra landa búa ekki við, þannig að t. d. er hér leyfður frádráttur hjá hlutafélögum, sem þekkist ekki nema í örfáum löndum, þar sem þau fá að draga frá 10% af hagnaði sínum, áður en þau eru skatt lögð. Þetta þekkist ekki í neinum nálægum löndum. Það, sem aftur á móti er vandamálið hér á Íslandi, er það, að hér er sparifé skattfrjálst, og það veldur því, að þegar menn eiga um það að velja, hvort þeir leggja fé sitt í banka eða leggja það í hlutabréf, þá er þar mismunur á, að maðurinn, sem leggur féð í bankann, fær arðinn skattfrjálsan, en hinn fær sinn arð skattaðan. Og vitanlega má hugsa sér þá leið, að skattfrelsi sparifjár væri afnumið, í stað þess að veita hlutafélögunum þessi viðbótarréttindi að þessu marki. Um það skal ég ekkert segja, hvað rétt er eða rangt í því, en hér er vandinn sem sagt þessi mismunun, sem um er að ræða.

En hvað sem þessu öllu saman líður, og út í þá sálma skal ég ekki lengra fara, því að eins og ég sagði áðan, það er svo margþætt og flókið mál að það tæki allt of langan tíma, enda ekki ástæða til þess, — það er kjarni málsins, sem hér skiptir öllu, — þá er ég hv. flm. sammála um það, að við erum nú stödd á því stigi í okkar atvinnulífi, að það er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því, hvernig við eigum að undirbyggja eigið fjármagn í okkar atvinnurekstri. Það hafa verið allt of mikið lokuð augu manna fyrir því hér á Íslandi að það er eigin fjármagnið, það er áhættuféð, sem lagt er í atvinnureksturinn, sem hér skiptir höfuðmáli. Við höfum of mikið treyst á lán á lán ofan, að það væri lausnin á vandanum. En það er ekki lausnin. Og það er í engum löndum, sem eru komin langt með uppbyggingu síns atvinnurekstrar, talin lausn að leysa allt með lánsfé. Nú er hér komið fyrir Alþ. frv., mjög eftirtektarvert, sem byggist einmitt á því að stofna sérstakt fjárfestingarlánafélag. En það er alveg ljóst, að það verður lítið úr þeim hugmyndum nema því aðeins að það verði komið á þeim lagfæringum, sem bæði ég hef verið að minnast á og vaka fyrir hv. flm. þessa frv. Það er alger forsenda, að þær lagfæringar eigi sér stað, til þess að þessi hugmynd um fjárfestingarlánafélag í því formi, sem þar er talað um og geti orðið að veruleika.

Herra forseti. Ég skal ekki þreyta menn með lengra máli, heldur vildi ég aðeins segja þetta í tilefni þess, að þetta frv. kemur fram. Og þó að ég sé ekki reiðubúinn á þessu stigi til þess að lýsa yfir samþykki mínu nákvæmlega við þá aðferð, sem þarna er um að ræða, þá er ég hv. flm. algerlega sammála um þá hugsun, sem liggur að baki frv., og þann tilgang, sem því er ætlað að ná. Og ég held, að við hljótum að vera sammála um það nú, hafið yfir öll flokkamörk, að við þurfum með einhverjum skynsamlegum hætti að stuðla að því að draga fjármagn inn í atvinnurekstur í okkar landi með öllum þeim hætti, sem auðið er, þess vegna sé þetta tímabært mál og þess vegna, eins og ég áðan sagði, væri það mjög æskilegt frá mínum bæjardyrum séð, með hliðsjón af því, sem verið er að vinna í þessu máli, ef hv. n., sem fær það til meðferðar, gæti séð sér fært að afgreiða það jafnvel á þann hátt, eins og ég áðan sagði, að hún gæti fallizt á að afgreiða það til ríkisstj. með einhverri bendingu, svo að hægt væri að átta sig á því, hver hugur hv. þm væri í þessu máli, því að vitanlega verður aldrei neitt lagfært í þessu á einn veg eða annan, nema — því aðeins að hið háa Alþingi að lokum samþykki.