08.05.1969
Neðri deild: 90. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 520 í C-deild Alþingistíðinda. (2792)

240. mál, garðyrkjuskóli á Akureyri

Flm. (Ingvar Gíslason) :

Herra forseti. Við höfum, hv. 5. þm. Norðurl. e. og ég, leyft okkur að flytja frv. til l. um garðyrkjuskóla á Akureyri, en aðalefni frv. er það, að ráðh. skuli heimilt, „þegar, fé er til þess veitt á fjárl., að stofna á vegum ríkisins og reka að fullu á þess kostnað garðyrkjuskóla á Akureyri, svo sem nánar er fyrir mælt í lögum þessum.“

Ég vil geta þess í upphafi, að þó nokkuð lengi hefur verið uppi hreyfing á Norðurlandi um að endurreisa garðyrkjukennslu norðanlands. Sú var tíðin, að garðyrkjuskóli var rekinn á Norðurlandi, í gróðrarstöð Ræktunarfédags Norðurlands í mörg ár, eða frá því um aldamót og fram til 1940, en þá féll sú kennsla niður, enda tók þá til starfa nýr garðyrkjuskóli syðra, á Reykjum í Ölfusi, og þá var talið, að það væri ekki þörf á því að hafa fleiri garðyrkjuskóla. En nú hefur þessi hreyfing, eins og ég segi, aftur vaknað, að það væri nauðsynlegt að hafa nokkra garðyrkjukennslu á Akureyri, og þetta mál hefur lengi verið í athugun hjá áhugamönnum og ýmsum félagasamtökum norðanlands. Ég vil sérstaklega nefna í þessu sambandi Samband norðlenzkra kvenna, sem hefur tekið þetta mál alveg sérstaklega upp, og einnig Búnaðarsamband Eyjafjarðar, og bæjarstjórn Akureyrar hefur einnig sýnt þessu máli áhuga.

Fyrir nokkrum árum, líklega 1966 um vorið, var samþ. hér till. til þál. um könnun á þessu máli. Landbrh. skipaði þá n. þriggja manna til að athuga það, hvort grundvöllur væri fyrir slíkan skóla á Norðurlandi. Í þessari n. voru Jón Rögnvaldsson garðyrkjuráðunautur á Akureyri, mikill áhugamaður um garðyrkju, frú Dómhildur Jónsdóttir prestsfrú á Höskuldsstöðum á Skagaströnd og Ármann Dalmannsson, sem lengi hefur verið formaður Búnaðarsambands Eyfirðinga. Þessi n. þriggja manna og kvenna, sem um þetta fjölluðu, skilaði áliti til landbrh., líklega snemma árs 1967, og það náð. var hliðhollt þessu máli, þannig að þar var lagt til, að stofnaður yrði garðyrkjuskóli á Akureyri, og frv., sem hér er flutt, er í öllu, sem máli skiptir, byggt á hugmyndum þessarar nefndar.

Eins og fram kemur í 2. gr., er það landbrh., sem fer með málefni skólans, og þriggja manna skólanefnd, sem annast skólann. Ráðh. skipar þá n. samkv. sérstakri tilnefningu bæjarstjórnar Akureyrar, Búnaðarsambands Eyjafjarðar og Sambands norðlenzkra kvenna. Einnig er gert ráð fyrir því, og það er ákaflega mikilvægt atriði í þessu sambandi, að ríkið leggi fram til þessa skóla gamla gróðrarstöðvarhúsið á Akureyri og jafnframt nægilegt land til þess að hægt sé að starfrækja skólann. Um þetta hús er það að segja, að það er vandað og gott hús, byggt um aldamót, þegar gróðrarstöðin tók til starfa. Þetta hús er í furðugóðu gengi enn, þriggja hæða hús. Hins vegar er það lítið notað annað en að þar er íbúð og að vísu önnur starfsemi nokkur, sem Rannsóknastofnun landbúnaðarins hefur haft með höndum, og skilst mér, að Rannsóknastofnunin hafi umráð þessa húss, þó að ríkissjóður muni teljast eigandi þess. Það er hugmynd þeirra, sem gerst mega vita um þetta, áhugamanna um ræktunarmál á Norðurlandi, ekki sízt garðyrkju. og þ. á m. skógræktarmanna, að þeir telja, að það sé full ástæða til þess að fara að endurvekja þá starfsemi, sem var í gróðrarstöðinni í áratugi, og það eru áreiðanlega flestir norðanlands á því, að heppilegasta formið á því væri að halda garðyrkjuskóla í þeim anda, sem minnzt er á í þessu frv.

Frekar um skólann, eins og frv. gerir ráð fyrir, þá vil ég benda á 4. gr., en þar er gert ráð fyrir því, að skólinn starfi 8 mánuði á ári, frá 1. marz til 31. október ár hvert, þetta er samkv. till. n., og jafnframt skuli lögð megináherzla á hagnýta og verklega kennslu í útigarðrækt og skipulagningu og ræktun skrúðgarða og skjólbelta, auk leiðbeininga um notkun sérfræðibóka. En hins vegar, þó að þetta sé tekið upp sem meginstefna, er ráðh. ætlað að setja nánari reglur um starfsemi skólans, m. a. um inntökuskilyrði í skólann, um námsefni, kennslutilhögun, um próf og prófréttindi. Allt eru þetta mikilvæg atriði, sem okkur flm. þótti réttara, að ráðh. fjallaði um, en ekki yrði fastbundið í lögum. Það er m. a. spurning um inntökuskilyrðin og um tengsl þessa skóla, ei af yrði, við Garðyrkjuskólann í Hveragerði. Mér finnst eðlilegt að gera ráð fyrir því, að þessi skóli verði í nokkrum tengslum við þann skóla beint eða óbeint, t. d. þannig, að nemendur, sem koma til með að læra í skólanum á Akureyri, geti haldið áfram námi í Garðyrkjuskólanum í Hveragerði, ef þeim sýndist svo. Þá yrði náttúrlega að búa svo um hnútana með reglugerð, að þetta yrði kleift, og haga námi þannig.

Eins og menn vita er skrúðgarðyrkja sérstök iðngrein, og það er skoðun okkar flm. eftir að hafa rætt það við kunnuga menn, að þessi fyrirhugaði skóli á Akureyri geti orðið mikilvægur forskóli fyrir þá, sem hugsa sér að ná sveinsprófi í skrúðgarðarækt. Við teljum því, að það mætti vel hugsa sér, að þessi skóli gæti orðið liður í námi þeirra.

Ég hef ekki öllu fleira að segja um þetta, herra forseti, annað en það, að ég held, að engum þurfi að ægja mjög kostnaður, sem af þessum skóla yrði. Ég hef ekki trú á, að hann verði mjög mikill. Því miður get ég ekki lagt fram kostnaðaráætlun um rekstur skólans, en gert er ráð fyrir því, að aðeins verði starfandi einn fastur kennari við þennan skóla, og einhverja stundakennslu yrði að líkindum að kaupa. Þetta kostar auðvitað fé. Þá er gert ráð fyrir því, að gamla gróðrarstöðin verði lögð til skólans, og það er út fyrir sig fjárframlag, og ég efa ekki, að það þarf að dytta nokkuð að húsinu, til þess að það verði vistlegt sem kennsluhúsrými og jafnvel sem heimavist fyrir nemendur. En þó mun það svo, að hér er um hverfandi litlar fjárhæðir að ræða. Þó að ég ætli ekki að fastákveða neina tölu um það, get ég varla ímyndað mér, að þessi kostnaður verði mikið yfir hálfa millj. á ári, þannig að mönnum þarf ekki að ægja sá kostnaður, sem af þessu er. Um þörfina fyrir skólann efast ég ekki heldur — og við flm. Við teljum, að það sé mikil þörf fyrir þennan skóla. Hann getur orðið Akureyringum og Norðlendingum öllum til mikils gagns, ef rétt er á haldið og vel tekst til, og auk þess er verið að endurvekja gamalt starf, sem Norðlendingar og Akureyringar voru landskunnir fyrir í marga áratugi og margir njóta góðs af. Það má sjá m. a. á Akureyri áreiðanlega ávexti af starfi þessa skóla , og ég hygg, að þeir sjáist víðar á Norðurlandi og kannske víðar um landið, því að mjög margir af nemendum gamla garðyrkjuskólans á Akureyri fóru víða um land og urðu leiðbeinendur um skrúðgarðarækt í öllum landsfjórðungum.

Ég skal ekki hafa fleiri orð um þetta að sinni, herra forseti, en ég vænti þess, að málið fái hér, greiðan gang. Ég legg til, að því verði vísað til 2. umr. og til landbn.