13.05.1969
Neðri deild: 94. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 541 í C-deild Alþingistíðinda. (2818)

251. mál, Kvennaskólinn í Reykjavík

Frsm. minni hl. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Við höfum hér á síðari hluta þinghaldsins fjallað mjög gaumgæfilega um mikinn lagabálk um breyt. á l. um menntaskóla. Þetta er án efa mjög vel undirbúið mál, og í það var lögð mikil vinna af menntmn. Nd. Hún hefur haft sambönd við fjölmarga aðila, hún hefur samræmt sjónarmið, og ég tel, að hún hafi unnið þarna mjög gott verk. Þegar það mál var lagt fyrir hér, spurðist ég fyrir um það hjá hæstv. menntmrh., hvort ekki væri æskilegt og hvort ekki væri ætlunin, að menntaskólafrv. yrði afgreitt á þessu þingi, og ég hét honum að mínu leyti stuðningi við það að haga vinnubrögðum á þann hátt, að það væri hægt. Hæstv. ráðh, lýsti því þá yfir, að honum væri það fagnaðarefni, ef hægt væri að samþykkja þetta frv. Nú hef ég hins vegar spurnir af því, að hæstv. ríkisstj. hafi ákveðið að þetta frv. verði ekki látið ganga fram í Ed. Mér þætti mjög fróðlegt að heyra hjá hæstv. menntmrh. hvort þetta er rétt. Er það rétt, að hæstv. ríkisstj. hafi ákveðið, að það sé samkomulag milli stjórnarflokkanna, að menntaskólafrv. nái ekki fram að ganga? Ef svo er, verð ég að ætla, að fögur orð einstakra forustumanna hér um áhuga sinn á þessu máli hafi ekki verið ýkjaalvarleg. Við vitum það, að hæstv. ríkisstj. hefur full tök á því að láta mál, sem hún hefur áhuga á, komast í gegnum þd. á skemmri tíma en það hefur tekið menntaskólafrv. Og ef það verður ekki gert með menntaskólafrv. sjálft, þá verð ég að ætla, að þarna séu einhver annarleg öfl að verki.

Ég minnist á þetta í sambandi við frv. til l. um heimild handa Kvennaskólanum í Reykjavík til að brautskrá stúdenta vegna þess, að það frv. kom fram einmitt um sama leyti og ég hafði fregnir af þessum fyrirætlunum hæstv. ríkisstj. að stöðva menntaskólafrv. Og þetta fundust mér ákaflega einkennileg vinnubrögð, því að frv. til l. um heimild handa Kvennaskólanum í Reykjavík, sem n. fékk frá hæstv. menntmrh., hafði ekki að geyma neinn rökstuðning um það, að það væri skynsamlegt að veita Kvennaskólanum þessa heimild. Þá var slíks rökstuðnings mikil þörf, því að með menntaskólafrv. er verið að breyta öllu menntaskólakerfinu í landinu. Við erum að taka upp nýtt kerfi, og þegar tekið er upp þannig nýtt kerfi, þarf auðvitað að miða einstakar ákvarðanir í skólamálum við þá stefnu, sem verið er að taka upp. Það er ekkert vit í því að taka upp heildarstefnu, en fara síðan í ákvarðanir, sem beinast e. t. v. í þveröfuga átt. Þess vegna hefði mér fundizt, að það væri skylda hæstv. menntmrh. að gera grein fyrir því, um leið og hann lagði fram þetta frv. um Kvennaskólann, að með því væri verið að stuðla að þeirri gerbreytingu á menntaskólanámi, sem felst í aðalfrv. En þetta hefur sem sagt ekki verið gert, og n. fékk raunar ekki í hendur nein gögn frá hæstv. menntmrh. um þetta kvennaskólafrv.

Eins og kunnugt er, lá hugmyndin um að Kvennaskólinn fengi þessi réttindi, fyrir þeirri n., sem samdi sjálft menntaskólafrv. Og meiri hl. þeirrar n., allir skólastjórar menntaskólanna á Íslandi, rektor Háskólans og skólastjóri Kennaraskólans, þeir hafa allir lagzt gegn þessari hugmynd með röksemdum, sem ég hef prentað upp með nál. mínu, röksemdum í 6 liðum, mjög svo skýrum málefnalegum röksemdum. Ég tel, að það sé ekki nokkur leið að hafna þessum röksemdum jafnreyndra skólamanna án þess að bera fram jafngildar röksemdir á móti. En þær röksemdin hef ég ekki heyrt og allra sízt í ræðu hv. frsm. meiri hl. Hann gerði enga tilraun til þess að hrekja þessi málefnalegu rök reyndustu skólamanna á Íslandi.

Í staðinn kom hv. frsm. meiri hl. með röksemd, sem ég hef raunar heyrt áður, að vandræðaástandið í menntaskólamálum í Reykjavík væri slíkt, að það væri fagnaðarefni, ef hægt væri að leysa eitthvað úr þrengslunum annars staðar með því að opna skóla eins og Kvennaskólann, þar sem væri aðstaða til að taka upp slíka kennslu án þess að auka húsnæði. Hv. frsm. staðhæfði, að það mundi ekki þurfa að auka þar húsnæði næstu árin. Ég dreg mjög í efa, að þessi kenning sé rétt. Hver sem hefur sagt það, þá dreg ég mjög í efa, að þessi kenning sé rétt, og ég skal færa rök að þeirri staðhæfingu minni. Á hverju ári sækja margfalt fleiri um nám í Kvennaskólanum í Reykjavík en komast þar inn. Inn í skólann kemst ekki meira en þriðjungur og niður í fjórðung af þeim, sem sækja. Og þeir, sem komast inn í skólann, hafa þar ekki allt of góðan aðbúnað að því er húsnæði varðar. Í bréfi, sem Kvennaskólinn sendi hæstv. menntmrh. haustið 1967, er, komizt svo að orði um húsnæðismál Kvennaskólans, með leyfi hæstv. forseta:

„Skólahúsið við Fríkirkjuveg er eign Kvennaskólans ásamt lóð. Skólahús þetta var byggt 1909. Það er eðlilega fyrir löngu orðið alls ófullnægjandi fyrir starfsemi skólans. Í húsinu er timburloft. Sumar kennslustofurnar eru undir súð. Langt er frá, að þessi húsakynni fullnægi einföldustu skilyrðum til nútíma skólastarfs og heilbrigðishátta.“ Ég endurtek: „Langt er frá, að þessi húsakynni fullnægi einföldustu skilyrðum til nútíma skólastarfs og heilbrigðishátta.“

Þetta er dómur skólastjóra Kvennaskólans og formanns, skólanefndar í bréfi til hæstv. menntmrh. Þannig er ástandið í þessum skóla. Og samt er talað um það, að nú sé hægt að bæta þarna við nýjum bekkjum og ekki þurfi að auka þetta húsnæði í nokkur ár. Auðvitað er þetta hrein firra. Þetta er ekki hægt. Slík breyting á Kvennaskólanum mundi annað tveggja leiða til þess, að núverandi starfsemi skólans yrði takmörkuð til mikilla muna eða aðstæður yrðu þrengdar enn ofan á þessa ömurlegu lýsingu.

Þessi lýsing skólastjórans og formanns skólanefndar var rökstuðningur fyrir beiðni frá skólanum um fjárveitingu til að byggja viðbótarbyggingu á baklóð skólans. Sú viðbótarbygging átti haustið 1967 að kosta 16 millj. kr. Það var fyrir tvær gengislækkanir. Ætli hliðstæð upphæð væri ekki núna einar 30 millj.? En hvað hefur gerzt hér á hinu háa Alþ.? Hvað gerðist í fjvn.? Þessari beiðni Kvennaskólans hefur verið hafnað. Það er ekkert framlag til þessarar stækkunar á fjárl. Hvernig ætla þeir hv. alþm., sem hafa hafnað því að stækka Kvennaskólann, svo að hann gæti haldið uppi þeirri starfsemi, sem þar hefur verið, á myndarlegri hátt en gert hefur verið, — hvernig ætla þeir að fara að samþykkja að bæta þarna við menntadeild í óbreyttu húsnæði? Auðvitað er þetta hrein fjarstæða. Það er augljóst mál, að það er ekki hægt að taka upp menntadeild í Kvennaskólanum án þess að ráðast í þessa viðbyggingu og raunar án þess að endurnýja húsnæðið allt á mjög stuttum tíma. Þarna er ekki um að ræða þá aðstöðu til þess að auka menntaskólanám í Reykjavík án þess að hyggja, sem hv. frsm. meiri hl. vildi vera láta. Í svona ákvörðun hlyti að felast bygging á nýju húsnæði.

En svona hugmyndir eins og fram koma hjá hv. frsm. meiri hl. stafa af því, að reynt er að hraða málum svo mjög, að mönnum er ekki gefinn kostur á að kynna sér staðreyndir, og þá hættir þeim við að koma hér upp í ræðustól og fara með kenningar, sem alls ekki er hægt að styðja neinum rökum. Svona vinnubrögð eins og þessi, sem viðhöfð eru í sambandi við þetta mál, að leyfa n, ekki að fjalla um það nema í einn dag eða svo, er auðvitað hrein fjarstæða. En auk þessara atriða held ég, að það sé vert að íhuga dálítið, hvort þessi hugmynd er rétt í sjálfu sér, að hafa sérstakan menntaskóla eða menntaskóladeild, sem valið er í eftir kynferði. Sjálf hugmyndin með menntaskólafrv. er að gefa mönnum kost á að velja sér námsgreinar á menntaskólastiginu eftir hæfileikum og eftir áhuga, en sannarlega ekki eftir kynferði. (Forseti: Ég bið hv. þm. afsökunar, en áformað hafði verið að fresta fundi kl. 4. Ég vil spyrja hann, hvort hann geti lokið máli sínu á örstuttum tíma eða hvort hann óski að fresta ræðu sinni.) Já, ég ætlaði nú að hugleiða örlítið um þetta mál, ef — (Forseti: Óskar hv. þm. þá eftir að fresta ræðu sinni?) Já, ætli það verði ekki 10 mínútur eða svo? Ég skal fresta því. — [Fundarhlé.]

Herra forseti. Ég gerði áðan grein fyrir því, að sú kenning fengi ekki staðizt, að húsakynni Kvennaskólans væru slík, að þar væri hægt að auka húsrými fyrir menntaskólanema fram yfir þá aðstöðu, sem er núna í honum, — sú röksemd stæðist ekki. En ég hafði hug á því að ræða örlítið um sjálfa hugmyndina, hvort það væri rétt stefna að hafa sérstakan kvennaskóla, sem kenndi undir stúdentspróf. Ég benti á það, að í nýja menntaskólafrv. er ráð fyrir því gert, að nemendur eigi kost á því að velja á milli námsgreina í samræmi við hæfileika sína og áhugamál, en það ætti ekki að vera um að ræða val eftir kynferði. Hins vegar er hugmyndin um, að Kvennaskólinn fái réttindi til að útskrifa stúdenta, bundin við hina sérstöku stöðu kvenfólksins í þjóðfélagi okkar. Það kemur fram í grg. um menntaskólafrv. sjálft, — í grg., sem Jón Gíslason skólastjóri Verzlunarskólans og Birgir Thorlacius ráðuneytisstjóri sömdu og prentuð var í sjálfu menntaskólafrv., — þar er um það rætt m. a., að konur verði oft að hætta námi vegna giftingar og barneigna og til þess verði að taka tillit, þegar konur læra til stúdentsprófs, og í grg. Birgis Thorlaciusar er komizt svo að orði, með leyfi hæstv. forseta :

„Ef Kvennaskólinn í Reykjavík fengi réttindi til að brautskrá stúdenta, mundi námsefni hans, þegar fram liðu stundir, vafalaust verða þannig, að auk þess að veita þá menntun, sem krafizt er til inngöngu í háskóla hér og erlendis, yrði áherzla lögð á námsgreinar; sem sérstaklega væru við hæfi kvenna, enda má gera ráð fyrir, að í framtíðinni verði námsefni hinna ýmsu menntaskóla landsins meira sitt með hverju móti en nú er.“

Í þessu sambandi vil ég benda á það, að á undanförnum áratugum hafa orðið mjög stórfelldar breytingar á stöðu kvenna í þjóðfélaginu. Og þær breytingar munu alveg tvímælalaust halda áfram. Þróunin hlýtur að verða sú, að jafnrétti, raunverulegt jafnrétti karla og kvenna, hlýtur að halda áfram að aukast og að konur fái sömu aðstöðu til starfa á ýmsum sviðum eins og karlar, eftir því sem menntun þeirra og hæfileikar hrökkva til. Til þess að þetta megi verða, þurfa að sjálfsögðu að verða mjög umfangsmiklar skipulagsbreytingar á þjóðfélaginu. Þessar breytingar hafa verið að gerast á undanförnum áratugum, og ég er sannfærður um, að þær munu halda áfram að gerast. En við verðum þá einnig að miða skólakerfið við það að stuðla að þessum breytingum. Og við skulum gera okkur það alveg ljóst, að baráttan fyrir raunverulegu jafnrétti kvenna er mikið stórmál og sá árangur, sem náðst hefur á undanförnum áratugum, hrekkur engan veginn til. Hvernig er t. d. ástatt núna á hinu háa Alþ.? Í hópi 60 alþm. er aðeins ein kona. Sama blasir við víða í embættismannakerfinu, karlmenn eru alls staðar í fyrirrúmi, og þar sem konur og karlar starfa hlið við hlið, er ákaflega algengt, að konurnar hafi lægra kaup þrátt fyrir ákvæði launalaga. Það er gert með þeirri einföldu aðferð að setja á þær annað starfsheiti. Á þessu tel ég, að verði að verða breyting, og að breytingu á þessum vettvangi verður að vinna ötullega. En það verður aðeins gert með því að tryggja konum í verki jafnrétti á æ fleiri sviðum. Það þýðir ekki að vera að segja t. d. innan stjórnmálaflokkanna: Nú skulum við setja konu á framboðslista. — Konurnar verða að fá þá aðstöðu í þjóðfélaginu, að þær komist á eðlilegan hátt á framboðslista og inn á hið háa Alþingi.

Það er meira en lítið bogið við slíkt þjóðfélag, þar sem aðeins er ein kona í 60 þingmanna hópi. Því held ég, að það sé mikil fjarstæða að miða skóla eins og Kvennaskólann við það að mennta konur á þeim forsendum, að núverandi ástand haldist í þjóðfélaginu, að svo og svo mikill hluti þeirra kvenna, sem taka stúdentspróf, haldi ekki áfram og menntun þeirra nýtist þjóðfélaginu ekki. Svona verður þróunin ekki og svona má þróunin raunar ekki verða. Hitt þarf að gerast, að við reynum að skipuleggja þjóðfélagið á þann hátt, að konur geti notið hæfileika sinna og menntunar á hliðstæðan hátt og karlmenn. Af þessum ástæðum er ég algerlega andvígur þessari hugmynd sjálfri, að það sé stofnaður sérstakur menntaskóli handa konum, sem sé við það miðaður, að sú þjóðfélagslega mismunun, sem nú ríkir, haldist áfram. Og af þessum ástæðum er hugmyndin um að veita Kvennaskólanum þessi svokölluðu réttindi — hún er ekki stuðningur við réttindabaráttu kvenna, heldur þvert á móti. Þetta er íhaldssjónarmið. Þetta er sjónarmið, sem stuðlar að því, að kvenfólk nái ekki fullu jafnrétti í þjóðfélaginu.

Þessar hugleiðingar langaði mig til að flytja í sambandi við þetta mál. En áður en ég lýk máli mínu vildi ég beina enn einni fsp. til hæstv. menntmrh. Ég spurði hæstv. ráðh. að því áðan, hvort það væri ekki rétt, að hæstv. ríkisstj. hefði ákveðið að salta menntaskólafrv. sjálft. Í því sambandi vil ég spyrja hann: Hvað gerist með þetta frv. um Kvennaskólann í Reykjavík, ef sjálft menntaskólafrv. verður stöðvað? Er ætlunin, að þetta frv. verði samþ. engu að síður, eða er ætlunin að stöðva það e. t. v. í Ed. með sjálfu menntaskólafrv.? Mér þykir forvitnilegt að vita það t. d., hvort ætlunin er að stöðva þetta frv., vegna þess að það var rekið þessi ósköp á eftir okkur í menntmn. Nd. Hafi það verið gert á sama tíma og vitað var, að frv. yrði stöðvað í Ed., þá er hér um að ræða algera sýndarmennsku, fráleita sýndarmennsku af hálfu hæstv. ráðh., sýndarmennsku, sem honum er engan veginn sæmandi.