28.10.1968
Efri deild: 6. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 551 í C-deild Alþingistíðinda. (2828)

31. mál, ungmennahús

Auður Auðuns:

Herra forseti. Hv. 11. þm. Reykv. hefur í framsöguræðu rakið nokkuð þátt borgaryfirvalda í Reykjavík í því að leitast við að skapa ungu fólki í borginni holla aðstöðu til skemmtana og tómstundaiðkana. Og hann minntist nokkuð á það, sem síðast hefur gerzt í þeim málum, sem sé kaupin á Lídó og fyrirætlanir um að byggja í Tjarnargötu ungmenna- eða æskulýðsmiðstöð.

Ég vildi nú bæta því við, án þess að nokkuð sé farið frekar út í starfsemi Æskulýðsráðsins, sem er vitanlega margþætt og að ýmsu leyti í tengslum og samvinnu við samtök ungs fólks eða félög, að það hefur margoft komið fram og sjálfsagt að vinna að því að auka það sem mest, að skemmtanir æskufólks, bæði þess, sem er enn á skyldunámsaldri, og þess, sem er nokkuð yfir, fari fram sem mest í skólum borgarinnar. Ég segi það ekki til þess að draga neitt úr því, að eðlilegt sé, að það séu einnig aðrir staðir, sem komi til greina, því að það eru margir unglingar, sem þykir, — ja e. t. v. ekki nógu spennandi, ef ég mætti nota það orð, að sækja eingöngu skemmtanir í skólanum sínum. Þessi mál hefur oft borið á góma, eins og hv. 11. þm. Reykv. líka vék að, í borgarstjórninni. Mig langar til að minnast aðeins á fyrri tilraunir til þess að reka slíka samkomustaði fyrir unglinga, vegna þess að það, sem ég held, að valdi erfiðleikum núna í dag, er það að finna rétt form fyrir slíkar skemmtanir, sem ætlaðar eru fyrir unglinga eða ungmenni víðs vegar að úr bænum. Það er auðveldara að ákveða formið, ef þetta er takmarkað við skólahverfi og skemmtanir, sem fram fara í skólanum sjálfum. Það var hér á sínum tíma, það eru orðin nokkur ár síðan, að þeir, sem þá ráku veitingahúsið Lídó, sneru sér að því að gera það að samkomustað fyrir unglinga. Þetta áform þeirra sýndist manni vera mjög skynsamlegt og heppilegt og líklegt til þess að draga að unglinga borgarinnar, en niðurstaðan varð sú, að þessi starfsemi bara lognaðist alveg út af, og það var af mörgum talið, að aldursskilin hafi ekki verið heppileg, en ugglaust hefur þar fleira komið til.

Og þá vil ég víkja að þeirri aðstöðu til skemmtanahalds fyrir æskufólk, sem templarar hafa af myndarskap bent sér fyrir að koma upp og reyndar hlotið fyrirgreiðslu í því sambandi af hálfu Reykjavíkurborgar. Sú starfsemi hefur ekki dregið að ungt fólk, eins og vonir höfðu staðið til. Mér er það til efs, að það sé fjárskortur einn, sem þar veldur, heldur hitt, að það er ekki auðvelt að koma sér niður á það heppilegasta og mest aðlaðandi form fyrir skemmtanir ungs fólks, og það þarf sjálfsagt enn um sinn að þreifa fyrir sér í þeim efnum, áður heldur en menn finna það fyrirkomulag eða þá tilhögun, sem heppileg sé, og má reyndar búast við, að með breyttum tímum þurfi slíkt alltaf að vera til athugunar og endurskoðunar.

Þetta frv. fer að sjálfsögðu til sinnar nefndar og fær þar athugun, og ég geng út frá því, að sú athugun verði á þann veg, að frv. verði vísað til þeirra aðila, sem það aðallega snertir og á ég þar við borgaryfirvöld og Æskulýðsráð. Ég skal svo ekki hafa fleiri orð um það, en láta í ljós þá ósk, að hvort sem verður með byggingu slíks húss, sem lagt er til í þessu frv., eða á annan veg hægt að finna heppilega lausn á því, sem er verulegt vandamál í þéttbýli, eins og er orðið hér í Reykjavík, hvernig unglingar geti varið sínum tómstundum og fengið fullnægt sinni þörf fyrir skemmtanir, þá megi sem bezt takast, og það held ég að hafi sýnt sig, að það hefur ekki staðið á vilja borgaryfirvalda til þess, að svo mætti verða og verður ugglaust ekki heldur í framtíðinni.