04.03.1969
Efri deild: 54. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 582 í C-deild Alþingistíðinda. (2854)

126. mál, dragnótaveiði í fiskveiðilandhelgi Íslands

Pétur Benediktsson:

Herra forseti. Sú hv. þd., sem þér veitið forstöðu, hefur með réttu orð fyrir það meðal landsfólksins að vera fáorð og gagnorð um afgreiðslu mála. Ég álít, að hér við þessa umr, séum við að bregða út frá okkar venjulegu reglu. Hér er flutt frv., sem vissulega á rétt á sér, en við 1. umr. er farið að deila um þau atriði, sem eiga heima samkv. þingsköpum í nefndarmeðferð málsins. Að sjálfsögðu er það hv. d. og hv. Alþ. í heild, sem afgreiðir deilumálin, tekur ákvarðanirnar, en sá undirbúningur að málsmeðferð, sem hér er verið að hefja, álít ég, að eigi heima í n., en ekki við 1. umr. Þess vegna vil ég leggja til við mína kæru deildarbræður, að við styttum umr., vísum málinu til n. og skorum á hana að afgreiða það sem réttast og bezt.