26.02.1969
Sameinað þing: 33. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 113 í D-deild Alþingistíðinda. (2965)

20. mál, starfshættir Alþingis

Frsm. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Allshn. Sþ. hefur fjallað um till. þessa til þál. um starfshætti Alþ.

Á síðasta þingi og einnig því þingi, sem nú situr, hafa orðið nokkrar umr. um starfshætti Alþ., aðstöðu alþm., störf stjórnmálaflokka o.fl. af slíku tagi. Umr. þessar hafa aðallega spunnizt út af einstökum þáttum þessa máls, svo sem breytingum á kosningalögum og endurskoðun þingskapa. Till. þessi gerir ráð fyrir því, að um þetta efni verði fjallað á breiðari grundvelli, þ.e.a.s., að Alþ. álykti að fela þingforsetum ásamt einum fulltrúa frá hverjum þingflokki að íhuga og endurskoða starfshætti Alþ., en álit og till. um þetta efni skuli síðan leggja fyrir Alþ. Till. þessi er því víðtæk og frjálsleg og ekki einskorðuð við nokkurn ákveðinn afgreiðslufrest.

Það munu flestir á einu máli um það, að hér sé um mikilvægt mál að ræða, sem alþm. megi gjarnan gefa nokkurn gaum. Einn nm. var forfallaður, þegar málið var afgreitt í n., en að öðru leyti leggur allshn. einróma til, að till. verði samþykkt.