20.02.1969
Neðri deild: 50. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 295 í D-deild Alþingistíðinda. (3153)

29. mál, rannsóknarnefnd vegna kaupa á Sjálfstæðishúsinu

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð og gerist raunar ekki þörf, en ég vildi aðeins vekja athygli á nokkru, sem fram hefur komið frá því, að þetta mál var til fyrri umr. Það hefur nefnilega gerzt, að sú till., sem þá var rædd, hefur verið dregin til baka, en önnur till. flutt og fyrir henni mælt hér af hv. fyrri flm. fyrri till. Hv. alþm., sem lesa upphaflegu till. og brtt., sjá, að hér er um allt annað mál að ræða, og eitt er það, sem ég sé ástæðu til þess að þakka hv. síðasta ræðumanni fyrir. Það var, að hann skyldi hafa hreinskilni til þess að viðurkenna það, sem var náttúrlega erfitt fyrir hann að neita, að það megi finna dæmi, jafnvel mörg, um að lóðir hér í miðbænum hafi verið seldar á hærra verði, heldur en Sjálfstæðishúsið og sú lóð, sem því fylgdi. Þetta er ákaflega mikið atriði fyrir mig, að hv. flm. viðurkenndi þetta, og ég met hann í sjálfu sér nokkru meira fyrir það, vegna þess að um leið og hv. fyrri flm. till. viðurkennir þetta, þá fara menn að efast um, að það hafi raunverulega verið ástæða til að flytja þetta mál inn í Alþ.

Annað er það, sem ég vil vekja athygli á og hv. ræðumaður sagði hér áðan og ég skrifaði nokkurn veginn orðrétt niður eftir honum: Síðasta gengislækkun mun færa eigendum fasteigna og lóða í miðbænum millj. gróða. Það er einmitt þetta, sem ég er alveg sannfærður um, að eftir fáein ár mun verða viðurkennt, jafnvel af hv. 6. þm. Reykv., að Landssíminn hafi gert góð kaup árið 1968, þegar hann keypti Sjálfstæðishúsið og skapaði sér möguleika til þess að stækka gamla símahúsið og nota þá aðstöðu, sem tæknimenn Landssímans hafa lagt svo mikið upp úr, að fengist einmitt með því, að geta byggt við gamla húsið og sparað margar millj., eins og þeir segja, í jarðstrengjum og öðrum tækniútbúnaði við það að nýta þessa lóð og þurfa ekki að byggja annars staðar.

Ég skal taka undir það með hv. 6. þm. Reykv., að áður en menn taka ákvarðanir, þá ber að vega og meta, hvað sæmilegt er og það verður ráðh. að gera. Hann verður að gera sér grein fyrir því, hvað sæmilegt er og sannarlega væri ég illa staddur sem embættismaður, ef það yrði viðurkennt, að ég hefði átt hlut að því að snuða ríkisstofnunina Landssímann. En að ég fái ámæli fyrir það nú að hafa gert þannig viðskipti við Landssímann, sem hann óumdeilanlega hefur hagnazt af, sem fæst viðurkennt nú strax, en þó sérstaklega síðar, það held ég ekki, að verði mælt af mikilli festu ekki einu sinni af hv. 6. þm. Reykv., sem sagt, ég hef ekki ástæðu til þess að fara mörgum orðum um þetta. Ég talaði nokkuð við fyrri umr. málsins og þá voru lögð fram gögn í málinu. Hv. allshn. fékk þessi gögn til meðferðar og hefur leitað upplýsinga hjá póst– og símamálastjóra og ráðgjöfum hans og allt stefnir þetta að sama marki og hefur nægt til þess að sannfæra hv. 6. þm. Reykv. um það, að út af fyrir sig hafi þetta verið góð kaup fyrir Landssímann, miðað við þær sölur, sem hafa átt sér stað í miðbænum áður, en samt sem áður hafi það verið vítavert fyrir Sjálfstfl. að selja þessa eign. Það er vitanlega einungis vegna þess, að það er Sjálfstfl., sem átti þessa eign, að þetta mál var flutt inn í Alþ. Salan miðaðist að nokkru leyti við það, sem áður hafði gerzt og salan á Sjálfstæðishúsinu og lóðinni, sem því fylgdi, var miðuð við að vera lægri og hagstæðari, en aðrar sölur, sem hafa farið fram hér. Svo er auk þess sérstaða Landssímans að geta nýtt sér þá aðstöðu, sem þetta gefur honum. En um þessa nýju till., — þörfina á því að samþykkja hana og rannsaka, hvaða þátt lóðaverð í Reykjavík hefur átt í verðbólguþróuninni, — þá vil ég taka undir með hv. frsm. meiri hl. og þá skoðun, sem hann færði fram, að það er vegna þess, að verðbólgan var komin, að lóðirnar hafa hækkað, en ekki, að verðbólgan eða verðhækkunin hafi byrjað á lóðum og fasteignum hér í miðbænum. Það er vegna þess, að kr. hafði rýrnað á síðustu árum og áratugum, að fasteignirnar hækkuðu. Þess vegna er það rétt, sem hér hefur fram komið, að það er ekki ástæða til þess að skipa sérstaka rannsóknarn. til þess að rannsaka þetta atriði. Þetta virðist vera á algjörum misskilningi byggt og þess vegna er rétt, eins og hv. meiri hl. leggur til, að fella þessa till., enda þótt þar sé alveg um gjörbreytt mál að ræða frá því, sem áður var um rætt.