20.03.1969
Neðri deild: 67. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 549 í D-deild Alþingistíðinda. (3519)

167. mál, kalrannsóknir á Akureyri

Flm. (Jónas Jónsson):

Herra forseti. Till. sú til þál., sem er á þskj. 325 og ég hef ásamt meðflm. leyft mér að flytja, fjallar um eða felur í sér áskorun til ríkisstj. um að sjá til þess, að efldar verði kalrannsóknir við tilraunastöðina á Akureyri. Hér er ekki fyrst og fremst verið að fara fram á auknar fjárveitingar, heldur það, að þegar fjárhagur leyfir, þá láti Rannsóknastofnun landbúnaðarins, sem lögum samkvæmt á að fara með allar rannsóknir í þágu landbúnaðarins í landinu, búa þessum rannsóknum aðstöðu við þessa tilraunastöð, eina af fjórum jarðræktartilraunastöðvum sínum. Það er á Akureyri.

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um nauðsyn þess að auka rannsóknir á þessu mikla vandamáli, sem er tvímælalaust mesta vandamál, sem steðjar að íslenzkri grasrækt. Í grg. er rakið, sem mönnum er reyndar allt of vel kunnugt, hve geysilegu tjóni kalið veldur og þó að skýrslur yfir það séu ekki nákvæmar, þá er hægt að benda á mjög háar tölur. Sérstaklega er tjónið mjög tilfinnanlegt á ákveðnum svæðum og auðvitað verður heildin fyrir mjög miklu tjóni.

Í grg. er bent á, hvernig eðlilegt sé að haga þessum rannsóknum, hvernig má skipta þeim niður eftir eðli málsins, en ég sé ekki ástæðu til að rekja það hér. Þá er bent á, að eftir útbreiðslu kalsins, eins og það hefur verið þennan síðasta áratug, þá liggur þessi rannsóknastöð, þ.e. tilraunastöðin á Akureyri, því sem næst á miðju kalsvæðinu. Það er þess vegna mjög eðlilegt að álykta, að þarna væru þessar rannsóknir langbezt niður komnar. Þaðan yrði skemmst að fara og aðstaðan yrði auðveldust til að framkvæma rannsóknirnar. Það er bent á, að það þarf nokkra aðstöðu á tilraunastöð og sú aðstaða er að nokkru leyti til á Akureyri. Þar fara einnig fram aðrar rannsóknir á vegum annars aðila, þ.e. Rannsóknastofu Norðurlands, sem Ræktunarfélag Norðurlands rekur. Þarna er samvinna á milli, og þetta getur styrkt málið.

Þó að hér sé fyrst og fremst um skipulagsatriði að ræða, þá er það ekki ástæðulaust, að hér er flutt sérstök þáltill., vegna þess, sem ég vil nú benda á, að það eru miklar líkur til þess, að þó að nokkuð auknar fjárveitingar fáist til Rannsóknastofnunar landbúnaðarins, þá verði það ekki í svo auknum mæli í einu, nema sérstaklega sé ákveðið, að hún treysti sér að koma þessari aðstöðu upp á Akureyri. Annað styður þetta mjög, og ég vil mega, með leyfi hæstv. forseta, vitna í nokkrar ályktanir frá Búnaðarþingi. Það er fyrst frá s.l. Búnaðarþingi, Búnaðarþingi 1969, en þar segir svo í 3. gr. ályktunar, með leyfi forseta:

„Búnaðarþing ítrekar ályktanir sínar frá fyrri árum um, að tilraunastöðinni á Akureyri verði falið að annast aðalkalrannsóknir og fái hún til þess tæki og mannafla.“

Þá vil ég einnig, með leyfi hæstv. forseta, vitna til ályktunar Búnaðarþings frá 1968. Þar segir í ályktun um kalrannsóknir í 4. gr.:

„Líklegast til árangurs er, að einni af tilraunastöðvunum verði falið að annast aðalkalrannsóknir. Væntir þingið þess fastlega, að tilraunastöðinni á Akureyri verði gert kleift að stórauka þær og fá til þess tæki og mannafla.“

Þá vil ég einnig vitna til, með leyfi hæstv. forseta, að á aðalfundi Ræktunarfélags Norðurlands árið 1966 var samþ. svofelld ályktun:

„Aðalfundur Ræktunarfélags Norðurlands, haldinn á Akureyri 29. júní 1966, lítur svo á, að kal í túnum sé eitt alvarlegasta vandamál, sem að íslenzkum landbúnaði steðjar og reynsla undanfarinna ára hefur sýnt, að engin önnur áföll valdi meira og tíðara fjárhagstjóni. Fundurinn bendir á að rannsóknir á eðli kalsins og ástandi hljóti að verða svo umfangsmiklar og margþættar, að nauðsyn sé, að einn eða fleiri sérfræðingar geti helgað sig þeim eingöngu. Hann beinir því þeirri eindregnu áskorun til stjórnar Rannsóknastofnunar landbúnaðarins, að hún feli þessar rannsóknir nú þegar sérstökum sérfræðingi og verði hann staðsettur, þar sem aðstæður geti orðið beztar bæði með tilliti til rannsókna og tilrauna á kalsvæðinu sjálfu og vinnu á tilraunastofum. Fundurinn beinir þeirri áskorun til fjárveitingavaldsins, að það geri Rannsóknastofnun landbúnaðarins þetta fært, með því að auka fjármagn til hennar eða veita sérfjárveitingu til kalrannsókna.“

Nú vil ég geta þess, að nokkur sérfjárveiting til kalrannsókna hefur verið veitt á fjárl. að undanförnu, 75 þús., að ég held. Það hefur að vísu að nokkru leyti verið notað norður á Akureyri, en það hefur ekki verið meira en það, að aldrei hefur þótt hægt að ráða sérstakan sérfræðing til þessara rannsókna. Hins vegar er það kunnugt, að ungir menn sjá þörfina og þeir eru fleiri en einn, sem stunda nú nám með tilliti til þess að geta helgað sig þessu rannsóknarverkefni og vitað er um einn, sem á skammt eftir af framhaldsnámi og sennilegt er, að þegar þessir menn koma heim vel menntaðir, þá verði þeir ráðnir til þessarar stofnunar, en þá ríður mest á, að fjármagnið, sem til þessara rannsókna kann að vera veitt, nýtist sem bezt. Í grg. þykjumst við hafa sýnt fram á, að það geti á engan hátt betur nýtzt, en það verði stofnuð sérstök kalrannsóknarstöð eða kalrannsóknaraðstaða við tilraunastöðina á Akureyri.

Þá vil ég benda á, að það má líta á það sem nokkurt jafnvægisatriði og jafna aðstöðu að draga ekki alla starfsemi stofnunar, sem á að þjóna öllu landinu, eins og Rannsóknastofnun landbúnaðarins á að gera, að draga hana ekki alla saman á einn stað, en til þess eru sterkar tilhneigingar, einmitt ef ekki er hægt að gera stærri átök. Og það hefur sótt í það horf að undanförnu, að tilraunastöðvarnar, sem eru útibú Rannsóknastofnunar, þeirra hlutur hefur farið heldur rýrnandi og þær eru ekki jafnvel búnar að mannafla og áður var, en þarna yrði stigið nokkurt skref og ákveðið skref í þá átt að búa þær betur að mannafla. Og ég vil þá endurtaka, að þetta miðar fyrst og fremst að því að fá betri nýtingu á þeim fjármunum, sem kann að verða varið til þessara rannsókna og vonandi aukast þeir fjármunir í hlutfalli við hina brýnu þörf á þessum rannsóknum.