30.10.1968
Sameinað þing: 6. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 588 í D-deild Alþingistíðinda. (3569)

256. mál, landhelgissektir

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Ég tel, að hér sé um mun stærra og meira vandamál að ræða en svo, að því verði gerð nokkur skil í þeim stutta tíma, sem hér er til umráða fyrir þm. Ég vil þó aðeins nota mér þann rétt, sem þm. hafa í fsp.-tíma og aðeins koma inn á þetta mál.

Ég hygg, að það hljóti að hafa vakið nokkra eftirtekt, að því miður virða sjómenn þessi lög um bann gegn botnvörpuveiði mun minna en önnur lög. Ég hygg, að enginn muni halda því fram eða fyrir því séu nokkur rök, að sjómenn almennt séu ólöghlýðnari, en aðrir borgarar landsins, ef þessi lög eru frá skilin. Fyrir þessu hlýtur því að vera einhver ástæða.

Ef við skoðum málið, eins og það raunverulega liggur fyrir, er ljóst, að útgerð hér á landi verður vart stunduð með nokkrum árangri, hvorki fyrir sjómenn né útgerðarmenn, nema 3–4 mánuði yfir vetrartímann eða frá áramótum og til aprílmánaðar. Þá er spurningin: Hvað á að gera við flotann og hvaða atvinnu eiga sjómenn að stunda þá 8–9 mánuði, sem eftir eru af árinu? Ég tel mig það kunnugan þessum málum, að ég geti fullyrt, að á svæðunum a.m.k. frá Látrabjargi suður um að Eystra–Horni sé enginn grundvöllur á þessum tíma, — frá vori og fram að áramótum, — fyrir línuveiðar, netaveiðar eða handfæraveiðar. Spurning er því aðeins: Er um nokkrar aðrar veiðar að ræða, sem hægt er að stunda, þannig að þær gefi sjómönnum tekjur og útgerðarmönnum rekstrargrundvöll? Menn hafa freistazt til þess að nota atvinnutæki sín og sjómenn hafa freistazt til þess að skapa sér atvinnu við togveiðar, en skilyrði til togveiða, — það hefur sýnt sig bæði á þessum stað og annars staðar í landi, — eru ekki fyrir hendi nema rýmkað verði á þeim takmörkunum, sem lög um botnvörpuveiðar gera ráð fyrir. Því hefur á undanförnum allt að 10 árum verið hreyft á Alþ. eftir beiðni útgerðarmanna og sjómanna, að þessi lög yrðu tekin til endurskoðunar, en því miður hefur fram að þessu ekki náðst um það nein samstaða.

Hugsum okkur, að útgerð yrði á svæðinu hér á Suðurlandi allt frá Látrabjargi að Eystra–Horni lögð alveg niður. Það yrðu ekki einasta sjómenn, sem þetta kæmi ákaflega hart niður á. Það yrði ekki síður það fólk, sem byggir hin ýmsu sjávarpláss á þessu svæði. Það mundi koma harðast niður á því. Það yrði um hreinan atvinnusamdrátt að ræða og atvinnuleysi í flestum, ef ekki öllum sjávarþorpum landsins.

Ég tel, að þetta mál sé það alvarlegt, að hv. Alþ. verði nú þegar á yfirstandandi þingi að gera einhverjar ráðstafanir, annaðhvort hreinlega að banna þessar veiðar, — ganga eftir sektum og koma í veg fyrir, að lögin verði brotin, — eða þá, sem ég tel alveg sjálfsagt og eðlilegt, að lögin verði tekin til endurskoðunar og þau rýmkuð mjög. Ég tel ekki, hvorki vegna Alþ., ríkisvaldsins né sjómanna sjálfra, að það megi svo fram ganga, eins og verið hefur, að menn stundi þessar veiðar og brjóti lög meira og minna um land allt. Það er ekki einasta á þessu svæði, sem hér er um að ræða, á Suður— eða Suðvesturlandi. Þetta er orðið allt í kringum landið, að bátar eru teknir að ólöglegum veiðum. Við svo búið má ekki standa, hvorki Alþ., ríkisvalds eða sjómanna sjálfra vegna og Alþ. verður nú þegar og þegar á þessu þingi að gera alveg upp við sig, hvort eigi að halda þessum veiðum áfram eftir þeim lögum, sem nú eru í gildi, sem þýðir alveg hreinlega, að þessar veiðar verða lagðar niður. En þá verða forsvarsmenn þjóðarinnar að finna annan rekstrargrundvöll fyrir þennan bátaflota. Ef hv. fyrirspyrjandi eða einhver annar hv. þm. gæti bent á aðra leið til þess að skapa rekstrargrundvöll fyrir þann bátaflota, sem nú er til í landinu, hygg ég, að allir yrðu mjög þakklátir. Hvorki útgerðarmenn né sjómenn, sem eru þessum málum kunnugastir, hafa komið auga á annan rekstrargrundvöll en fara úr línu– og netaveiðum á vetrarvertíð yfir í mest megnis togveiðar að sumarlagi.

Það er mjög á það bent, að þetta skerði aðstöðu smærri báta. Ég efast ekki um, að það sé rétt, að það skerði að einhverju leyti aðstöðu hinna smærri báta, sem stunda sjó, bæði hér við Faxaflóa og víðar. En spurningin er: Verður atvinnulífi í sjávarþorpunum og verður þeim atvinnutækjum, sem þar eru þegar fyrir hendi, — verður þeim haldið gangandi með útgerð á trillubátum? Ég hygg, að það léti enginn sér detta í hug, að það væri fyrir hendi. Þess vegna verður að leysa þetta mál með mjög mikilli rýmkun á lögum um bann gegn botnvörpuveiði. Ég hygg, að það sé einasta leiðin til þess að komast út úr þessum vanda, sem hér er og þeirri aðstöðu, sem allir aðilar eru þarna í, Alþ., ríkisvald og sjómenn.