13.11.1968
Sameinað þing: 11. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 614 í D-deild Alþingistíðinda. (3615)

261. mál, Áburðarverksmiðjan

Fyrirspyrjandi (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Ég hef á þskj. 42 gert fsp. til ríkisstj. varðandi Áburðarverksmiðjuna og áburðarmál almennt. Svo er mál með vexti, að á síðasta þingi, nánar til tekið í aprílmánuði s.l., voru hér á Alþ. samþ. heimildarlög, sem heimiluðu ríkisstj. að festa kaup á þeim hlutabréfum í Áburðarverksmiðjunni h/f, sem eru í einkaeign eða voru þá. Þessi bréf fékk ríkisstj. heimild til að kaupa á allt að fimmföldu nafnverði. Að vísu fannst ýmsum og þar á meðal mér, að hér væri um að ræða nokkra ofrausn, en það er önnur saga. Forsaga málsins er reyndar sú, að Áburðarverksmiðja ríkisins kostaði á sinni tíð 120 millj. kr., sem lagðar voru út af ríkinu. Um rekstur þessarar verksmiðju var stofnað hlutafélag þar sem einkahluthafar lögðu fram 4 eða 5 millj. kr. að mig minnir, en ríkið lagði reyndar fram í það hlutafélag líka. Raunin hefur orðið sú, að einkaaðilar hafa að mestu ráðið ferðinni um áburðarframleiðslumál og áburðarsölumál. Þessi verksmiðja framleiðir hinn innlenda tilbúna áburð. Aðalframleiðsla hennar er Kjarni svonefndur, og hefur hann verið aðaláburðurinn, sem notaður hefur verið á íslenzka túnrækt og reyndar á meira af ræktarlöndum á s.l. árum. Árangurinn, sem af þessu hefur fengizt, þ.e.a.s. árangur sá, sem túnræktin íslenzka hefur skilað á þessum árum, er býsna athyglisverður. Verksmiðjan tók til starfa á árinu 1954 og þá var afrakstur af hverjum hektara á íslenzkum túnum að meðaltali 44 hestburðir. Fyrstu árin, sem verksmiðjan starfaði, fór áburðarnotkunin stórlega vaxandi og töðufengurinn einnig og komst á árinu 1957 hæst upp í 47 hestburði á hektara. En eftir það hefur sigið á ógæfuhlið og afraksturinn af túnunum hefur farið minnkandi, kannske ekki stöðugt ár frá ári, heldur með nokkrum sveiflum, en í heildina tekið hefur hann farið minnkandi. Er nú svo komið, að á sumrinu 1967 var meðaltöðufall á íslenzkum túnum 34 hestburðir á hektara. Ef miðað er við árið, sem Áburðarverksmiðjan tók til starfa 1954 og svo aftur árið 1967, — og sjálfsagt hefur töðufengurinn ekki verið meiri á þessu nýliðna sumri, þó að ég hafi ekki tölur um það, — hefur töðufall á hvern hektara á íslenzkum túnum minnkað um 10 hestburði. Og reyndar hefur hann minnkað um 13 hestburði á hektara frá því að hann var mestur árið 1957.

Hér kemur auðvitað ýmislegt til. Túnin eru að nokkru nytjuð öðruvísi nú, heldur en var fyrr á árum og kann það að draga nokkuð úr töðufengnum, en þá er líka óreiknaður sá áburðarauki, sem notaður er á túnin á hverja einingu, en það er verulegt magn.

Hvað kostar það nú íslenzkan landbúnað, ef það vantar þó við teljum ekki nema 10 hestburði upp á hvern hektara? Íslenzku túnin eru núna rösklega 100 þús. hektarar að stærð. Og ef það vantar 10 hestburði á hektara og hestburðinn er hægt að reikna á 400 kr., — hann var seldur það í haust, máske örlítið minna, máske líka örlítið meira, — ef við reiknum hann á 400 kr., þá er hér um að ræða 400 millj. kr., sem landbúnaðinn íslenzka vantar upp á að ná þeim arði, sem íslenzk tún gáfu á því ári, sem Áburðarverksmiðjan var sett á stofn. Það þarf furðulegt sinnuleysi til þess að láta sér ekki detta í hug, að hér sé eitthvert samband á milli töðufengs og þess áburðar, sem notaður er.

Það skal tekið fram, að um eitt skeið var til fyrirtæki, sem hét Áburðareinkasala ríkisins og lögin um hana gera ráð fyrir því, að ríkið geti haft hönd í bagga um það, hvaða áburður er fluttur til landsins. Þessi réttindi hefur núv. ríkisstj. framselt Áburðarverksmiðjunni h/f til framkvæmda, þannig að á hinum síðustu árum hefur það hreinlega verið svo, að Áburðarverksmiðjan h/f hefur stjórnað því, hvaða áburð menn gátu fengið. Mitt í því frjálsræði, sem tekið hefur verið upp um ýmiss konar aðra verzlun í landinu, hafa stjórnarvöldin hreinlega einokað bændastéttina upp á gamla mátann til þess að kaupa tiltekna vörutegund og varna henni þess að fá aðrar, fyrr en Kjarninn er uppseldur. Ef íslenzkur landbúnaður hefði 400 millj. kr. meira handa á milli ár hvert, eins og ástæða er til þess að ætla að hann hefði, ef ekki hefði komið til einokun sú á áburði, sem bændastéttin er beitt, þá væri íslenzkur landbúnaður allt öðruvísi settur í dag heldur en hann er.

Þetta er ekki eingöngu mál landbúnaðarins. Hér á Alþ. er stunið og dæst yfir því þessa dagana, að okkar þjóðarbúskapur standi illa, við séum orðin fátæk þjóð af gjaldeyri. Ætli þetta gæti ekki átt einhvern þátt í því? Til þess að bæta upp þessa afurðarýrnun af íslenzkum túnum hefur verið keyptur inn fóðurbætir fyrir fjallháar upphæðir í erlendum gjaldeyri og þannig hefur einmitt þetta orðið til þess að gera okkar gjaldeyrisstöðu verri, okkar þjóðarbúskap erfiðari. Með allt þetta í bakgrunni hef ég leyft mér að bera fram fyrirspurn í þrennu lagi, og er hún þannig:

„l. Hefur ríkisstj. notað heimildarlög frá því í apríl í fyrravetur til að kaupa hlutabréf einkaaðila í Áburðarverksmiðjunni h/f?

2. Ef svo er, hvert hefur kaupverðið verið:

a) í hlutfalli við nafnverð hlutabréfanna,

b) í krónum til hvers aðila um sig?

3. Hverjar ráðstafanir hafa verið gerðar til þess, að bændur eigi þess kost í framtíðinni að fá keyptan nýtari áburð en Kjarna á tún sín og önnur ræktarlönd eða að leysa þá úr einokunarviðjum þeim um áburðarkaup, sem ríkisvaldið og Áburðarverksmiðjan h/f hafa haldið þeim í á undanförnum árum?“