13.11.1968
Sameinað þing: 11. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 682 í D-deild Alþingistíðinda. (3683)

263. mál, öryggisráðstafanir vegna hafíshættu

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. gat um það í upphafi máls síns, að hér hefði verið lagt fram álit og till. hafísnefndar ásamt fskj. En þetta er mesti misskilningur. Það fylgja ekki með fskj. hafísnefndar. Hins vegar fylgir hér skýrsla Landhelgisgæzlunnar til hæstv. dómsmrh., Jóhanns Hafstein, en engin fskj. hafísnefndar.

Þetta þykir mér líka mikill galli á þessu plaggi, sem hér hefur verið útbýtt, vegna þess að sérstaklega eitt fskj. var mjög mikilvægt í þessu sambandi, en það er fskj. Páls Bergþórssonar veðurfræðings. Hafísnefnd fékk Pál til að athuga, hvort það væri líklegt, að hægt væri á haustin að segja fyrir með nokkurri vissu um hafíshættuna veturinn á eftir og þessi skýrsla Páls, sem hafísnefnd fékk, fylgdi náttúrlega með okkar grg. til hæstv. ríkisstj. Þar sem álit okkar er að vissu leyti eða í sumum tilfellum töluvert byggt einmitt á þessari könnun Páls, þá var það mikill skaði, að þessi grg. hans fylgdi ekki með og ég vil óska þess, að hún verði prentuð og henni dreift meðal þm.

Það er líka misskilningur hjá hæstv. forsrh., að það væri aðeins til þriggja mánaða, sem við legðum til með olíubirgðirnar. Á bls. 4 í okkar grg., — ég hef nú ekki athugað það í þessu nál., — er sagt, með leyfi forseta:

Till. n. miðast í meginatriðum við það, að séð sé fyrir því, að til séu a.m.k. þriggja mánaða birgðir olíu og kjarnfóðurs á svæðinu frá Vestfjörðum austur um land til Hornafjarðar á þeim stöðum, þar sem hættan á siglingateppu er samkvæmt reynslu mest, en á svæðinu frá Horni til Vopnafjarðar, væri þó rétt að hafa birgðir til 4–5 mánaða.“

Ég held, að það hafi verið alveg samdóma álit okkar, að það væri í sjálfu sér það allra minnsta. Það eiginlega þykir mér dálítið skrýtið, að olíufélögin skuli hafa sagt, að það væru 3–4 mánaða birgðir á höfnum norðanlands. Ég hef skýrslu hér fyrir framan mig, sem er byggð á skýrslum frá olíufélögunum um þessi atriði og þar kemur í Ijós, að á ýmsum höfnum norðanlands eru þetta alls ekki þrír mánuðir, heldur töluvert minna í sumum tilfellum eins og t.d. í Ólafsfirði. Þar eru það ekki nema rétt rúmir tveir mánuðir. Á Dalvík eru ekki tveir mánuðir, og ef Eyjafjarðarsvæðið er allt saman tekið, þá eru þar ekki einu sinni þrír mánuðir.

N. lagði áherzlu á, að það yrði reynt að koma upp einhvers konar birgðarými fyrir þennan vetur, ef það væri hægt og í þessari skýrslu kemur fram, að við höfum lagt til, að þar sem það er hægt, eins og t.d. á Hvammstanga, séu notaðir síldartankar til þessara hluta. Og við leggjum til, að það sé athugað með Eyjafjarðarsvæðið, hvort ekki sé hægt að nota tanka, sem eru á Hjalteyri og hafa ekki verið notaðir, en þurfa að vísu viðgerðar við, því að við miðum okkar till. við það, að kostnaður verði sem minnstur af þessu, en þó sé reynt að skapa þessum byggðum sem mest öryggi.

Í okkar till. leggjum við líka til, að það sé byggður tankur eða fluttur til Ólafsfjarðar, enn fremur á Húsavík og Kópaskeri. Kostnaðurinn við þessa geymabyggingu er að vísu dálítill, en hann er ekki umtalsverður, miðað við það öryggi, sem hann mundi skapa þessum byggðum. En ég hef kynnt mér þetta. Þessar tölur er að vísu fengnar fyrir síðustu endurreisn viðreisnarinnar og verður að skoða þær í því ljósi, en 100 teningsmetra tankur kostar t.d. ekki nema 220 þús., þ.e.a.s. fyrir utan löndunaræðar og afgreiðslutæki, 500 teningsmetra tankur tæp 800 þús. og 1.350 teningsmetra tankur um 1.4 millj. Ég vil undirstrika alveg sérstaklega í þessu sambandi, að það var álit n., að auka þyrfti birgðarými á öllu Norðurlandi ásamt Ísafirði. Við undirstrikuðum sérstaklega, að þetta þyrfti að gera. Ég vil, að það komi hér fram. Ég tel, að það sé ekki hugsað um fullt öryggi, ef það verður ekki gert fyrir þessar byggðir. Þessi tafla, sem ég var að lesa úr, –bara tímans vegna get ég það ekki meira en orðið er, — er miðuð við notkun á vetri, sem er ekki svo kaldur sem maður gæti ætlað, miðað við frostavetur. Hún yrði eflaust mikið meiri á ísavetri og það verður að lita á þessar tölur í því ljósi. Það hefur verið haft samband við mig og sjálfsagt flesta úr hafísnefnd úr þessum byggðarlögum og oddvitarnir leggja mjög mikla áherzlu á, að að þessu sé unnið.

Það hefur komið fram í áliti veðurfræðinganna og það veðurstofustjórans sjálfs í sjónvarpinu fyrir nokkrum kvöldum, að óvenjumikil ísmyndun muni vera fyrir norðan land, vegna þess að kuldar í októbermánuði á hafinu hér norður undan hafi verið óvenjumiklir, og þeir hafa verið það allt s.l. sumar að sögn þessara veðurfræðinga. Ég held, að þetta sé svo mikið alvörumál, að eitthvað verði sérstaklega að gera í sambandi við olíuna. Það má alls ekki reyna að snúa sér frá því að reyna að athuga í fyllstu alvöru, hvað er hægt að gera, jafnvel þó að tíminn sé hlaupinn. Ég held, að það væri a.m.k. hægt að athuga þessa lýsisgeyma á þeim stöðum, þar sem vöntun er mest, eins og t.d. á Eyjafjarðarsvæðinu og mér finnst ekki nein fásinna að láta sér detta í hug, að það væri enn hægt að koma upp tönkum, ef tíð yrði sæmileg, t.d. á Húsavík og á Kópaskeri, til þess að skapa þessum byggðum meira öryggi en nú er.

Það er mjög ánægjulegt að vita, að það verður eitthvað gert í þessu eða er raunar búið, eftir því sem kom fram hjá forsrh., í sambandi við það að fá olíu og jafnvel kjarnfóður. Ég vissi ekki, að von væri á því, að það yrði komið fyrir áramótin, en ég harma, að það skuli ekki vera farið eftir till. okkar um að setja einhvern sérstakan mann til þess að hafa yfirumsjón þessara mála, sem forráðamenn sveitarfélaga og bæjarfélaga á þessu svæði gætu snúið sér til, ef þeim finnst, að ekki sé fyllsta öryggis gætt í þessum málum. Ég vil vona, að sú ákvörðun ríkisstjórnarinnar verði tekin til endurskoðunar í þessu efni.

Það væri náttúrlega margt hægt að segja frekar um þessi mál, en því miður er það ekki hægt tímans vegna.