13.12.1968
Sameinað þing: 21. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 502 í B-deild Alþingistíðinda. (386)

1. mál, fjárlög 1969

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Fram hefur komið í sambandi við afgreiðslu fjárl. till. frá hv. 6. þm. Sunnl. um verulega aukna fjárveitingu til Vatnsveitu Vestmannaeyja. Þetta fyrirtæki, Vatnsveita Vestmannaeyja, hefur á undanförnum árum verið nokkuð á dagskrá við afgreiðslu fjárl., þar sem það á sínum tíma var tekið inn á fjárl. og þá reiknað með, að það yrði styrkhæft samkv. vatnsveitulögum. Hér er um stóra framkvæmd að ræða, a.m.k. á mælikvarða eins sveitarfélags, og ég mundi jafnvel segja á mælikvarða ríkisvaldins. Mér þykir því rétt að gera í stórum dráttum og stuttu máli grein fyrir framkvæmdum þessa fyrirtækis, en eins og flestum mun kunnugt, var málum þannig komið við afgreiðslu síðustu fjárl., að tiltekin vatnsuppspretta í landi Syðstu-Merkur undir Eyjafjöllum hafði verið virkjuð og 22 km 10 tommu leiðsla frá þeim stað og niður að fjöruborði á Landeyjarsandi austan Bakka hafði þá verið lögð og til þess að gera fullunnin. Á síðasta sumri var síðan neðansjávarleiðslan lögð frá Landeyjarsandi og út til Eyja, og tókst sú framkvæmd, að ég hygg, að allra dómi mjög vel. Nú tók aðeins um 6–8 klukkutíma að leggja leiðsluna, sem ég hygg, að hafi verið mikið skemmri tími heldur en menn almennt bjuggust við. Kostnaðarhlið þessa fyrirtækis horfir þannig við um miðjan nóvember s.l., þegar ég kynnti mér málið heima í héraði, að þá hafði verið greitt út — eða bókuð útgjöld vatnsveitunnar námu þá — samtals 76.7 millj. kr., og hafði þá verið tekið tillit til verðhækkunar vegna erlendra lána, sem á fyrirtækinu hvíla. Hin 22 km langa vatnsleiðsla frá uppsprettu og niður að sandi hafði þá kostað um 17.7 millj. Eytt hafði verið í dælustöð, sem er í byggingu niður við sjó, 6.5 millj. Leiðslan yfir sundið, neðansjávarleiðslan, kostaði lögð 35.6 millj. ísl. kr. miðað við það gengi, sem þá var, eða hið nýja gengi, sem þá var komið. Eytt hafði þá verið til bæjarkerfisins — og hef ég séð það í blöðum eftir bæjarstjóra, að búið hafði verið að leggja þá um 35 af bæjarkerfinu, um 16.7 millj. kr., þannig að bókfærð heildarútgjöld þessa fyrirtækis voru á þessum tíma; eins og ég sagði áður, 76.7 millj.

Þessum framkvæmdum hefur í öllum áætlunum verið skipt í tvo áfanga. Hinn fyrri áfangi er að sjálfsögðu leiðslan á landi ásamt dælustöð og ein leiðsla yfir sundið út í Eyjar með nauðsynlegum vatnsgeymabyggingum þar. Talið var í áætlunum, að síðari áfanganum þyrfti að ljúka á árinu 1970, en það var önnur leiðsla mun sverari yfir sundið milli lands og Eyja. Ég hafði satt að segja gert mér það í hugarlund, að síðari áfanginn gæti e.t.v. beðið nokkuð lengur, þannig að fyrirtækið gæti komizt á nokkuð fastan grundvöll fjárhagslega, því að með dælustöð og fullnýtingu leiðslunnar eins og þol hennar leyfir, þá mundi hún flytja út um 1600–1800 tonn af vatni á sólarhring, sem eru um 350 lítrar á mann á dag, og miðað við það, að vatn yrði selt eftir mæli þar, eins og þegar frá upphafi var ákveðið, þá stóð ég í þeirri meiningu, að seinka mætti e.t.v. síðari áfanga nokkurn tíma, eins og ég sagði, meðan fyrirtækið væri að komast á fjárhagslegan, eðlilegan grundvöll. En það hefur borið að, síðan þessar áætlanir voru gerðar, að alveg liggur ljóst fyrir nú, að síðari áfanga þessa verks verður ekki seinkað. Fiskframleiðendur í Vestmannaeyjum eins og aðrir hafa verið aðvaraðir um það, að í uppsiglingu séu í Bandaríkjum Norður-Ameríku mjög strangar kröfur um allt hreinlæti við framleiðslu á þeim matvörum, sem þangað verður leyfður innflutningur á. Þetta mundi að sjálfsögðu ná til alls fiskiðnaðar bæði hér á landi og annars staðar, og er því alveg fyrirsjáanlegt, að ef fiskvinnsla á að halda áfram í Vestmannaeyjum með eðlilegum hætti, verður að vera þar til umráða fyrir fiskvinnslustöðvarnar mun meira vatn heldur en nú er og heldur en unnt er að láta í té með aðeins einni vatnsleiðslu. Þetta gerir það að verkum, að sjáanlega verður frekar að hraða seinni áfanganum, aðalleiðslunni, síðari leiðslunni, yfir sundið heldur en hægt væri að seinka honum nokkuð.

Ég vil láta það koma fram hér, að ég tel, að óskum Vestmannaeyinga í sambandi við fjárframlög og aðra fyrirgreiðslu í sambandi við þetta fyrirtæki hafi nú með þeim till., sem fram eru komnar í sambandi við fjárlögin, verið vel mætt.

Í 6. gr. fjárl. er heimild til handa ríkisstj. um að gefa eftir eða endurgreiða aðstöðugjald og söluskatt af andvirði neðansjávarleiðslunnar, og vil ég mega vona, að þar komi einnig undir andvirði þeirrar dælustöðvar, sem er alveg nauðsynlegur þáttur og í beinu samhengi við neðansjávarleiðsluna. Þá hefur form. fjvn. getið þess í sinni framsöguræðu hér í dag, að heildarframlag til vatnsveitna hefði í meðferð fjárlaga verið hækkað um 2.5 millj. kr., og væri það gert með tilliti til aukinna útgjalda við vatnsveituframkvæmdir í Vestmannaeyjum. Ég tel, að hvort tveggja þetta eða með hvort tveggja þessu hafi verulega vel verið mætt óskum og tilmælum Vestmannaeyinga um fyrirgreiðslu í sambandi við þetta fyrirtæki.