09.04.1969
Sameinað þing: 39. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 852 í D-deild Alþingistíðinda. (3905)

279. mál, framkvæmd á lögum nr. 83/1967

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð út af ummælum hv. 1. þm. Norðurl. v. áðan. Hann er áhugamaður um það, að Tryggingastofnunin breyti reglum sínum um útborganir almannatrygginga og má vel vera, að það eigi rétt á sér að kanna það mál, a.m.k. í þéttbýlinu, en út um hinar dreifðu byggðir landsins hygg ég, að hans till. njóti sín ekki, eins og þær eru fram settar og útskýrðar. Ég held, að flestir umboðsmenn almannatrygginga úti um hinar dreifðu byggðir hafi tekið upp þá reglu á síðari árum og áratugum að fara um umdæmi sín með bæturnar í staðinn fyrir að láta hvern og einn sækja þær á skrifstofu embættisins. Þessar útborgunarferðir, sem svo eru nefndar, sem víða eru farnar, a.m.k. þar sem ég þekki til, fjórum sinnum á ári á þingstaði hreppanna, eru yfirleitt mjög vinsælar, fólkið fær þær bætur, sem það á rétt á, greiddar í peningum. Það er alveg rétt, að það er oft, sem það lætur aðra taka bæturnar fyrir sig, eins og t, d. hreppstjóra eða aðra umboðsmenn og þá er þess líka að geta, að frá sjónarmiði sýslumanna þurfa þeir að gera fleira en borga út peninga. Þeir þurfa líka að innheimta. Innheimtan þarf að vera í góðu lagi og það er æði oft, sem hægt er að jafna þarna greiðslum saman og þykir fara mjög vel á því. Þá er einnig hægt að gera jafnframt í þessum útborgunarferðum ýmislegt annað til hagræðis fyrir íbúa dreifbýlisins, þannig að ég hygg, að þeir séu ekki margir, sem taka undir þá till. hv. þm. að breyta þessu fyrirkomulagi til neinna muna, eins og það hefur tíðkazt nú á síðari árum, a.m.k. ekki úti í dreifbýlinu.