14.05.1969
Sameinað þing: 50. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 971 í D-deild Alþingistíðinda. (4037)

292. mál, fuglafriðun

Fyrirspyrjandi (Jón Árm. Héðinsson):

Herra forseti. Ég sá ástæðu til þess að setja þessa fsp. fram þó að sumum kunni að þykja hún koma einkennilega fyrir, þegar rn. er kunnugt um, að gildandi lög um fuglafriðun eru verulega brotin. Það hafa bæði komið fram í blöðum og útvarpi fréttir af því, að menn hafi stundað fuglaveiðar á móti lögum og það kom fram í viðtali fyrir um hálfum mánuði, að fréttamaður útvarpsins átti viðtal við mann, sem var að koma á hraðbáti úr Faxaflóa, en það er bannað að skjóta fugla úr hraðbátum, en þessi maður sagði frá miklu fugladrápi á slíkum fleytum. Nú mætti ætla, þegar svona fregnir koma í blöðum og útvarpi, að eitthvað væri gert í áttina að kynna sér, hve mikið væri um ólöglegar fuglaveiðar. Menn fara hér á gæsaveiðar á landi og því miður hefur það komið fyrir, að skotið sé í fuglabjörg á friðunartíma. Mér fannst þetta svo alvarlegt mál, að það væri full ástæða til þess að vekja athygli á því, að hér þarf að fylgjast betur með. Ég þarf ekki að hafa þessi orð fleiri, en ég vænti þess, að þetta verði til þess, að fuglafriðunarmenn, sem hafa samtök í landinu, rumski við þessum mönnum, sem stunda fuglaveiðar á ólöglegan hátt.