20.12.1968
Sameinað þing: 25. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 545 í B-deild Alþingistíðinda. (409)

1. mál, fjárlög 1969

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Það er alls ekki til að andmæla hv. þm., að ég kveð mér hljóðs aftur, heldur til þess að forðast það, að mín orð verði misskilin. Ég held, að okkur greini út af fyrir sig ekki á um efni málsins. Mér hefur aldrei hugkvæmzt, að það ætti að gera skortinn að skömmtunarstjóra, allra sízt á þann hátt að láta það ráðast, hvort það yrðu þá efnanemendur, sem geta haldið áfram námi, en hinir verði útilokaðir. Það er alls ekki það, sem fyrir mér vakti. Hitt tel ég, að sé óumflýjanlegt, að ef að þrengir í þjóðfélagi, þá þurfi eins að skoða þetta eins og annað. Hér er orðið um geysilegar fjárhæðir að ræða, og við vitum það nákvæmlega, að það er auðvitað fjöldi fólks erlendis við ýmiss konar nám, sem er þess eðlis, að það hefur sáralitla þýðingu, og er ákaflega auðvelt að nema slíkt hér heima. Hitt er alveg rétt, að það er auðvitað ekki hægt að stöðva fólk í miðju námi. Það er nákvæmlega rétt, svoleiðis að það var ekki það, sem ég átti við. En ég held, að það sé ekki ágreiningur um það, og ég hef rætt um það sjálfur við ýmsa forráðamenn þessara mála, sem við mig hafa talað, að það sé full ástæða til þess að endurskoða þessa námssókn til útlanda. Mér er sagt, að um 30% af framhaldsnemendum séu í útlöndum. Og ég held, að það sé ekkert efamál, að það sé óhófleg tala. Og það má þess vegna alveg eins hugsa sér á þessu sviði eins og öðrum, að það sé rétt að athuga, hvort þetta sé nauðsynlegt eða ekki. Og ég fullyrði það hiklaust og þekki það sjálfur, að það eru ýmsir, sem hafa fengið námslán og námsstyrki til náms erlendis, sem er gersamlega ástæðulaust að veita. Og ég er hv. þm. algerlega sammála um, að þetta þarf allt saman að gerast af mikilli fyrirhyggju og aðgætni, og þess vegna eins og ég áðan sagði má það ekki ske, að fólk verði núna í miðju kafi að hætta sínu námi, og þess vegna þarf að sjá fyrir þessu fé, sem við gerum hér ráð fyrir að afla, en á þessu stigi er ekki hægt að slá því föstu varðandi framtíðina, og ég tel ekki rétt að slá því föstu, að menn geti reiknað með, að það verði séð fyrir fullnægjandi námslánum og námsstyrkjum til allra, sem hugsa sér að fara til útlanda á næstunni, eins og má segja, að hafi verið í töluvert ríkum mæli til þessa. Þetta var það eina, sem ég átti við, en ekki að það sé held ég neinn ágreiningur milli okkar efnislega um, að það þurfi að taka því með mikilli varúð. (MK: Hæstv. ráðh. á þá við nýja nemendur?) Já, fyrst og fremst við nýja nemendur. En reynslan hefur hins vegar bent til þess, að það þurfi að taka þetta með vissum tökum, og án þess að ég sé að vitna í neina ákveðna aðila í þessu, þá veit ég, að fólk, sem þekkir þetta vel og hefur verið við nám sjálft erlendis, gerir sér fulla grein fyrir því, að þarna má með skaðlausu eitthvað draga saman seglin, án þess að það hafi nein slæm áhrif fyrir þjóðfélagið.