03.03.1969
Neðri deild: 28. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 690 í B-deild Alþingistíðinda. (640)

11. mál, Listasafn Íslands

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Menntmn. hefur gert allýtarlega grein fyrir ástandi Listasafnsins eða húsakynnum þess í nál., og hv. frsm. n. hefur undirstrikað þá lýsingu, svo og hv. 6. þm. Reykv. Ég þarf því ekki að bæta neinu við þeirra mál. En hér er um svo alvarlegt mál að ræða og svo mikla hættu, sem getur verið yfirvofandi, að ég vil beina því til hæstv. menntmrh., að hann láti athuga án tafar, hvort ekki sé full ástæða til að flytja listaverkin þegar í stað burt úr þessum húsakynnum til þess að aftra því, að annað slys verði líkt og varð á s.l. ári. Hann hefur sagt í ræðu sinni hér áðan, og ég efast ekki um, alveg réttilega, að það muni kosta um 5 millj. að gera þetta hús þannig úr garði, að það sé tryggt, að þarna eigi sér ekki stað skemmdir, en það verður ekki gert á fáum dögum eða fáum vikum. Og hvað getur komið fyrir þessi listaverk þangað til þetta hús er orðið nothæft? Þarna er um verðmæti að ræða, sem aldrei verða metin til fjár, og ég vil því undirstrika þessa ábendingu mína til hæstv. ráðh., hvort ekki sé ástæða til að flytja listaverkin burt nú þegar í örugga geymslu, þar sem þau geta ekki skemmzt, því að við vitum ekki, hvað kann að koma fyrir aftur. Ég efast ekki um vilja hans til þess að bæta úr því, sem hægt er að bæta, og það standa allir einhuga að því, sem að þessu máli koma, að reyna að bæta úr þessu ástandi. En við verðum að byrja á því að fyrirbyggja slys, meiri slys en orðið hefur.