17.12.1968
Neðri deild: 31. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 800 í B-deild Alþingistíðinda. (759)

3. mál, læknaskipunarlög

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Við höfum fjórir þm. leyft okkur að flytja brtt. við frv. á þskj. 189. Það hefur að vísu orðið prentvilla á þskj., ég vil segja heldur óvenjuleg prentvilla. Það stendur, að einn flm. sé Skúli Guðmundsson, en það á að vera Gísli Guðmundsson.

Hins vegar skilst mér, að þetta breyti ekki miklu, því að hv. 1. þm. Norðurl. v. hefur tjáð mér, að hann vilji helzt ekki láta strika sig út af þessari brtt., þó að hann sé þangað kominn með þessum hætti, vilji nú vera flm. líka. En þá verða þeir að vera báðir.

Efnið í okkar brtt. er það, fyrstu till., að 1. mgr. 1. gr. frv. falli niður. Þessi 1. mgr. frv. fjallar um það, að ráðh. sé heimilt að tillögu landlæknis að breyta skipan læknishéraða samkv. 1. gr. þessara laga og sameina í eitt læknishérað tvö eða fleiri nágrannahéruð o.s.frv. Við erum þeirrar skoðunar, sem flytjum þessa brtt., að það sé engin nauðsyn á því að afnema hin fyrri læknishéruð, þó að komið sé á læknamiðstöðvum. Við erum fylgjandi því, sem er nú aðalefni frv., að koma upp læknamiðstöðvum. Við teljum, að það sé sjálfsögð eða réttmæt tilraun til úrbóta, og viljum styðja það. En við viljum ekki styðja hitt, að það séu afnumin gömlu læknishéruðin um leið, og sjáum ekki neina nauðsyn á, að það sé gert. Tilgangurinn með þessu frv. er auðvitað sá að reyna að bæta úr þeim læknaskorti, sem þjakar mörg héruð þessa lands eins og sakir standa og hefur reyndar gert æðilengi. Þessi tilraun er að vísu ekki alveg ný með þessu frv. Þetta hefur verið reynt, að koma á slíkum miðstöðvum lækna á nokkrum stöðum. En sannast að segja, að þótt við og flestir séum þeirrar skoðunar, að það eigi að halda áfram á þessari braut, hefur þetta gefizt misjafnlega, eftir því sem landlæknir tjáði mér síðast í gær. Þetta hefur verið reynt t.d. á Patreksfirði, þar hefur verið sett upp læknamiðstöð með tveimur læknum og sameinuð héruð þar. En þetta hefur ekki gefizt vel, það hefur ekki náð þeim árangri, sem til var ætlazt. Þó að tveir nýir læknar fengjust þarna í byrjun, fór annar eftir árið, og ástandið þar vestra varð ekkert betra þrátt fyrir tilraunina, Þá hefur landlæknir tjáð mér, að í Vestmannaeyjum hafi þetta ekki heldur náð þeim árangri, sem til var ætlazt. Þó að þessi stutta og litla reynsla sé á þennan veg, breytir það ekki þeirri skoðun okkar, sem flytjum þessa brtt., að það beri að halda þessu áfram og auka það. En hitt atriðið, að það sé forsenda þess, að það þurfi að leggja niður gömlu læknishéruðin, tel ég að sé á misskilningi byggt. Það er enginn vandi að setja upp læknamiðstöð, þó að hin eldri héruð haldi sér í lögum. Ég skal taka dæmi t.d. af Ísafirði. Það hefur komið til mála, að þar yrði leitazt við að koma á læknamiðstöð. Þar eru fjögur læknishéruð læknislaus eða eru að verða það núna fyrir jólin, eftir því sem ég veit bezt. Það eru Þingeyrarlæknishérað, Flateyrarlæknishérað, Suðureyrarlæknishérað og Súðavíkurlæknishérað, öll læknislaus. Það sýnist því ekki nema eðlilegt, að menn hugsi til þess að koma upp læknamiðstöð á Ísafirði til þess m.a. að þjóna þessum læknishéruðum. Og það eru meira að segja ráðagerðir uppi um það að fá þangað þrjá lækna til að þjóna þessum héruðum, sem lögum samkvæmt á að þjóna með 5 læknum. En ef þessi læknishéruð fjögur verða svo lögð niður um leið, þá þýðir það það, að þótt einhver læknir vildi fara í einhver hinna gömlu héraða, sem vel getur komið fyrir, væri það ekki hægt, þá er búið að leggja héraðið niður. Það er verið að útiloka möguleikana á því, að læknar komi í hin gömlu héruð, þó að þeir jafnvel vildu, með því að leggja þau niður. Það teljum við alveg fráleitt.

Það eru fleiri en landlæknir og stjórnaryfirvöld, sem vinna að því að reyna að fá lækna í hin læknislausu héruð. Það gera líka heimamenn, þeir beita sér að þessu sama, svo sem skiljanlegt er. Ég var nýlega staddur vestur á Suðureyri. Þar er læknislaust, eins og ég sagði. Þar tjáði hreppstjórinn mér, að hann væri að beita sér fyrir því að fá lækni og gerði sér jafnvel vonir um, að það bæri árangur. En hugsum okkur þá, að læknishéraðið væri lagt niður í millitíðinni. Er nokkur ástæða til þess? Því að betur væru nú Súgfirðingar komnir með því að hafa lækni heima hjá sér en að eiga að sækja til læknis, þó að á læknamiðstöð væri, á Ísafirði. Þarna hagar þannig til, að það er vond heiði, sem þarf að fara yfir, sem er venjulega lokuð af snjó alla vetur, og ekki langt síðan hafís byrgði fjarðarmynnið. Þá eru flestar bjargir bannaðar þessu fólki til að ná til læknis, þar sem enginn flugvöllur er til þar heldur. Það er því eðlilegt, að þetta fólk beiti sér af alefli fyrir því að reyna að fá lækni. En m.a. af þessari ástæðu vil ég benda á það, hvað það er fráleitt að leggja niður læknishéruðin og engin þörf á því. Alveg svipaða sögu má segja um Flateyrarlæknishérað í Önundarfirði, þar er læknislaust. Ef þaðan á að sækja lækni til Ísafjarðar, er yfir hina illræmdu Breiðadalsheiði að fara, sem lokast, að ég ætla, fyrst allra heiða á Íslandi. Ef menn hafa nú möguleika á að fá lækni, á þá að útiloka það með því að leggja niður læknishéraðið? Sama gildir um Þingeyrarhérað, því að Dýrfirðingar þurfa yfir sömu heiðina að fara og aðra heiði í viðbót, Gemlufallsheiði. Eina héraðið að mínum dómi, sem ekkert þyrfti að kvarta undan því sérstaklega að þurfa að sætta sig við læknamiðstöð á Ísafirði, væri Súðavíkurlæknishérað, því að þar er ekki yfir neitt fjall að fara og tiltölulega auðveldar samgöngur á milli Súðavíkur og Ísafjarðar. Það er þetta, sem ég vil sérstaklega leggja áherzlu á, að það sé ekki tekin nein ákvörðun um það með þessu frv. að leggja niður héruð, hins vegar sé áherzla á það lögð að koma upp læknamiðstöðvum, þar sem það er talið hyggilegt að dómi landlæknis, eins og segir í þessu frv. Breyting okkar er því aðeins þessi að fella niður ákvæðin um niðurlagningu læknishéraða, en hins vegar halda því ákvæði, sem er í frv., að ráðherra skuli heimilt, eftir tillögu landlæknis, að stofnsetja læknamiðstöðvar, enda starfi þar tveir eða fleiri læknar, eins og segir í okkar brtt.

Þriðja till. okkar er mjög lítilvæg. Hún er aðeins um að fella úr tvö orð í frv., síðustu mgr. fyrri gr., þar sem stendur: „Nú er talið óhjákvæmilegt, að haldið sé uppi föstum viðtalstíma læknis í þéttbýliskjarna utan læknamiðstöðvar,“ o.s.frv. Við leggjum til, að felld séu niður þessi orð „í þéttbýliskjarna.“ Það er gersamlega óþarft og merkingarlaust. Það skiptir engu máli, hvort það er í þéttbýliskjarna svo kölluðum eða annars staðar, sem fastur viðtalstími læknis er ákveðinn, svo að það er því rétt að fella þetta niður.

Ég vona, að hv. alþm. skilji það, að fyrir okkur, flm. þessara brtt., vakir ekkert annað en það að koma í veg fyrir, að læknishéruð séu lögð niður að óþörfu, koma í veg fyrir, að lokað verði fyrir þá möguleika, sem kunna að skapast til þess að fá lækna í hin gömlu héruð. Við vitum aldrei, hvenær kann að skipast svo, að læknar verði fáanlegir. Og þó að hérað hafi verið læknislaust um tíma, hálft ár, eitt ár eða tvö ár, geta auðveldlega skapazt möguleikar til þess, að læknar fáist fyrir það, og þá má það ekki eiga sér stað, að búið sé að leggja niður læknishéraðið, þegar læknir kynni svo að fást.