10.03.1969
Neðri deild: 62. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 837 í B-deild Alþingistíðinda. (881)

128. mál, fiskveiðar í landhelgi

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég vil gjarnan lýsa því yfir, að ég er alveg sammála hv. 4. þm. Austf. um að í þessum undanþáguatriðum á að fara mjög varlega, og ég get fullvissað hann um það, að það mun verða gert, þann tíma sem ég gegni þessum störfum. Enda má segja, að sú litla reynsla, sem fékkst á árunum 1966 og fram í ársbyrjun 1967, á þessu efni, þegar þessi heimild, tímabundna heimild, var í lögum, hún gefi ekki tilefni til þess að halda, að þarna opnist neinar flóðgáttir. Það munu hafa verið nokkrar verksmiðjur við Eyjafjörð, sem nutu þess að fá nokkra síldarfarma, aðallega úr færeyskum skipum. En sáralitlu öðru hefur verið leyft að landa hér heima.

Þm. spyr um það, hvort átt hafi sér stað nokkrar viðræður við Norðmenn um gagnkvæm réttindi í þessum efnum. Engar slíkar viðræður hafa átt sér stað. Þær einu viðræður við Norðmenn og Dani, sem átt hafa sér stað, eru beiðni okkar um löndunarleyfi fyrir þá síldarbáta, sem veiðar stunduðu í Norðursjó á s.l. ári, en þær viðræður fóru fram af hálfu sendiherra okkar hvers á sínum stað, og viðræður um annað hafa ekki átt sér stað. Ég las það hins vegar, sennilega í sömu blöðum og hv. 4. þm. Austf., að norski sjávarútvegsmálaráðherrann lá undir mjög harðri gagnrýni skipstjóra í Noregi fyrir að gefa þetta leyfi til handa íslenzkum skipum, og var m. a. á það bent í ádeilum á hann fyrir þessa leyfisveitingu, að engin slík réttindi hefðu Norðmenn á Íslandi. Þetta er það eina, sem ég hef séð um þessi mál, en við hann eða milli okkar hafa engar viðræður átt sér stað að öðru leyti.

Jafnframt því, sem ég tel, að eigi almennt að fara varlega með þessa leyfisveitingu, þá tel ég sérstaka ástæðu til, eins og þm. einnig gerði grein fyrir hér áðan, að gjalda sérstakan varhug við löndun erlendra botnvörpunga. Hins vegar hefur óneitanlega verið nokkur ásókn í það af hálfu íslenzkra fiskvinnslustöðva, að ekki yrði eins stíft haldið á þessum málum og verið hefur undanfarin ár, og er það þá sérstaklega, þegar að hefur hert með hráefnisöflun. En um málið almennt, þá vil ég lýsa því yfir, að það mun verða farið eins varlega og kostur er í sambandi við þessar undanþágur, en ég tel ekki óeðlilegt, að þær þjóðir, sem við sækjum harðast á um að fá slík réttindi hjá — eins og við höfum gert fyrir okkar síldveiðiflota á Norðurlöndum — mundu óska sér sömu aðstöðu hér heima, en viðræður um þau atriði hafa ekki átt sér stað.