14.11.1968
Efri deild: 14. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 903 í B-deild Alþingistíðinda. (926)

16. mál, tilkynningarskylda íslenskra skipa

Frsm. (Pétur Benediktsson):

Herra forseti. Frv. þetta er flutt samkv. 28. gr. stjórnarskrárinnar til staðfestingar brbl. frá 17. maí 1968 um tilkynningarskyldu íslenzkra skipa eða réttara sagt um heimild fyrir samgmrh. til að gefa út reglugerð um tilkynningarskyldu, þar sem m.a. séu ákvæði um sektarviðurlög varðandi brot gegn ákvæðum reglugerðarinnar.

Sjútvn. hefur athugað þetta frv. og er sammála um að mæla með samþykkt þess. Hún álítur, að hér hafi verið um þarft skref að ræða til aukins öryggis á sjó við Íslandsstrendur, og ekki sízt á þeim fjarlægu miðum, sem nú er farið að sækja. Hins vegar er rétt að geta þess, að athygli n. hefur beinzt að óánægju af kostnaði við tilkynningarskylduna, sem komið hefur upp í a.m.k. einum landshluta og raunar kannske víðar. Þetta mál er til nánari athugunar hjá n., og það er hugsanlegt eftir þá athugun, að n. eða einstakir nm. beri fram brtt. við frv. í því tilefni við 3. umr., en þar sem athugununum í þessu sambandi er ekki að fullu lokið enn, tel ég ekki ástæðu til að fjölyrða um þá hlið málsins á þessu stigi, en legg til, að frvgr. verði samþ. óbreyttar og málinu vísað til 3. umr.