25.03.1969
Neðri deild: 69. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 913 í B-deild Alþingistíðinda. (965)

192. mál, Landsvirkjun

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Hæstv. raforkumálaráðh. las fyrir okkur hluta af grg. þessa frv. og bætti síðan við nokkrum almennum tölum um tekjur Búrfellsvirkjunar og um fyrirhugaða stækkun alúmínbræðslunnar og tekjur, sem því væru samfara. Mér hefði þótt fróðlegt, ef hæstv. ráðh. hefði vikið að fleiri atriðum í sambandi við þetta mál.

Þegar samningar voru gerðir um byggingu alúmínbræðslu, komu fram hjá stjórnvöldum og ýmsum öðrum áhyggjur út af því, að hér á landi væri ekki nægilegt vinnuafl til þess að anna þeim miklu framkvæmdum, og þess vegna var ákveðið, að alúmínbræðslan skyldi byggð í áföngum, 30 þús. tonna bræðsla skyldi fullgerð í ár, en síðari helmingurinn í tveimur áföngum og henni ekki að fullu lokið fyrr en 1975. Ástæðan til þess, að farið er fram á stækkun þremur árum fyrr, er sú, að áhyggjur manna um skort á vinnuafli hafa snúizt í andstæðu sína. Á síðasta vetri og sérstaklega á þessum vetri hefur verið mjög mikill fjöldi atvinnuleysingja á Íslandi, og hæstv. ríkisstj. gerir sér vonir um að útvega nokkrum hundruðum manna vinnu við þessar nýju framkvæmdir á næstu árum. Hæstv. ráðh. nefndi tölur í því sambandi. Það voru um 700 manns, sem hæstv. ráðh. nefndi.

Ég held, að ástæða hefði verið til að ræða hér almennar hugmyndir ríkisstj. og okkar alþm. um þróun atvinnumála og efnahagsmála á næsta áratug eða svo í sambandi við þetta frv., því að þegar þetta frv. verður að lögum, dregur það að sjálfsögðu dilk á eftir sér. Hin upphaflega áætlun var við það miðuð, að Búrfellsvirkjun mundi nægja okkur Íslendingum til raforkuframleiðslu fram til 1977–1978 og þá þyrfti ekki að hefjast handa um nýja virkjun í okkar þágu fyrr en 1973–1974. En með þeim hraða, sem nú er rætt um, verður auðsjáanlega að ráðast í nýja virkjun þegar á næsta ári, og um það eru nú þegar áform, eins og hæstv. ráðh. vék að, virkjun í Tungnaá við Sigöldu. Mér þætti fróðlegt að heyra það hjá hæstv. ráðh., hvort ekki er áformað, að frv. um það efni verði lagt fyrir þetta þing. Mér skilst, að ef áformin um Sigölduvirkjun eiga að standast, þurfi framkvæmdir að hefjast þegar á næsta ári, og fæ ég vart annað skilið en löggjöf um það efni hljóti að þurfa að koma frá þessu þingi.

Aðrar miklar framkvæmdir eru fyrirhugaðar einnig. Það eru miðlunarframkvæmdir í Þórisvatni, sem hæstv. ráðh. vék að, og Köldukvíslarveita. En hæstv. ríkisstj. hefur fleiri slík áform á prjónunum. Hún hugsar sér, að á eftir Sigölduvirkjun verði ráðizt í nýja stórvirkjun í Efri-Þjórsá. Þar er um að ræða u.þ.b. þriðjungi stærri virkjun en Búrfellsvirkjun er, og er áætlað, að kostnaður við raforkuframleiðslu þar verði ekki hærri en kostnaðurinn við rafmagn frá Búrfellsvirkjun. Þarna er um að ræða mjög stórfellda virkjun, eins og ég sagði, eða 2200 millj. kw-stundir á ári, og kostnaður við þá virkjun er áætlaður 5–6 milljarðar kr. En báðar þessar virkjanir, Sigölduvirkjun og virkjun Efri-Þjórsár, eru við það miðaðar í áætlun hæstv. ríkisstj., að þær verði tengdar nýjum, erlendum stórfyrirtækjum. Raforkan frá Sigölduvirkjun á að duga nýrri alúmínverksmiðju, 60 þús. tonna, eða einhverju hliðstæðu stórfyrirtæki í eigu útlendinga. Raforka, þar sem nýtt væri allt fallið í Efri-Þjórsá, ætti að notast tveimur slíkum verksmiðjum.

Hæstv. ríkisstj. hefur þannig í hyggju, að á næsta 1/2 áratug bætist 3 erlend stórfyrirtæki ofan á þá alúmínbræðslu, sem þegar er verið að reisa hér á landi. Þetta eru ákaflega stórfelld áform, og mér hefði fundizt nauðsynlegt, að þau væru rædd hér í samhengi við þarfir þjóðfélagsins og við þau verkefni, sem við verðum sjálfir að leysa, ef það á að verða. lífvænlegt í landinu.

Með þeim áformum, sem ég var að ræða um, er gert ráð fyrir því, að Íslendingar taki erlend lán, sem nema hátt í 10 milljörðum kr., og leggi fram vinnuafl, sem verður meðan byggingarframkvæmdir standa yfir um 3000 manns á ári. Það er sem sé áformað, að við eigum á næsta 1/2 áratug að einbeita hugsanlegu lánstrausti okkar og vinnuafli að þessum stórframkvæmdum, sem hafa það meginmarkmið að framleiða raforku, sem við seljum sem hráorku erlendum auðfyrirtækjum, sem síðan hafa tök á að flytja ágóða sinn úr landi. Þetta eru áform hæstv. ríkisstj. í efnahags- og atvinnumálum, einu áþreifanlegu áformin, sem ég hef frétt um.

En eru slík áform í samræmi við nauðsyn þjóðfélagsins, eins og hún blasir við í dag? Það held ég, að sé fjarri sanni. Það er alkunna, að fólki á vinnumarkaði fjölgar mjög ört á næstunni. Fjölgunin nú er rúm 2 þús. manns á ári. Fjölgunin fram til 1985 hefur verið áætluð 34 þús. manns. Það þarf því að tryggja atvinnu fyrir býsna mikinn fjölda miðað við hinar smávöxnu, íslenzku aðstæður. Þau erlendu stórfyrirtæki, sem rætt er um að koma upp, munu ekki leysa þennan vanda fyrir okkur. Þar munu aðeins vinna um 1000 manns eða svo, þegar þeim hefur öllum verið komið upp. Ef þau áform standast, að þessi fyrirtæki verði komin upp 1976, verður aukning á vinnumarkaðinum á Íslandi hins vegar orðin um 10 þús. manns. Og hvar eru áform hæstv. ríkisstj. um það, hvar þetta fólk á að vinna? Það eru ekki nema tímabundin verkefni að reisa raforkufyrirtæki handa erlendum auðfélögum. Á okkur hvílir sú skylda að koma upp atvinnurekstri, sem tryggir íslenzkum þegnum frambúðarverkefni. En þessi áform leysa engan veginn þann vanda.

Það er mikið um það rætt og réttilega, að ef við ætlum að leysa þetta vandamál, verðum við að iðnvæða Ísland, við verðum að koma upp nútíma iðnrekstri. En engin slík áform felast í þessum ráðagerðum hæstv. ríkisstj. Þetta eru aðeins ráðagerðir um, að við eigum að nýta orkuna í fallvötnum okkar sem hráorku handa öðrum, við eigum ekki að komast á stig iðnaðarþjóðfélags, heldur halda áfram á stigi hráefnaframleiðenda, eins og við erum fyrst og fremst í sjávarútvegi okkar. Orkuframleiðsla ein saman er ekki sérlega arðbær atvinnurekstur. Af því höfum við þegar reynslu. Við sömdum við svissneska alúmínhringinn um sölu á raforku fyrir lægsta verð, sem um getur í Evrópu, verð, sem er ekki ýkja mikið yfir kostnaðarverði, ef það verður þá yfir því. Framleiðsla á slíkri raforku mun aldrei nýtast Íslendingum til þeirrar þróunar, sem við þurfum á að halda. Því aðeins kemur orkuframleiðsla okkur að gagni, að við séum menn til þess að hagnýta orkuna sjálfir. Orkuframleiðsla verður að haldast í hendur við iðnvæðingu. Og á því sviði eru engin áform tiltæk, svo að ég þekki.

Hæstv. ráðh. tala að vísu fagurlega um þetta, að við þurfum að iðnvæða Ísland. Og þeir tala um, að við þurfum að ganga í EFTA til þess að fá 100 millj. manna markað fyrir þær vörur, sem við kunnum að framleiða. En þeir hafa ekki nokkra minnstu hugmynd um það, hvaða vöru á að framleiða. Þeir hafa engin áform um það, hvernig á að þróa íslenzkan iðnað til þess að ná þessum markmiðum.

Ég hlustaði á hæstv. forsrh. svara spurningum í sjónvarpi fyrir nokkrum dögum, og þar vék hann að þessu vandamáli. Og hann sagði í lok viðtalsins eitthvað á þá leið, að ef við gengjum í EFTA, þá mundum við á eftir koma auga á verkefni, sem hentuðu okkur. Hæstv. ráðh. hafði engar hugmyndir sjálfur. Hann vonar aðeins, að ef við göngum í EFTA, muni möguleikarnir blasa við okkur á eftir. Þetta minnir mig raunar á kunna sögu um ágætan mann, sem var hér á ferðalagi einu sinni og kom að vatnsfalli, sem hann þurfti að komast yfir. Honum var hjálpað út í árabát og bátnum var ýtt frá landi, en þá heyrðist ferðamaðurinn segja: „Mér láðist að geta þess, að ég kann ekki að róa.“ Hæstv. forsrh. hefur sýnt það, að hann kann ekki að róa. Hins vegar gerir hann sér það ekki ljóst sjálfur. Og ég held, að það sé ákaflega brýnt, að þjóðin hefji þann björgunarleiðangur, sem til þess þarf að bjarga hæstv. ráðh. að landi, áður en hann rekur undan straumi út í hafsauga.

Þetta frv. er tvímælalaust nátengt öllum hugmyndum um framtíðarþróunina á Íslandi. Og þegar við erum að taka ákvörðun um það, hvort við eigum að flýta Búrfellsvirkjun og verja því lánstrausti, sem kann að vera fáanlegt, til þess að flýta henni, þá þarf að færa rök að því, að sú framkvæmd sé skynsamlegri og arðbærari en aðrar hugsanlegar framkvæmdir, sem við getum ráðizt í. Og það þarf einnig að muna eftir því, að þetta er 1. áfangi í miklu lengri þróunarrás, eins og ég var að rekja hér áðan. Og það er í sjálfu sér fráleitt að fjalla um hluti eins og þessa einangraða. Okkur ber að tengja þetta saman við þá þróun, sem við ætlun okkur á næstu einum eða tveimur áratugum. Ég held, að það væri ákaflega þarflegt í áframhaldandi umr. um þetta frv., ef hæstv. ríkisstj. vildi gera mun nánari grein fyrir hugmyndum sínum um það efni. En í sambandi við atriði, sem fram kom í ræðu hæstv. raforkumálaráðh., langar mig til þess að beina til hans örlítilli fsp.

Hæstv. ráðh. greindi frá því, að nú væri um það talað að stækka alúmínbræðsluna í Straumi, ekki aðeins upp í 60 þús. tonn eins og fyrirhugað var, heldur upp í 86 þús. tonn, og að sú stækkun yrði komin til framkvæmda 1974. Nú þætti mér fróðlegt að vita, með hvaða raforkuverði þá er reiknað. Þegar samið var við alúmínhringinn í upphafi, var það viðurkennt af hæstv. ríkisstj. og sérfræðingum hennar, að raforkuverð það, sem um væri samið, væri fjarskalega lágt. En þetta lága verð átti að helgast af því, að hér væri um algert nýmæli að ræða á Íslandi, þetta væri hálfgerð tilraunastarfsemi og það væri ekki hægt að ætlast til þess, að erlent fyrirtæki kæmi upp slíku stórvirki án þess, að við gerðum eitthvað fyrir það á móti. Hins vegar var lögð á það þung áherzla í skýrslu hæstv. ríkisstj. til Alþ. um þetta mál, að raforkuverðið hlyti og yrði að hækka, þegar samið væri um stækkun þessarar verksmiðju. Ég skal t.d., með leyfi hæstv. forseta, lesa hér örstuttan kafla úr þessari skýrslu. Það er á bls. 24. Þar segir svo um stærð verksmiðjunnar í Straumsvík:

„Það hefur hins vegar verið skoðun n., sem Alþjóðabankinn hefur einnig lagt áherzlu á, að Íslendingar ættu ekki að binda sig í þessu efni nema sem allra minnst. Vegna þess, að 1. áfanginn í stórvirkjunarmálum er sérstaklega erfiður hjalli fyrir Íslendinga, mundu þeir samningar, sem nú virðast mögulegir, geta orðið Íslendingum mjög hagstæðir. Á hinn bóginn er engin ástæða til þess, að jafngóð kjör yrðu í boði, ef til stækkunar kæmi, enda yrðu þá viðhorfin í virkjunarmálunum allt önnur en nú. Ef allt gengur vel í þessum efnum, svo að Íslendingar teldu sér hag að frekari stækkun alúminíumverksmiðjunnar í framtíðinni, ættu Íslendingar að geta fengið svo að segja sömu kjör og Norðmenn þá byðu. Eftir því sem alúminíumverksmiðjur stækka, verða þær hagstæðari, svo að Swiss Aluminium mundi tvímælalaust hafa áhuga á stækkunum, ef aðstæður í alúminíumiðnaðinum væru þá enn svipaðar og nú.“

Á þetta er lögð áherzla á mörgum stöðum í þessari skýrslu, að það lága verð, sem um var samið í upphafi, megi ekki haldast, að ekki sé hægt að fallast á neina stækkun þessarar verksmiðju, nema raforkuverðið verði hækkað til muna. Og því vil ég spyrja hæstv. ráðh., hvort í þessu umtali um stækkun verksmiðjunnar felist það, að alúmínhringurinn sé reiðubúinn til þess að greiða verulega hærra raforkuverð til þessarar stækkunar?