28.04.1970
Neðri deild: 88. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 899 í B-deild Alþingistíðinda. (1042)

174. mál, lax- og silungsveiði

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Eins og kom fram í umr. hér í hv. d., þegar þetta mál var til meðferðar, þá voru mjög litlar brtt. gerðar við þetta frv. Ekki vegna þess, að bæði nm. og ýmsir aðrir hv. þdm. hefðu ekki áhuga á að breyta frv., en þeir vildu þó, að það yrði afgr. hér á þessu þingi. En það var sérstaklega ein breyt., sem menn lögðu áherzlu á, að yrði gerð á frv., eins og það var. Það komu ýmsir landeigendur, bæði úr Borgarfirði, Árnessýslu og Rangárvallasýslu, og lögðu þetta ferðalag á sig til þess að undirstrika það — og óska þess, að þessi breyt. yrði gerð á frv., og mundu þeir sætta sig við, að það færi fram, þó að þeir væru að ýmsu leyti ekki ánægðir, ef þessi eina breyt. væri gjörð á. Til þess að setja ekki frv. í hættu og í þeirri von, að hv. þd. og Alþ. tækju einróma óskir þessara manna til greina, þá tókum við þann kost að koma með aðeins tvær brtt., þessa og aðra, sem var mjög lítil breyt., og urðu ekki um hana nein átök í hv. d.

Nú hefur það hins vegar gerzt, að þessi breyt., sem við gerðum á frv., þ.e.a.s. að fjölga ekki í stjórn veiðimálanefndar, var aftur felld og breytt í upphaflegt form í hv. Ed. Við teljum þetta svo mikla breyt., að við viljum ekki fallast á hana. Við leyfum okkur hér, ásamt mér hv. þm. Benedikt Gröndal, hv. þm. Ágúst Þorvaldsson, hv. þm. Hannibal Valdimarsson og hv. þm. Halldór E. Sigurðsson, að leggja til, að 48. gr. í frv. falli niður.

Það kom fram í umr. hér, ég lét það a.m.k. í ljós, að sú skipan, sem væri á þessum málum, ætti ekki að verða til frambúðar. Ég held, að það sé a.m.k. skoðun ýmissa bænda, að það væri eðlilegra, að veiðimálastjóri væri bara ráðunautur hjá Búnaðarfélaginu og þessi deild eins og aðrar félli undir Búnaðarfélagið. Með því að breyta þessu í það horf, sem Ed. lagði til og hæstv. landbrh. mun hafa lagt áherzlu á að gert væri, verður það einmitt til þess að hindra þessa skynsamlegu og eðlilegu þróun þessara mála.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að vera að tala hér langt mál út af þessu eða ræða frv. á annan hátt, en ég vil sérstaklega undirstrika það, að allir þeir landeigendur, sem við okkur hafa talað, hafa lagt mikla áherzlu á, að þessi breyt. á gildandi lögum nái ekki fram að ganga. Ekki sízt vegna þess, að að öðru leyti eru bændurnir ekki ánægðir með það frv., sem hér er, vonast ég til þess, að hv. þd. taki til greina óskir þeirra að þessu leyti.

Þar sem þessi till., herra forseti, er skriflega flutt og of seint fram borin, þá óska ég eftir því að það verði leitað afbrigða við henni.