28.04.1970
Neðri deild: 88. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 902 í B-deild Alþingistíðinda. (1046)

174. mál, lax- og silungsveiði

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Hæstv. landbrh. var nú að gera mér upp það, sem ég mundi segja hér á eftir. Þetta var nú að mínu viti óþarfi.

En í sambandi við þetta mál, þá finnst mér það eiginlega dálítið furðulegt, hvernig ráðh. talaði, því það kom fram, að hann vissi um bændur, sem mundu vilja þetta frv. feigt með þessari breyt., sem var gerð í hv. Ed. Hann hefði ekki talað, eins og hann talaði, ef það hefði ekki verið búið að hafa samband við hann af bændum, sem hugsuðu þannig, enda er það engin launung, að þannig hafa margir hugsað nú. En ég kemst nú ekki hjá því, fyrst hæstv. landbrh. talaði þannig, að segja, hvernig hann lagði þetta frv. fyrir Ed. Hæstv. ráðh. sagði í Ed., þegar hann lagði málið fyrir þar til 1. umr., — með leyfi forseta, þá sagði hann þetta:

„Ég vildi mælast til þess, að hæstv. landbn., sem væntanlega fær þetta mál til meðferðar, athugi, hvort ekki sé rétt að breyta þessu ákvæði á ný þannig, að veiðimálanefnd skipi fimm menn, eins og gert var ráð fyrir í frv.“

Það er náttúrlega auðséð, hvaða maður það er, sem leggur ofurkapp á þetta mál, alveg þvert á vilja allra bændanna í landinu. A.m.k. hefur enginn bóndi haft samband við mig, sem hefur ekki lagt mjög mikið kapp á það, að frv. væri ekki breytt á þennan hátt. Ég óska ráðh. til hamingju með það, að hann skuli leggja slíka áherzlu á þetta mál beint á móti vilja bændanna. Og ef þetta frv. fer í sjálfheldu og verður fellt, þá er það verk hæstv. ráðh., og hann ber ábyrgð á því.