22.01.1970
Efri deild: 37. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 966 í B-deild Alþingistíðinda. (1197)

7. mál, sameining sveitarfélaga

Jón Þorsteinsson:

Herra forseti. Hv. frsm. fyrir nál. 1. minni hl., 4. þm. Sunnl., gat þess í sinni ræðu, að þessi brtt. frá meiri hl. heilbr.- og félmn., sem ég stend hér að, mundi vera sprottin af einhverjum sérstökum bræðingi eða samkomulagi innan meiri hl., en raunverulega hafi einhverjir menn í meiri hl. verið þessu andvígir. Þessu vil ég algerlega mótmæla. Við vorum allir í meiri hl. sammála um það, að erindreki ætti ekki að vera einráður og skeið hans skyldi vera tímabundið á einhvern hátt, þannig að það markmið kæmi fram í frv. Ég vil því sérstaklega mótmæla, að þessi till. sé einhvers konar bræðingur. Það voru allir sammála um þetta. Við gátum rætt um það orðalag, sem bezt var að hafa á þessu, og komumst að þeirri niðurstöðu, að þetta væri eðlilegt, en þarna var ekki um nein hrossakaup að ræða.

Hins vegar leikur mér nú grunur á því, að afstaða þeirra framsóknarmanna, sem skipa nú minni hl., sé aftur á móti til komin fyrir einhvern bræðing innan þingflokks Framsfl., því að ég hygg það, án þess að ég hafi þó öruggar heimildir fyrir því, að sumir menn hafi verið nokkuð jákvæðir þar og viljað taka undir frv., en aðrir hafi viljað fella það. Niðurstaðan varð svo þessi bræðingur, sem till. 1. minni hl. bera með sér, sem eru hvorki fugl né fiskur, þannig að það á að skerða mjög frv., en láta það þó lifa. Þeir um það.

En ég vildi aðeins skýra þetta orðalag: „fyrst um sinn“. Með þessu er í sjálfu sér verið að undirstrika það, að við teljum enga þörf á því, að þetta erindrekastarf verði gert að ævistarfi. Ég lít þannig á, að nú þegar hafi verið hafinn undirbúningur og maður getur sagt herferð að því að gera tilraunir til þess að sameina sveitarfélög, þ. e. kanna alls staðar á landinu, hvar mögulegur grundvöllur væri fyrir sameiningu sveitarfélaga, og það væri eðlilegt, að Samband ísl. sveitarfélaga og félmrn. hefðu forgöngu um þetta og lykju þessari könnun og þessum athugunum til hlítar. Slík athugun getur eðlilega tekið nokkur ár, og það hefur verið komið á samstarfsnefndum, og þeirra starfi þarf að ljúka. Það veit auðvitað enginn núna og getur enginn sagt um það fyrir fram, hvort sveitarfélög verða sameinuð einhvers staðar á landinu, þegar á á að herða og þegar þar að kemur, að þessi mál hafi verið könnuð til hlítar og sveitarstjórnarmenn og aðrir í hreppunum, sem um þessi mál fjalla, eru tilbúnir til þess að taka endanlega afstöðu. Mér finnst hins vegar eðlilegt, að þessari sérstöku athugun, sem við höfum hrundið í framkvæmd, verði lokið, og ég lít svo á, að það sé eðlilegt, að það taki fáein ár. Ég get ekki gizkað á neinn ákveðinn öruggan árafjölda fyrir fram. Þegar þessi sérstaka athugun á þessum sameiningarsvæðum er til lykta leidd, hvernig sem þær lyktir verða, þá tel ég, að það sé ekki lengur þörf fyrir þennan erindreka og það sé þess vegna á valdi rn. að meta það, hvenær verkefni þessa erindreka eru orðin svo lítil og takmörkuð, að það sé ekki þörf á því að hafa sérstakan mann í þessu starfi.

Hins vegar tel ég það skynsamlegt, að meðan þessi sérstaka athugun og herferð stendur yfir, sé sérstakur maður hafður í þessu og sá maður hafi talsvert mikið ákvörðunarvald á bak við sig, eins og þetta frv. heimilar, ef það verður samþ., því að með því móti er miklu líklegra, að störf hans geti borið árangur.

Þetta orðalag: „fyrst um sinn“, sem hér hefur verið gagnrýnt, táknar ekki annað en það, að meðan nægileg verkefni eru fyrir hendi, sem útlit er fyrir næstu árin, á meðan þessari sérstöku könnun, sem hafin er, er ekki lokið, þá sé hafður sérstakur maður í þessu. Þarna er sem sagt fyrst og fremst verið að undirstrika það, að við teljum enga þörf á æviráðnum manni.

Hitt er svo annað mál, og um það eru auðvitað skiptar skoðanir hjá mönnum, hvort það sé yfirleitt heppileg stefna og skynsamleg að gera mikið að því að sameina sveitarfélög. Þetta frv. byggir í grundvallarreglunni á því, að sameining sé ekki gerð, nema sveitarfélögin og sveitarstjórnarmenn eða íbúar sveitarfélaganna vilji það og óski eftir því. Ég hygg, að flestir séu sammála um það, en mér finnst að menn megi ekki, þó að þeir séu andvígir því, að sveitarfélög séu sameinuð, og telji skynsamlegt að fara hægt í sakirnar, láta það bitna á þessum erindreka, því að hann á ekkert að gera annað en kanna málin og koma á samstarfsnefndum og athugunum. Enginn veit fyrir fram, til hvers það leiðir. Ef það sýnir sig, að starf þessa erindreka, ef þetta frv. verður lögfest, beri ekki árangur og þegar á á að herða, þá vilji hreppar úti um landið, þar sem menn telja grundvöll vera fyrir hendi til sameiningar, alls ekki gera það, þá geri ég ráð fyrir, að það líði langur tími, þangað til við þessum málum verður hróflað á nýjan leik. En mér finnst, að þeirri sérstöku athugun, sem nú er í gangi, eigi að ljúka og það eigi að reyna að gera þetta myndarlega.