09.03.1970
Neðri deild: 56. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1005 í B-deild Alþingistíðinda. (1218)

7. mál, sameining sveitarfélaga

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Margir hafa nú tekið til máls út af þessu frv., sem hér er til umr., og ég verð að segja það, að hið ánægjulega hefur gerzt, að flestir þeir, sem hafa talað, eru því andvígir. Ég er einn af þeim, sem sjá ekki ástæðu til þess að stuðla að samþykkt þessa frv. Ég get ekki betur séð en að löggjöfin í sambandi við sameiningu sveitarfélaga sé þannig, að það þurfi ekki að breyta henni á nokkurn hátt, a. m. k. í þá átt að ýta undir þessa þróun. Þar með segi ég ekki, að það geti ekki verið æskilegt, að sum sveitarfélög sameinist. En það verður að koma frá þeim sjálfum, og fólkið, sem býr í þessum sveitarfélögum, á að finna með sér þörf á því að gera það, en ekki á að ýta á það frá hinu opinbera.

Í raun og veru segir 1. gr. frv. mjög mikið, hvaða hugarfar er þarna á bak við. 1. gr. frv. er þannig, með leyfi forseta:

„Félmrn. skal í samráði við Samband ísl. sveitarfélaga stuðla að eflingu sveitarfélaganna með því að koma á sameiningu tveggja eða fleiri sveitarfélaga í eitt sveitarfélag, samkvæmt því, sem fyrir er mælt í lögum þessum.“

Niðurstaða þeirrar n., sem falið var að athuga þetta mál, hefur orðið sú, að það sé þörf á því að sameina þessi sveitarfélög, og nm. finnst vera þörf á því að setja hér upp nýtt embætti til að stuðla að slíkri þróun mála. Ég verð að segja það, að mér finnst vera alveg nóg af nýjum embættum. Ég held, að við ættum frekar að stuðla að því, ef við sjáum, að hægt sé með sæmilegu móti, að fækka þeim heldur en að fjölga, ekki sízt í málum sem þessu.

Ég veit ekki betur en að það sé búið að ferðast um landið og kynna þetta mál. Þar, sem ég er kunnugastur, hefur komið fulltrúi frá Sambandi ísl. sveitarfélaga til þess að kynna málin, og þar hafa verið settar a. m. k. samstarfsnefndir á laggirnar til þess að ræða þessi mál. En hvað hefur gerzt? Einmitt fámennustu sveitarfélögin eru andvígust sameiningu. Ég get ekki stuðlað að því, að það sé verið að knýja þessar breytingar fram, knýja sameininguna fram, en í sjálfu sér er þetta frv. spor í þá átt, og ég sé ekki, hvaða tilgangi það á eiginlega að þjóna, nema þá þeim að knýja fram málið, því að eins og ég sagði áðan, er löggjöfin þannig, að það er engin fyrirstaða fyrir því að sameina sveitarfélög, ef menn vilja slíkt heima fyrir á annað borð.

Í sambandi við það, að ráðh. sé heimilt, eins og segir í 13. gr., að sameina nágrannasveitarfélög, ef íbúatalan er lægri en 50, þ. e. að þurrka þau út, þá held ég, að fólkið í þessum hreppum eigi líka, þó að þeir séu smáir, að ákveða framtíð sína, en ekki eigi að setja það í löggjöf, ab þau eigi engan tilverurétt.

Ég vonast til þess, að það verði ekki hrapað að því að afgreiða þetta frv. Ég held, að það sé ýmislegt annað, sem væri frekar ástæða fyrir hv. Alþ. að athuga en að knýja fram breytingar á þessu sviði.