10.03.1970
Neðri deild: 57. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1022 í B-deild Alþingistíðinda. (1226)

7. mál, sameining sveitarfélaga

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil að gefnu tilefni taka það fram, að ég mun að sjálfsögðu greiða atkv. með því, að þessu frv. verði vísað til athugunar í n. Ég vil svo fara nokkrum orðum um ýmis atriði, sem fram hafa komið í ræðum hv. þm. í dag, og vil ég þá fyrst víkja að ræðu hæstv. félmrh.

Það er hugboð mitt, að hæstv. núv. félmrh. sé ekki mjög áhugasamur um framgang þessa máls og hafi nú e. t. v. ekki kynnt sér til hlítar aðdraganda þessa frv., enda er það eðlilegt, því að hann var ekki félmrh., þegar sameiningarnefndin var skipuð, og þetta frv. var ekki heldur lagt fram á hans vegum, að ég ætla, þó að hann hafi síðan tekið við félmrn.

Hæstv. ráðh. fór nokkrum orðum um þá framkvæmd, sem hann hugsaði sér með þessu frv., ef að lögum yrði, ef hann hefði þá framkvæmd með höndum, og þau ummæli, sem hann hafði um það efni, voru hófsamleg. Hann sagði, að í rauninni væri þetta frv. ekki um sameiningu sveitarfélaga, ef ég hef tekið rétt eftir, a. m. k. meginefni þess væri ekki um sameiningu sveitarfélaga, heldur um athugun á þessum málum. Það er nú svo, og það má vera, að það sé skilningur hans á málinu, og hann vildi gjarnan, að það væri þannig. En frv. heitir nú „Frumvarp til laga um sameiningu sveitarfélaga“, og í einni gr. frv., þ. e. a. s. í 13. gr., er beinlínis gert ráð fyrir heimild ráðh. til slíks. En að öðru leyti væri það réttara að segja, að frv., eins og ég nefndi hér í minni fyrri ræðu, sé um ríkisáróður fyrir sameiningu sveitarfélaga. Og ég sagði í ræðu minni hér við fyrri meðferð málsins, að jafnvel þótt það kynni að koma til greina að sameina sveitarfélög, ef þau sjálf vildu, teldi ég ekki ástæðu til að koma af stað slíkum ríkisáróðri fyrir sameiningunni, og skal ég ekki endurtaka það, sem ég sagði fleira um þennan áróður.

Hæstv. ráðh. andmælti ekki því, sem ég sagði um skipun n. Það er staðreynd, að n. var þannig skipuð, að í henni á ekki sæti neinn fulltrúi frá hinum fámennustu sveitarfélögum, og þó er því haldið fram sem rökum fyrir þessu máli, að þetta sé fyrst og fremst fyrir þau gert, til að leysa þeirra mál. Hvað var þá eðlilegra en þau ættu fulltrúa í þessari n. fyrst og fremst, til þess að lýsa þessum vandkvæðum sínum og gera grein fyrir óskum sínum? Ég geri ráð fyrir, að hæstv. ráðh. sé mér í rauninni sammála um þetta, en hann sagði, að þetta þýddi nú ekki það, að verið væri að ganga fram hjá þessum fámennari sveitarfélögum, þau ættu einnig fullan hlut að máli, því að það hafi verið rætt við sveitarfélögin um þetta mál, áður en till. voru gerðar. Auðvitað er það nú nokkuð annað, eins og við vitum hér alþm., að einhver aðili eigi fulltrúa í n. eða það sé rætt við hann og n. taki síðan ákvörðun á eftir.

En ég er hræddur um þar að auki, að hæstv. ráðh. hafi ekki athugað nógu vel gögn málsins, þegar hann sagði, að rætt hefði verið við sveitarfélögin um þessi mál. Það var a. m. k. ekki alls staðar vitað. Ég hef hér fyrir framan mig handbók sveitarstjórna, hefti, sem heitir Sameining sveitarfélaga og er um þetta mál, gefið út 1969. Og ég var áðan að fletta þessari bók, og þá kom ég fyrst niður á 40. athugunarsvæðið, sem svo er kallað, á bls. 46. En í fylgiriti með þessu máli hefur landinu verið skipt í athugunarsvæði svokölluð, sem eru hugmyndin um hreppaskiptinguna. Á 40. athugunarsvæði eru Hálshreppur, Ljósavatnshreppur og Bárðdælahreppur. Það eru samtals 733 íbúar, sem þarna er talið, að geti orðið einn hreppur. Og svo segir: „Fundur með hreppsnefndunum hefur ekki verið haldinn.“

41. athugunarsvæðið er Skútustaðahreppur. Það er aðeins einn hreppur með 447 íbúa. Þar segir ekkert um þetta, enda er ekki um neina sameiningu að ræða.

Næst kemur 42. athugunarsvæðið. Það er Reykdælahreppur og Aðaldælahreppur með samtals 827 íbúa. Gert er ráð fyrir, að það verði einn hreppur. Þar segir: „Fundur hefur ekki verið haldinn með hreppsnefndum.“

Næsta athugunarsvæðið, 43., er Húsavíkurkaupstaður, Flateyjarhreppur, Reykjahreppur og Tjörneshreppur, sem samtals hafa 2144 íbúa. Um þetta segir: Fundur var haldinn með bæjarstjórn Húsavíkur og hreppsnefnd Flateyjarhrepps, en ekki er það nefnt, að fundur hafi verið haldinn með fulltrúum Reykjahrepps og Tjörneshrepps.

Hér kemur næst 44. athugunarsvæðið. Á því eru Kelduneshreppur og Öxarfjarðarhreppur, Fjallahreppur og Presthólahreppur, samtals 699 íbúar. Þar segir: „Fundur hefur ekki verið haldinn í hreppsnefndinni.“

Og hér vil ég enn nefna eitt athugunarsvæðið, 46. athugunarsvæði. Á því eru taldir Svalbarðshreppur, Þórshafnarhreppur og Sauðaneshreppur, með samtals 704 íbúa, og þar segir: „Fundurinn með hreppsnefndunum hefur ekki verið haldinn.“

Ég held, að af þessu, sem ég hef nú lesið, komi það fram, að það vantar eitthvað á það, að fundir hafi verið haldnir með hreppsnefndum og leitað álits þeirra, áður en þetta mál var lagt fram af n. og frv. samið. Þetta, sem ég nú hef lesið, á aðeins við nokkurn hluta landsins, þar sem ég er kunnugastur. Ég hef ekki kynnt mér það enn þá til hlítar, hvernig fundarhöldum n. með hreppsnefndum hefur verið háttað á öðrum stöðum.

Hæstv. ráðh. sagði í upphafi ræðu sinnar, að það væri skoðun hans, að stór sveitarfélög séu betur fær um það en smá að gegna hlutverki sínu, og mjög fámenn sveitarfélög væru ekki fær til þess. Ég virði fullkomlega þessa skoðun ráðh. sem skoðun hans. En um þetta tel ég, að sveitarfélögin sjálf séu bezt fær að dæma. Hann reyndi, eins og hans var von og vísa, að leita að rökum fyrir þessu, þar sem hann sagði sem skoðun sína, að mjög fámenn sveitarfélög væru ófær til þess að annast hlutverk sitt sem sveitarfélög, og hann nefndi t. d., að hluti sveitarfélaganna af ríkisframfærslunni hlyti að hvíla þungt á fámennum sveitarfélögum, sömuleiðis meðlög með óskilgetnum börnum og lendingarbætur, sem gerðar væru í hinum fámennari sveitarfélögum. Ég held, að það sé fremur lítið um þessar lendingarbætur í fámennum sveitarfélögum. En um hafnargerðirnar, sem aðallega eru nú lagðir fjármunir í, er það að segja, að þær eru yfirleitt í kaupstöðum eða kauptúnum, og sveitarsjóðir eða bæjarsjóðir eða hafnarsjóðir standa straum af þeim, en taka í hafnarsjóði gjöld af þeim vörum, sem fluttar eru inn vegna þess svæðis, sem kauptún eða kaupstaðirnir eru verzlunarmiðstöð fyrir.

Í fljótu bragði fæ ég ekki séð, að ríkisframfærsla sjúkra manna eða meðlög með óskilgetnum börnum hljóti að koma þyngra niður á fámennum sveitarfélögum en fjölmennum, því að það er nú hlutfall í þessu öllu saman væntanlega, þ. e. í fjölmenni svæðanna og svo fjölda þeirra, sem verða sjúkir eða þurfa að greiða meðlög. Þó getur það verið, að þarna hallist einhvers staðar á, en um þetta á ekki að þurfa að vera með neinar tilgátur. Það liggur sjálfsagt fyrir, en í þessu máli hafa ekki verið lagðar fram neinar skýrslur um það, að vangoldið fé af þessum sökum væri hlutfallslega meira í fámennu sveitarfélögunum en hinum fjölmennu. Ef ég sé tölur um það staðfestar, mun ég að sjálfsögðu taka þær trúanlegar. En þær tölur liggja ekki fyrir, og yfirleitt hef ég ekki orðið var við það, að það lægi fyrir sem almenn regla, að fámennu sveitarfélögin væru meiri baggi á þjóðfélaginu en hin fjölmennari. Ef svo er, þá væri æskilegt, að vitneskja lægi fyrir um það, því að það má segja, að slíkt séu rök í málinu, ef þar væri um almenna reglu að ræða.

Skal ég þá ekki hafa fleiri orð um ræðu hæstv. ráðh. Hv. 4. þm. Vestf. hefur talað hér tvisvar sinnum, en ég ætla ekki að blanda mér inn í þau málefni, sem hann hefur rætt um við hv. 1. þm. Vestf. um staðhætti þar á Vestfjörðum. En hann virðist hafa staðfest það, þessi hv. þm., þegar hann var sýslumaður í Barðastrandarsýslu, sem ég hef leyft mér að halda fram, að hér sé fyrst og fremst um að ræða af hálfu áhugamanna um þetta mál að koma upp sterkum áróðri til þess að fá fámenn sveitarfélög til þess að fallast á það, sem þau í raun og veru vilja ekki fallast á. Með umsögn hans, sem hv. 1. þm. Vestf. las upp áðan, var þessari áróðurshugmynd mjög glögglega lýst.

Hv. 3. þm. Austf. ræddi hér nokkuð um þetta mál, og fannst mér gæta misskilnings hjá honum. Hann talaði um það, að við, sem höfum gagnrýnt þetta frv., værum að vekja tortryggni hjá sveitarfélögunum. Við höfum ekki hafið umr. um þetta mál. Þetta mál er lagt fram hér sem þingmál, og þm. eru að segja hér á því skoðun sína. Það má kannske lengi halda því fram, ef þm. segir skoðun sína í einhverju máli, að hann sé að vekja tortryggni hjá einhverjum, sem kynni að hafa verið með málinu. En það verður þá að hafa það.

Hann sagði, þessi hv. þm., að sambönd sveitarfélaganna, sem nú er verið að stofna, sýndu það, að sveitarfélögin teldu þörf á sterkari samstarfsheildum en nú eru til staðar. Og það er rétt. Sveitarfélögin telja þörf á sterkari samstarfsheildum. Þess vegna hafa sveitarfélög á Austurlandi stofnað Samband sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi, og sveitarfélög á Norðurlandi og sýslur hafa stofnað Fjórðungssamband Norðlendinga, og hliðstæð samtök hafa verið stofnuð víðar. Sveitarfélögin telja þörf á sterkari samstarfsheildum, en í því hefur ekki komið fram á neinn hátt, að þau teldu þörf á að breyta einingunum í þessum samstarfsheildum. Sveitarfélag er engin samstarfsheild, en sveitarfélag getur verið eining og er eining í samstarfsheild. Hér er um þessar einingar að ræða, hvort ríkið eigi að hefja áróður fyrir því að leggja þær niður eða sameina, þannig að stofnun fjórðungssambandanna er ekki neinn sérstakur rökstuðningur í þessu máli, menn skulu ekki halda það.