10.03.1970
Neðri deild: 57. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1025 í B-deild Alþingistíðinda. (1227)

7. mál, sameining sveitarfélaga

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Ég skal leitast við að hafa þetta ekki langt, sem ég hef að segja núna. Það eru aðeins örfá orð út af ræðu hv. 4. þm. Vestf., fyrrum sýslumanns Barðstrendinga.

Hann sagðist ekkert skammast sín fyrir það, sem hann hefði sagt og látið eftir sér hafa í Sveitarstjórnarmálum, og það er alveg rétt hjá honum, hann þarf ekki að gera það. Það er öðru nær. Það, sem hann segir þar um nauðsynina á að beita víðtækum áróðri fyrir sameiningu sveitarfélaga, talar hann af hreinskilni, og væri óskandi, að það hefði komið líka fram hjá fylgismönnum þessa frv., að það er þessi víðtæki áróður, sem frv. fjallar um. Hann segir það hreinskilnislega, hvað hann meinar, og það er innihald frv. Ég er honum þakklátur fyrir að segja þetta, því að frv. er um áróður.

Hann sagði frá fundi, sem hefði verið haldinn á Patreksfirði í sumar um þetta mál. Menn höfðu hreinlega samþ. að kjósa n. til að athuga málið. Það var nú allt og sumt. Þeir voru ekki að samþykkja neitt um sameiningu. Nei, öðru nær. Þeir samþykktu að kjósa þessa n. Það er ekkert við það að athuga, þó að menn ræði um sameiningu. Við höfum engir haft á móti því, fjarri því. En hann nefndi ekki, enda var það nú ekki hægt, eitt einasta atriði um það, að þeir þarna fyrir vestan í hans fyrra umdæmi hefðu gefið í skyn, að þeir kærðu sig um sameiningu, þó að þeir verði við beiðni erindreka, embættismanns félmrn., um að kjósa n. til að athuga málið. Það er allt annað, finnst mér.

Hæstv. félmrh. segir þetta mál komið frá Sambandi ísl. sveitarfélaga, svona rétt eins og ríkisstj. komi það ekkert við, þetta komi frá þeim þarna inn frá. Það er rétt, það bar á góma þar, og þar var samþ. ályktun um, að athugað skyldi um sameiningu sveitarfélaga í landinu. Það er ekkert við því að segja. En mér var nokkur forvitni á að vita, hvort fulltrúafundur Sambands ísl. sveitarfélaga hefði fjallað um þetta mál, þ. e. a. s. um frv. Ég hringdi þess vegna inn á skrifstofu sambandsins nýlega, og varð fyrir svörum fulltrúi þar, Unnar Stefánsson erindreki. Ég spurði að því, hvort frv. hefði verið lagt fyrir fulltrúafund Sambands ísl. sveitarfélaga. Hann sagði: „Nei, það hefur ekki verið gert.“ Og mér skildist, að það væri af þeim ástæðum, að frv. hefði ekki verið fullsamið, þegar síðasti fulltrúafundur var haldinn. Það hefði að vísu verið haldinn aukafundur norður í Mývatnssveit, ég held það hafi verið í sumar, um allt annað mál. En frv. hafði ekki legið þar fyrir. Þeir eiga þá eftir að segja álit sitt á því, fulltrúarnir víðs vegar af landinu í sambandinu, hvað þeir segja um þetta, svo að þetta er ekki frekar frá sjálfu sambandinu komið en að frv. var samið af þriggja manna undirnefnd og samþ. af níu manna n. Lengra, skilst mér, að málið sé ekki komið í athugun hjá sjálfu sambandinu.

Þá nefndi hæstv. ráðh. nokkur atriði um nauðsyn á sameiningu, sérstaklega hvað snerti litlu sveitarfélögin. Hingað til hefur verið flaggað mest með nauðsynina að því leyti, að það væru skólamálin, félagsheimilamálin, heilbrigðismálin og þess háttar. En hann nefndi nú ekkert af þessu, af því að það er búið að sýna rækilega fram á það, að þau er hægt að leysa með samstarfi sveitarfélaga.

En hann kom nú inn á önnur atriði, ég tók eftir þremur atriðum, sem hann nefndi. Það var þetta gamla fólk, sem þyrfti að fara á elliheimili, og það er nokkuð dýrt, það er rétt. En mér reiknast svo til, að fólk verði ekkert eldra í litlum sveitarfélögum en stórum, og ef það er um 50 manna sveitarfélag að ræða, og við skulum segja, að þar sé eitt gamalmenni, sem verði að fara á elliheimili, þá skilst mér, að í 500 manna sveitarfélagi verði 10 gamlir og að hlutfallið sé nákvæmlega hið sama, hvort sem sveitarfélagið er stórt eða lítið, og möguleikarnir til að þola það séu nokkurn veginn hinir sömu. Svona finnst mér nú þetta.

Hann nefndi hafnargerðir og lendingarbætur. Það eru nú meiri hafnargerðirnar, sem þarf að gera í þessum 40 til 50 manna sveitarfélögum. (Gripið fram í.) Ég þekki það ekki.

En svo nefndi hann eitt, og það voru barnsmeðlögin, þetta þyrfti að athuga. Ég legg nú til, að hæstv. ríkisstj. láti athuga þetta nákvæmlega fyrir okkur, áður en málið kemur til síðustu umr., hvort það séu virkilega mikil brögð að því, að það sé mikið um óskilgetin börn í þessum litlu sveitarfélögum. Nú get ég sagt hæstv. ráðh. það, að það er mér eiður sær, að ég hef t. d. ekki heyrt nefnt eitt einasta óskilgetið barn í Ketildalahreppi. Þeir geta vitnað um það, sem eru kunnugri, t. d. fyrrv. sýslumaður á Patreksfirði, hvort það eru nokkur dæmi um slíkt. Ég veit það ekki. Og ég held, að þetta hljóti líka að vera eitthvað hlutfallslegt, hvort sem sveitarfélög eru smærri eða stærri.

Mér þótti það merkilegt, að hæstv. ráðh. sagði, að það væri hægt að gera þetta samkv. núgildandi lögum, að sameina sveitarfélög, og það er alveg rétt. Hann tók alveg undir það. En til hvers er þá frv., má ég spyrja, fyrst þetta er hægt? Hann hefur sjálfur staðfest það. Hann segir, að meðan hann fjalli um þessi mál sem félmrh., muni hann framkvæma 13. gr. frv. mjög varlega og fara eftir því, hvað fólkið heima fyrir vill. Ég efast ekki um, að hann segi þetta rétt. Ég treysti honum fyllilega til þess að fara eftir vilja hreppsbúa í þessum efnum. En hvaða meining er þá með þessu frv.? Frv. er ekki miðað við það, hver er núv. félmrh. Þetta á að verða lög, sem eiga að gilda framvegis, og við vitum harla lítið um það, hvað komandi félmrh. kunni að gera, þó að núv. hæstv. ráðh. sé allur af vilja gerður að fara hér eftir vilja viðkomandi sveitarfélags.

Ég skal svo ekki brjóta þá heimild, sem hæstv. forseti gaf mér til að taka til máls.